14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5826 í B-deild Alþingistíðinda. (5159)

261. mál, lyfjalög

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Svona til upplýsingar fyrir minn ágæta vin, 2. þm. Austurl., og forseta líka, þá er það nú starfandi heilbrmrh. sem tekur til máls.

Varðandi þá athugasemd sem hv. 2. þm. Austurl. gerði um 12. gr., þá á ég erfitt með að sjá að önnur betri leið verði fundin en einmitt sú sem þarna er lögð til. Þar segir, með leyfi forseta:

„27. gr. orðist svo:

Lyfjanefnd skal skipuð fimm mönnum með sérfræðikunnáttu á sem víðustu sviði læknis- og lyfjafræði, svo sem lyfjaefnafræði, lyflæknisfræði, lyfjagerðarfræði, eiturefnafræði (toxycology), lyfjafræði (pharmacology).“

Síðan segir: „Ráðh. skipar formann. Aðrir nefndarmenn, auk fimm varamanna, skipar ráðh. í samráði við formann.“

Nú er það ákaflega sjaldan sem ráðh. er sérfræðingur á öllum þeim sviðum sem hann þarf að koma nálægt og ég held að það verði vandfundinn ráðh., sem væri sá sérfræðingur, að hann treysti sér til að ráða mann í svo áríðandi stöðu sem þessa. Mér er næst að segja: ef hann væri sá sérfræðingur, sem þarf í formennsku þessarar nefndar, þá væri hann líklega svona allt að því óhæfur á öllum hinum sviðunum sem ráðh. þarf að koma nálægt.

Ég lít svo á að þarna sé ráðh. heimilað að skipa eða velja sér trúnaðarmann, sem verður formaður nefndarinnar, og ásamt þessum trúnaðarmanni, sem er þá sérfræðingurinn, að velja aðra fagmenn í nefndina. Ég held að það fari ekki á milli mála og allir geti verið sammála um það, að í þessa stjórn eigi ekki að velja aðra en fagmenn.