10.05.1984
Efri deild: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5645 í B-deild Alþingistíðinda. (4945)

83. mál, lögræðislög

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég get fyllilega tekið undir að mér þykir eðlilegt að hv. þingnefnd fái þetta mál til umfjöllunar. En ég kveð mér hljóðs vegna þess að við 1. umr. um þessi lögræðislög vakti ég athygli á að nauðsyn væri á leiðréttingu varðandi ákveðnar greinar þessa frv., þ. e. alveg sérstaklega varðandi 9., 17. og 18. gr. þess. Ég flutti þá mál þess félagsskapar sem látið hefur sig þessi mál miklu skipta og las m. a. upp grg. frá þeim félagsskap, þ. e. frá Geðhjálp, um þessi lögræðissviptingarmál einmitt varðandi ákveðinn málskotsaðila sem viðkomandi einstaklingar eða einhver fyrir þeirra hönd gætu skotið máli til úrskurðar og fengið þar afgreiðslu sinna mála sem allra hlutlausast. Því miður var málið afgreitt héðan frá hv. Ed. óbreytt. Ég var þá fjarri afgreiðslu málsins og ég sá það mér til vonbrigða að þessum ábendingum, sem komu frá Geðhjálp, hafði ekki verið sinnt í neinu. Hygg ég að það hafi stafað af ýmsum ástæðum sem ég hirði ekki um að rekja nú. Hv. Nd. hefur gert þetta með ákveðnum hætti, en vissulega mjög til bóta, að talið er, þeim skjólstæðingum Geðhjálpar sem upphaflega komu aths. sínum hér á framfæri við Ed. Það er að vísu miður að það skyldi vera Nd. sem leiðréttir þetta mál svo að viðunandi megi teljast, en því ber í þessu tilfelli að fagna og Ed. ber að sjálfsögðu að taka skynsamlegum ábendingum frá Nd. (LJ: Í undantekningartilvikum.) Í undantekningartilvikum. Ég tek undir það með hv. þm. Lárusi Jónssyni. — Því fagna ég frv. í þessari mynd og óska því einmitt skjótrar afgreiðslu með ákvæðum um þá trúnaðarnefnd sem Nd. hefur gert till. um og fram kemur í 9., 17. og 18. gr. frv.

Ég hef sannarlega heyrt þær mótbárur að hér verði um seinvirkari leið að ræða þar sem nefnd kæmi í stað trúnaðarlæknis. Það kann að vera að eitthvað sé hæft í því, en ólíkt er það öryggi sem í þessu felst fyrir hinn venjulega mann og það skiptir mestu. Ég vona því að hv. allshn. og hv. Ed. fallist á breytingarnar og veit að það kunna þeir best að meta sem mest eiga hér í húfi.