14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5807 í B-deild Alþingistíðinda. (5140)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Í Nd. flutti ég allítarlega framsögu um þetta mál. Sú ræða hefur þegar verið prentuð í þingtíðindum og hafa hv. þm. aðgang að henni. Ég mun því stytta framsöguræðu mína hér en að sjálfsögðu fara yfir nokkur mikilvægustu atriðin.

Um halla á ríkissjóði þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Það mál hefur verið ítarlega rætt á þingi og utan. Ég þarf heldur ekki að fara mörgum orðum um þær leiðir sem færar eru til að draga úr slíkum halla. Þær eru að sjálfsögðu í raun og veru ekki nema tvær, annars vegar að afla meiri tekna og hins vegar að skerða eða skera niður útgjöld. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að ríkisfjármálin eru að sjálfsögðu einn þáttur í peningamálum þjóðarinnar. Hinir þættirnir eru almenn lántaka, sérstaklega erlendis, og svo bankamálin. Í peningamálum þjóðarinnar er töluverð þensla sem gefur til kynna meiri þrýsting en æskilegt væri í verðtags- og efnahagsmálum.

Ríkisstj. hefur áður lýst því að hún gerir ráð fyrir því í 2. áfanga sinnar efnahagsstefnu að leggja höfuðáherslu á að ná jöfnuði í efnahagsmálum og tryggja þann mikla árangur sem hefur náðst í hjöðnun verðbólgu. Hins vegar ætlar ríkisstj. aðilum vinnumarkaðarins að semja frjálst um kaup og kjör innan þess ramma sem ríkisstj. hefur í stefnuyfirlýsingu sinni lýst. Ríkisstj. gerði grein fyrir því að hún stefnir að því að verðbólga í lok ársins verði um það bil 10% og hyggst ná því með því að breyta ekki gengi meira en að hámarki 5%. Sömuleiðis hefur ríkisstj. lýst því að hún leggur á það áherslu að erlendar skuldir aukist ekki í ár umfram þau 60% sem þær eru af þjóðarframleiðsu. Þetta skapar að vísu mjög þröngan ramma fyrir þær aðgerðir sem lýst er í þessu frv. í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum. Til viðbótar því telur ríkisstj. jafnframt nauðsynlegt að vernda eins og frekast má verða þann kaupmátt sem um var samið í samningunum á hinum almenna launamarkaði í lok febr. s. l.

Með tilliti til þenslunnar í peningamálum hefði að sjálfsögðu verið mjög æskilegt að brúa þann halla sem er á ríkissjóði sem allra mest ef ekki að öllu leyti. Eins og ég sagði í upphafi míns máls verður það ekki gert nema annars vegar með því að auka tekjur og hins vegar með því að skera niður útgjöld. Eins og hv. þm. mun vera ljóst, svo að ég komi fyrst að síðara lið, þá er það ekki auðvelt eftir að fjárlagaár er hafið og raunar niðurstaðan sú að það verður ekki gert í stórum stíl án umtalsverðra kerfisbreytinga á þeirri þjónustu sem veitt er. A. m. k. er ljóst að mikill samdráttur í þjónustu mun koma illilega við launþega og leiða til skerðingar á kaupmætti.

Um auknar tekjur er reyndar svipað að segja. Aukin gjaldheimta ríkissjóðs leiðir að sjálfsögðu til aukinnar greiðslu einstaklinga og því um leið til skerðingar á kaupmætti. Niðurstaðan varð sú að gera ekki ráð fyrir því að brúa halla ríkissjóðs að öllu leyti nú. Það var ekki talið fært í ár að öllu leyti, enda má segja að það sé ekki óeðlilegt þegar þjóðartekjur dragast nú saman þriðja árið í röð. Því er gert ráð fyrir að brúa halla ríkissjóðs að hálfu leyti í því frv. sem hér er til umr. En jafnframt gerir ríkisstj. ráð fyrir því að á næstu 2–3 árum náist sá jöfnuður hjá ríkissjóði sem nauðsynlegur er þegar litið er til lengri tíma. Ég ætla nú að fara yfir einstakar greinar þessa frv.

