08.11.1983
Sameinað þing: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

390. mál, lokun járnblendiverksmiðjunnar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þær upplýsingar sem hér hafa komið fram varðandi rekstrarafkomu og horfur Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga eru ekki sérstakt nýmæli fyrir menn hér í þingsölum, þar sem áður hefur komið skýrt fram hver afkoman hefur verið á undanförnum árum og verið leitað til þingsins um fyrirgreiðslu við fyrirtækið til að halda því gangandi. Hitt kom meira á óvart, eins og hv. fyrirspyrjandi hefur minnst á, þegar hæstv. forsrh. lýsti því yfir að þetta fyrirtæki væri verðlaust með öllu á sama tíma og hafnir voru samningar við hugsanlegan nýjan meðeiganda í fyrirtækinu.

Ég bað hins vegar um orðið til að vekja athygli á því, að í sambandi við þá samninga sem þar eru hafnir og standa yfir, að ég best veit, hljóta íslensk stjórnvöld að líta á möguleika á endurskoðun ýmissa þátta í samningum um þetta fyrirtæki, Íslenska járnblendifélagið, gagnvart báðum þeim eignaraðilum sem þarna eru inni í myndinni, núverandi samstarfsaðila Elkem og einnig hinum japanska aðila. Það er nefnilega vert að minna á það og vekja á því athygli. sem öllum er auðvitað í fersku minni sem tóku þátt í þessari umr. á sínum tíma, að þeir samningar sem gerðir voru við Elkem voru Íslendingum afar óhagstæðir um mörg atriði. Þ. á m. er sú þóknun sem Elkem fær fyrir svonefnda tækniþjónustu og er víðs fjarri öllu hófi og allri skynsemi. Það liggur m.a. fyrir vegna undirbúnings að kísilmálmverksmiðju, ef borið er saman það sem þar hefur verið gert og hins vegar það sem var gert á sínum tíma, og ekki síður hitt, að við skulum ekki hafa neitt að gera með sölu afurðanna. Við höfum ekki haft neitt að segja um þá hluti, heldur er það alfarið hjá þessum minnihlutaeignaraðila. Það er auðvitað óeðlileg aðstaða sem íslenska ríkið er þannig í sem forsvarsaðili og ábyrgðaraðill þessa fyrirtækis sem meirihlutaeigandi.