17.10.1983
Efri deild: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Það er aðeins vegna ummæla hv. 5. landsk. þm. um undirskrift handhafa forsetavalds undir þessi brbl. sem ég vildi gefa stutta skýringu. Ég er ekki að hafa á móti því að á Alþingi komi fram tillögur um breytingar á þeirri skipan sem þar er og þær verði samþykktar. Hins vegar býst ég við að öllum sé ljóst að það er ákvæði í stjórnarskránni um handhafa forsetavalds, og það ákvæði leggur þær skyldur á herðar þeim sem kosinn er forseti Sþ., að gegna þeirri skyldu sinni þangað til nýr forseti hefur verið kosinn. Og það mun hafa verið alloft, jafnvel þó að sá sem hefur verið forseti Sþ. hafi ekki verið í framboði til Alþingis eða ekki náð þar kjöri, að hann hefur gegnt starfinu þar til nýr hefur verið kosinn. Þarna er því um að ræða ótvíræða venju samkvæmt þessu ákvæði.

Það er líka ljóst að í stjórnarskrá eða þingsköpum er ekki neitt ákvæði um það að þm. missi sín réttindi þó að hann gegni störfum ráðh. Þar er því ekki heldur um brot að ræða á neinum lagaákvæðum.

Ég vildi láta þetta koma fram til að undirstrika það að þarna er aðeins um að ræða skyldur sem lagðar eru á herðar þeim sem kosinn er forseti Sþ. Ég er hins vegar ekki að andmæla því að fram komi tillögur um breytingar og að þær verði samþykktar ef hv. þm. sýnist að betur fari á því.