Í 1. gr. er því lýst að gert er ráð fyrir að lækka ríkisútgjöld um allt að 370 millj. kr. Þessu er nánar lýst í aths. við frv. við 1. gr. Þar kemur sundurliðun fram á einstök rn. Þar er þess að gæta að einstökum rn. eða einstökum ráðherrum er í sjálfsvald sett hvernig þeir haga þessum niðurskurði og er gert ráð fyrir því að þeir leggi fram í ríkisstj., strax og þetta frv. hefur verið samþykkt, niðurstöður sínar í því efni.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að fjárveiting og lántaka Lánasjóðs ísl. námsmanna verði sú sem fram kemur í fjárlögum fyrir árið 1984. Ljóst er að það nægir ekki til að fullnægja allri þeirri lánaþörf sem lög um Lánasjóðinn gera ráð fyrir. Ég skal ekki segja hve mjög verður að skerða lán í haust. Það fer mjög eftir því hvaða breytingar verða gerðar á reglugerðum Lánasjóðsins sérstaklega með tilliti til útreiknaðs framfærslukostnaðar námsmanna. Það er nú í undirbúningi en ljóst má þó vera að lán munu tæplega ná þeim 95% af fjárþörf sem verið hefur upp á síðkastið.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir útflutningsbótum að upphæð 468 millj. kr. Gert er ráð fyrir útflutningsbótum í samræmi við fullan rétt bænda að viðbættum 18 millj. kr. sem fært er á milli ára. Um landbúnaðarmálin mætti að sjálfsögðu hafa alllangt mál. Ríkisstj. telur að á næstu árum þurfi að vinna að verulegri breytingu í framleiðslumálum landbúnaðarins og hefur landbrh. skipað nefnd til að fjalla um það. Útflutningur á landbúnaðarafurðum er erfiður og reynist erfiðari með hverju ári og getur ekki orðið regla, þegar til lengri tíma er litið, heldur hlýtur slíkur útflutningur að verða undantekning.

Í 4. gr. og reyndar 5. og 6. gr. einnig er gert ráð fyrir breytingum sem tengjast Innheimtustofnun sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði. Svo hagar til í dag að Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem innheimtir meðlög og ber að endurgreiða þau til Tryggingastofnunar ríkisins, er reyndar, í samræmi við þær reglur sem gilda, nú mjög á eftir í þessum greiðslum. Jöfnunarsjóður hefur aðstoðað Innheimtustofnun við þessar greiðslur. Gert er ráð fyrir því að Jöfnunarsjóður fái heimild til lántöku, sem hann endurláni Innheimtustofnun sveitarfélaga, til að gera Innheimtustofnuninni kleift að standa við greiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins þegar á því ári sem innheimtan fer fram. Í vor lítur út fyrir að skuld Innheimtustofnunar sveifarfélaga verði um 200 millj. kr. Með þessu móti batnar hagur Tryggingastofnunar ríkisins á þessu ári um um það bil þá upphæð.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir að tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fari ekki fram úr því sem nú er á fjárlögum enda þótt útlit sé fyrir nokkru meiri tekjur af söluskatti en ráð er fyrir gert. Hér mun vera um að ræða um það bil 30–40 millj. kr. sem þá renna til ríkissjóðs. Fært þótti að gera þessa breytingu með tilliti til þess, að útsvarsálögur sveitarfélaga hafa verið hærri að tiltölu en skattálögur ríkissjóðs.

Í 8.–16. gr. frv. er fjallað um breytingar á greiðslum frá almannatryggingum. Í 8. gr. er gert ráð fyrir því að samlagsmenn njóti sjúkradagpeninga frá og með 15. veikindadegi séu þeir óvinnufærir a. m. k. 21 dag. Er þá lengdur um eina viku sá biðtími sem um er að ræða skv. gildandi reglum. Um þessa grein var töluvert rætt í hv. Nd. og m. a. upplýst þar að þessi aukni kostnaður, sem samtals er talinn spara almannatryggingum 25 millj. kr. á ári, greiðist að 90–95% af atvinnurekendum.

