09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5574 í B-deild Alþingistíðinda. (4834)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs um þingsköp er sú, að á haustdögum flutti ég hér frv. ásamt fleiri hv. þm. á þskj. 76, 71. mál Ed. Þetta frv. fjallar um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og hafa þau mál verið mjög í umræðu nú undanfarna daga, en þetta frv. gerir ráð fyrir að afnema einkarétt Grænmetisverslunar landbúnaðarins til þess að flytja inn kartöflur. Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, þar sem ég ætla að beina spurningu til formanns þeirrar n. sem hér um fjallar, að hafa að henni nokkurn formála þar sem ég á ekki sæti í þessari n. né minn flokkur.

Það er alkunna, og það vita allir þm. sem fylgst hafa með sjónvarpi og umræðum í fjölmiðlum núna, að ónýtar kartöflur eru boðnar landsmönnum til sölu þessa dagana og hefur oft kveðið rammt að umræðum um þessi mál, en þó sjaldan eða aldrei svo sem nú hina síðustu dagana. Þá hefur alveg keyrt um þverbak. Segir t. d. í grein eftir Jónas Guðmundsson, með leyfi forseta, í gær í Dagblaðinu:

„Það er skiljanlegt að brugðið geti til beggja vona hjá kartöflubændum á Íslandi. En í innflutningi munum við ekki til eilífðar sætta okkur við það raðaða svínafóður sem grænmetið býður okkur upp á ár eftir ár.“

Ég gæti auðvitað, og skal ekki ganga of langt í þeim efnum, haft um þetta miklu fleiri orð, en þegar menn kveðja sér hljóðs um þingsköp ræða menn ekki málið í mjög löngu máli efnislega þó að óhjákvæmilegt sé að víkja aðeins að vissum þáttum.

Þetta frv. hefur lengi verið til umfjöllunar í þessari n. og raunar væri ástæða til, herra forseti, að fá fram ýmsar upplýsingar um fyrirtækið Grænmetisverslun landbúnaðarins. Hver á það? Hver stjórnar því? Hvaða gjöld greiðir það til hins opinbera? Þetta eru þrjár veigamiklar spurningar sem ég veit að ég fæ ekki svar við undir þessum dagskrárlið, en mun gera kröfu um að fá svar við seinna.

En nú nálgast mjög fundatíma þingflokka og ég vil bara beina þeirri spurningu til formanns landbn. þessarar hv. deildar, hv. 11. landsk. þm., hvort ætlunin sé að afgreiða þetta frv. úr n. eða hvort n. ættar að sitja á því þannig að það dagi uppi á þinginu. Ef ekki er ætlunin að afgreiða þetta mál út úr hv. landbn. þessarar deildar verð ég að leita annarra leiða til að fá þetta mál tekið upp á Alþingi, vegna þess að hér er um mjög brýnt hagsmunamál neytenda að ræða sem ég tel að Alþingi verði að segja skoðun sína á nú.