14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5816 í B-deild Alþingistíðinda. (5142)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur mikið verið rætt þegar á þessu þingi og kannske ekki ástæða til þess í þessari 1. umr. að gera annað en að lýsa í grófum dráttum afstöðu sinni til frv. í heild. Til að byrja með get ég ekki látið hjá líða að minna á atriði úr þeim viðræðum sem fram fóru á sameiginlegum fundum fjh.- og viðskn. beggja deilda. Þar var mættur Ásmundur Stefánsson til að gera grein fyrir afstöðu Alþýðusambands Íslands til þessa frv. Hann sagði aðspurður, að hefði Alþýðusambandið eða verkalýðsfélögin vitað af þeim aðgerðum sem hér eru fyrirhugaðar þegar samið var þá hefðu einfaldlega engir samningar átt sér stað. Þetta er nokkuð athyglisverð yfirlýsing í ljósi þess að þegar samið var vissi hæstv. ríkisstj. um það gat sem svo mikið hefur verið rætt hér í vetur. Hæstv. ríkisstj. var mjög viðriðin þá samninga sem menn almennt luku miklu lofsorði á og föluðu um að verkalýðsfélög og vinnuveitendur hefðu sýnt mikla ábyrgð í þeim samningum. En við tilkomu gatsins og við tilkomu þessa frv. kemur í ljós að sá aðili, sem minnsta ábyrgð sýndi, var hæstv. ríkisstj. Nánast mætti fullyrða að hún hafi beðið með rýtinginn uppi í erminni.

Í heild er þetta ekki gott frv. Það er í því ákveðinn kuldi, kaldranalegur andi sem maður hálfvegis óttast að vísi á ákveðið framhald sem þá verður að sporna mjög fast á móti ef hægt er. Þessi andi kemur strax í ljós í byrjun þessa frv. þegar gert er ráð fyrir því að lækka námslán og námsstyrki niður í 60% af reiknaðri fjárþörf einstaklinga. Það er ákveðið að einhleypur námsmaður skuli lifa af 9 þús. kr. á mánuði. Spyrji sig hver sem er að því hvort hann telur sér fært að lifa af ekki stærri upphæð, greiða af henni húsaleigu, fæði, bækur og annan þann kostnað sem námsmaður þarf að leggja út. Þetta atriði frv. er því síður hægt að samþykkja ef maður á von á því að svona verði framhaldið því að einmitt á þessum mánuðum eru menn kannske að gera sér ljósara en áður hversu mikilvæg vísindin eru fyrir okkar framtíð, hversu mikilvægt það er að hlúa að námi, jafnvel að auka fjölda námsmanna því að þeir menn, sem framtíð okkar kemur til með að byggja á, verða að vera menntaðir menn og verða að vera hámenntaðir menn.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. minntist á þann undarlega þátt í þessu frv. sem lýtur að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar sem honum er gert að taka lán til þess að standa undir meðlögum. Hann fullyrti það — sem ég er ekki dómbær um — að þetta væri jafnvel í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem þessum sjóði væri gert slíkt. Það sýnir í raun og veru kannske betur en margt annað úrræðaleysi þessarar ríkisstj. til að fylgja fram þeim málum sem hún einsetti sér í upphafi.

Það er líka athyglisvert að ákveðið er af þessari ríkisstj. að hækka framlög til útflutningsbóta um nákvæmlega sömu upphæð og niðurgreiðslur eru lækkaðar um. Þarna er því um einfaldar millifærslur að ræða sem nánast engu skila öðru en að viðhalda áfram því gamla og ónýta kerfi sem útflutningsuppbæturnar eru.

Sá kafli í þessum lögum, sem þó er kannske einna kaldranalegastur, er sá kafli sem snýr að almannatryggingakerfinu, þ. e. að viðtalsgjöldunum og opinberu framlagi til læknisþjónustu. Greiðslur sjúklinga til lækna vegna viðtala eða rannsókna hjá sérfræðingum á að hækka um 200% eða úr 100 kr. í 300 kr. Þetta gerist nánast án þess að nokkur maður taki eftir því að hvergi er minnst á þetta, hvorki í frv. sjálfu né í grg. sem með því fylgir, heldur er með breyttu orðalagi þessari heimild komið fyrir. Síðan er ákveðið með reglugerð hjá sjúkrasamlaginu að hækka þetta gjald um þessa upphæð, 200% hækkun á þjónustu sem menn hafa verið að berjast fyrir í tugi ára að verði sem nánast án tilkostnaðar fyrir þegna landsins í þeim tilgangi að allir hafi sem besta möguleika til þess að njóta sem bestrar heilsugæslu.

Þessi 200% hækkun er mér allavega sönnun þess að þessi ríkisstj. ber ekki hag almannatryggingakerfisins fyrir brjósti. Þetta er eitt af mörgum atriðum sem benda til þess að hún hafi hreint og beint sett sér það að markmiði að naga úr þessu kerfi þannig að ekkert standi eftir að lokum.

Einnig er gert ráð fyrir því að lækka aðstoð eða kostnaðarþátttöku við tannlækningar og menn grípa þar á þætti sem þeir telja að hljóti að vera skynsamlegur, þ. e. tannréttingar. Tannréttingar, þ. e. þær sem oftast er verið að fást við, eru yfirleitt meðfædd fötlun. Þar er um að ræða fólk sem hefur það skakkar tennur að búast má við að það geti ekki nýtt þær sem skyldi, að tennur og gómur skemmist fyrr en ella og valdi þar með viðkomandi einstaklingi bæði óþægindum og kostnaði. Í dag er talið mjög nauðsynlegt að vinna bug á þessari fötlun strax í upphafi, rétta tennurnar og koma þannig í veg fyrir bæði óþægindin og kostnað sem af framhaldandi þróun fötlunarinnar gæti leitt. Hérna er með einu pennastriki nánast greitt þannig úr málum að kostnaður einstaklinga við meðaltannréttingaaðgerð hækkar u. þ. b. sem nemur 15 þús. kr. bara fyrir þessa breytingu á þátttökuhlutfallinu.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um þetta mál í einstökum atriðum því að við eigum eftir að fara yfir það í hv. fjh.- og viðskn. og ná þar vonandi þeim upplýsingum sem við teljum enn hugsanlega á vanta. Ég á ekki von á því að við sem í stjórnarandstöðu erum komum til með að hafa áhrif á þetta frv. til breytinga. Það verður þá að koma í ljós við 2. umr. og þá hugsanlegar brtt. sem fram verða lagðar.