Í 9. gr. er gert ráð fyrir að sjúkratryggingar geti hafnað reikningi læknis eða endurgreiðslu læknisaðstoðar til sjúklings ef viðkomandi læknir starfar ekki skv. samningi þeim sem gerður hefur verið við læknasamtökin.

Í sambandi við breytingar á almannatryggingum urðu umr. ekki síst töluverðar um 12.–15. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að draga úr þátttöku trygginganna í tannlæknakostnaði barna og unglinga. Í frv. kemur fram að sá sparnaður geti orðið um 50 millj. kr. á heilu ári. Það mun vera ofáætlað. Eftir nánari athugun virðist sá sparnaður geta orðið um 16 millj. kr. Sérstaklega hefur kostnaður við tannréttingar orðið miklu meiri en ráð var fyrir gert. Ég vil fyrir mitt leyti leggja áherslu á að tannréttingar eru að sjálfsögðu nauðsynleg þjónusta og mjög æskilegt að áfram sé veitt veruleg aðstoð við þær aðgerðir. Við þær breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir er eftir sem áður gert ráð fyrir að veita verulega aðstoð úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum við tannlækningar unglinga, en þó nokkuð úr þeim mikla kostnaði dregið, sem aukist hefur ákaflega mikið síðustu árin.

Í 17. gr. er framlengd frestun á ákvæði laga um síðasta ár skólaskyldu. Það hefur ekki enn komið til framkvæmda og verið frestað árvisst og er svo enn gert með þessu frv.

II. kafli frv. fjallar fyrst og fremst um þær aðgerðir sem samþykktar voru af ríkisstj. skv. tillögum aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og VSÍ, 21. febr. s. l. um barnabótaauka. Ég held að ég megi fullyrða að í þeirri framsetningu sem felst í 18., 19., 20. og 21. gr. sé fylgt eins og frekast er kostur þeim tillögum sem þá voru lagðar fram. Gerðar eru örlitlar lagfæringar en að öðru leyti er framkvæmdin sú sama. Helsta frávikið er í 20. gr. Í till. aðila vinnumarkaðarins kom fram að þeir gerðu ekki ráð fyrir því að þessi aðstoð næði til þeirra sem hafa tekjur sínar af atvinnurekstri né heldur til námsmanna. Í íslenskum skattalögum eru engin ákvæði sem gera með góðu móti kleift að greina svo á milli. Skattalögin byggjast á tekjum en ekki starfsstéttum og hefur engin ríkisstj. reyndar undanfarin ár, svo ég þekki, treyst sér til að fara út í slíka aðgreiningu. Hins vegar gera skattalögin kleift að greina á milli eftir eignum einstaklinga og þótti því réttara að gera þá aðgreiningu frekar en eftir starfsstéttum. Í 20. gr. er því gert ráð fyrir að barnabótaauki vegna barna á framfæri hjóna skerðist um 1.2% af því sem eignarskattsstofn hvors hjóna um sig fer fram úr 750 þús. kr. og falli síðan niður er eignarskattsstofn hvors hjóna nær 1 millj. 250 þús. kr. Svipað ákvæði er um einstæða foreldra nema þar er skerðingarhundraðshlutinn 2.4 af því sem eignarskattsstofn foreldris fer fram úr 1 millj. kr.

Í 22. gr. segir að innheimta skuli við tollafgreiðslu sérstakt gjald af fullunnum fóðurblöndum. Hér er um að ræða tilfærslu á fóðurbætisskatti þeim sem nú er innheimtur af samtökum bænda sjálfra og ráðstafað til þarfa landbúnaðarins. Gert er ráð fyrir því að sá skattur verði lækkaður til samræmis við þá tollheimtu sem hér er um að ræða. Þessi tollheimta, sem er 1.30 kr. af hverju kg á að gefa á þessu ári 60 millj. kr., sem segja má að sé ráðstafað upp í þær útflutningsbætur sem um er getið fyrr í frv.

