11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5715 í B-deild Alþingistíðinda. (5035)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. fjallaði um mál þetta. Hún klofnaði í afstöðu sinni og tala ég hér fyrir nál. meiri hl. sem ég flyt ásamt hv. þm. Lárusi Jónssyni Tómasi Árnasyni og Valdimar Indriðasyni. Í upphafi nál. er smávilla sem er augljós. Þar stendur: „N. hefur fjallað um málið og klofnaði hún í afstöðu sinni til þess. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem hún flytur till. um“ — það á að vera hann en ekki hún — sem hann flytur till. um — „á sérstöku þskj. en minni hl. mun skila séráliti.“

Við umfjöllun í n. varð það að niðurstöðu að gera talsvert miklar breytingar á frv. Veigamest er sú að koma skattlagningu á bankana í sama horf og er með önnur atvinnufyrirtæki í landinu, það yrði gert á árabilinu fram til 1987, en þá yrði skattlagning á banka að öllu leyti með sama hætti og er á önnur atvinnufyrirtæki. Það er auðvitað hið eina rétta. Ef skattleggja á bankana á annað borð á auðvitað að skattleggja þá með sama hætti og önnur fyrirtæki.

Það má t. d. geta þess að það eru þó nokkur fjárfestingarfélög starfandi í landinu og væntanlega verða þau fleiri þegar fer að gæta áhrifa nýju skattalaganna um fyrirtæki. Er þá eðlilegt að allar fjármálastofnanir hlíti sömu lögum og sitji við sama borð.

Önnur brtt., sem er nokkuð veigamikil líka, er sú að skattleggja ekki veðdeildir bankanna. Gert var ráð fyrir því í frv. að sumir stofnlánasjóðir yrðu skattlagðir en aðrir ekki. Það er ekki hægt að segja að neins réttlætis gæti í því. En á þessu stigi vil ég gjarnan geta þess að orðið hafa mistök í prentun. Ég held að þau séu samt ekki þess eðlis að það þurfi beint að flytja brtt., þau eru tæknilegs eðlis. Þannig segir t. d. í upphafi brtt. að framan við 1. gr. komi ný grein er verði 1. gr. þess og breytist röð annarra greina í samræmi við það og greinin orðist svo. Ég held að eðlilegra sé að þetta sé gert með þessum hætti.

Þá er önnur villa, þ. e. það féllu niður tvö eða þrjú orð sem kannske væri rétt að gera um sérstaka brtt. Ég er búinn að láta hér vélrita þetta upp svo það er hægt um vik að gera það þá við 3. umr. t. d. ef mönnum sýnist svo. En þar átti að standa „til skattskyldra tekna og eigna aðila“ — það féll niður „og eigna“ — skv. 1. gr. þessara laga teljast þó ekki tekjur stofnlánasjóða og veðdeilda sem stofnaðar“ — það er bara prentvilla eða málvilla — „eru“ o. s. frv.

Þá er það í síðustu línu á þessu þskj. 798 þar sem vitnað er til 2.–5. mgr. en á að vera 2.–4. mgr.

Þessi till. sem ég gat um, um að skattleggja ekki veðdeildir fremur en t. d. Stofnlánadeild landbúnaðarins, Iðnlánasjóð og Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja eða Verslunarlánasjóð, er gerð til samræmis, að þessir sjóðir sitji við sama borð og þá allir lánsfjársjóðir í landinu á vegum bankakerfisins og opinberra aðila. Auðvitað mætti hugsa sér að skattleggja alla þessa sjóði á sama hátt, þá eins og bankana, en á hinu er varla stætt að skattleggja þá suma en aðra ekki. Þetta mun kosta u. þ. b. 5 millj. kr. tekjutap ríkissjóðs.

Önnur brtt. er um að færa gjaldfærsluheimild á afskriftareikning útlána upp í 1% en var í frv. 1/2%. Þetta mun væntanlega þýða tekjumissi eitthvað nálægt 3 millj. kr.

Að öðru leyti hef ég getið um þann tilgang sem í þessum breytingum felst, þ. e. fyrst og fremst að bankarnir sitji við sama borð og önnur fyrirtæki þegar áhrif þessara laga eru að fullu komin fram. Ég skal ekki taka frekar þátt í umr. um þetta mál, þær hafa orðið nokkuð miklar, líka um hið síðara mál, nr. 306, sem nú er til umr., þegar hitt málið, nr. 305, var rætt og veit ég að þær umr. skýra sjónarmið manna, enda hefur hæstv. fjmrh. ítarlega skýrt þessar till.