09.05.1984
Efri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5575 í B-deild Alþingistíðinda. (4835)

Um þingsköp

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið hér hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, að hann flutti frv. til l. um breyt. á framleiðsluráðslögunum og það voru reyndar fleiri mál, sem voru flutt hér á Alþingi í upphafi þings, sem lutu að breytingum á þeim lögum.

Þessi frv. voru send til umsagna hjá hinum ýmsu aðilum og þær umsagnir skiluðu sér og í þeim voru æðimörg sjónarmið. Bæði fólu þær í sér stuðning við þessi frv. og eins líka ábendingu um að eðlilegt væri að fjalla um breytingar á framleiðsluráðslögunum við þá endurskoðun sem á sér stað á þeirri löggjöf, en eins og menn kannske vita kveður stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar á um að það eigi að endurskoða lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins.

Þegar þetta hvort tveggja lá fyrir, umsagnirnar og hversu deildar meiningar þar væru svo og líka þar sem endurskoðun á sér stað á framleiðsluráðslögunum, taldi ég eðlilegt að afgreiða málið á þeim grundvelli að því yrði vísað til þeirrar endurskoðunar og efnisleg umræða um þessi frv. færi þá fram í samræmi við aðrar breytingar á framleiðsluráðslögunum, sem menn hafa þá aftur möguleika á að fjalla um þegar þau koma til meðferðar hér í Ed.

Þrjá 1. flm., sem hafa flutt frv. til breytinga á framleiðsluráðslögunum, hafði ég samband við um þessa afgreiðslu, þ. e. afgreiðslu um að vísa málunum til ríkisstj. á grundvelli þessa nefndarstarfs. (Gripið fram í.) Ef menn vilja sleppa öllum útúrsnúningi í þessu máli að svo komnu, þá var hugsunin að vísa frv. til ríkisstj., en endurskoðunarnefndin starfar á vegum ríkisstj. svo það er auðvelt fyrir ríkisstj. að koma málinu boðleiðis þangað.

Mér hefur borist frá tveimur þessum flm. vitneskja um að þeir kærðu sig ekki um að málin yrðu tekin upp til afgreiðslu á þessum grundvelli. Þar af leiðandi hefur ekki farið fram frekari umræða um þessi mál í landbn. Ed. Landbn. Ed. hefur hins vegar ekki enn þá lokið störfum. Það kemur þá í ljós hvort þar er til staðar einhver meiri hl. til þess að skila nál. á einhverjum tilteknum grundvelli.

En þetta var till. mín um afgreiðslu á þessum málum, og hún hefur lengi legið fyrir.