III. kafli frv. fjallar um heimild í 25. gr. til Seðlabanka Íslands að fengnu samþykki ríkisstj. að ákveða allt að 10% sveigjanlega bindiskyldu innlánsstofnana til viðbótar því sem nú er í lögum. Um þetta hefur verið allmikið deilt, en niðurstaðan varð sú að gera ráð fyrir þessari heimild til þess að fyrir lægju allar þær leiðir, allar þær heimildir sem Seðlabanki og ríkisstj. geta haft til þess að hafa áhrif á útlán viðskiptabankanna. Þær eru þrjár, þ. e. endurkaup og vextir og svo binding, en heimild til bindingar er nú að fullu nýtt. Ég vil á þessu stigi taka fram að engar ákvarðanir eru teknar um notkun á þessari heimild. Hún kemur fyrst og fremst til greina ef um verulega viðbótarþenslu, t. d. ef um meiri afla yrði að ræða í þjóðfélaginu.

Þá er í 26.–28. gr. fjallað um þær lántökur erlendar sem nauðsynlegar eru, í fyrsta lagi vegna þess halla sem eftir er á ríkissjóði og fram kemur í því sem ég hef hér sagt og aths. við frv., og sömuleiðis vegna fyrirsjáanlegrar lánsfjárþarfar atvinnuveganna. Um það er fjallað í 28. gr. Þar er gert ráð fyrir 680 millj. kr. lánsfjárþörf sem lýst er í aths. við þá grein. 300 millj. munu fara til skuldbreytinga í sjávarútvegi, 80 millj. til skuldbreytinga í landbúnaði, 150 millj. til að koma í veg fyrir stöðvun skipasmíðastöðva og skapa þeim aðstöðu til viðhaldsverkefna og 150 millj. til nýsköpunar í atvinnulífinu skv. reglum sem ríkisstj. mun setja.

Ég vil taka það fram vegna umr., sem varð um það mál í Nd., að þetta fjármagn verður að sjálfsögðu lánað í gegnum þá sjóði sem fjalla um viðkomandi atvinnuveg. Sérstaklega hefur verið talað um að ráðstafa nokkru fjármagni til nýrra greina eins og laxeldis, loðdýraræktar og háþróaðs iðnaðar, eins og lífefnaiðnaðar og rafeindaiðnaðar, sem nokkuð hefur haslað sér völl. Segja má að þessar greinar eigi það allar sameiginlegt að þær þjást af fjárskorti. Ekki hefur tekist að koma þeim á fót eins og einstaklingar og fyrirtæki hafa viljað vegna fjárskorts. En allar eiga þær það einnig sammerkt að þær eru að öllum líkindum vaxtarbroddar þessa þjóðfélags.

Mér láðist að geta þess, virðulegi forseti, í sambandi við 1. gr. að þar er einnig með sú lækkun á niðurgreiðslum sem mjög hefur verið um talað. Sú lækkun er samtals 185 millj. kr. Af því eru 40 millj., sem talið er að verði eftirstöðvar af þessum fjárveitingalið, þar sem samdráttur hefur orðið í neyslu. Raunveruleg lækkun er því 145 millj. kr. og hefur þegar komið til framkvæmda, enda er hér um heimild að ræða í fjárlögum til að ráðstafa því fjármagni sem þar er talað um en ekki skylda.

Ég vil taka það fram, að í till. frá VSÍ var á það bent að taka fjármagn til þeirrar millifærslu sem ég hef lýst, til barnabóta o. fl., úr niðurgreiðslum. ASÍ benti hins vegar á útflutningsbætur. Hvort tveggja kemur þetta svipað niður, leiðir til hækkunar á landbúnaðarafurðum. Ríkisstj. treystir sér þó ekki til að ganga nema að hluta til móts við þessi sjónarmið, því að í lækkun niðurgreiðslna felst að sjálfsögðu bæði skerðing á afkomu fjölskyldufólks og sömuleiðis getur það leitt til erfiðleika við sölu landbúnaðarafurða.

Virðulegi forseti. Þótt mjög margt mætti um þetta mál segja, bæði almenns eðlis og um einstakar greinar, þá hefur það verið svo ítarlega rætt bæði hér á hinu háa Alþingi og í fjölmiðlum upp á síðkastið að ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.