08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

390. mál, lokun járnblendiverksmiðjunnar

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forsetti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir mikla skýrslu af þessu tilefni, en hitt var þó kannske mikilvægast að fá yfirlýsingu af hálfu ríkisstj. og þess ráðh. sem um þessi mál fjallar og með þau fer sem var gagnstæð þeirri opinberu yfirlýsingu sem seinast var uppi um þetta efni, nefnilega af hálfu hæstv. forsrh., þar sem gagngert var talað um könnun þess að loka verksmiðjunni. Mér er reyndar ekki grunlaust um að sú yfirlýsing hafi komið á mjög óheppilegum tíma því að einmitt stóðu þá yfir samningaumleitanir við hið japanska fyrirtæki um það samkomulag sem hæstv. iðnrh. upplýsti nú að væri að líkindum vænlegasti kosturinn og hefði væntanlega legið fyrir þegar til þeirra samningaumleitana var gengið að líklega væri mjög vænlegt.

En ég vænti að þessi nýja yfirlýsing af hálfu talsmanns ríkisstj., í þetta skipti hæstv. iðnrh., verði til þess að á þessum málum verði tekið í þeim anda sem hann talaði í áðan og það gert sem skynsamlegast er til að halda þessari atvinnustarfsemi gangandi.