09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

10. mál, verðlagsmál

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa um þetta langt mál því eins og hæstv. forsrh. tók fram áðan hefur þetta mál hlotið býsna mikla umr. hér á Alþingi. Ekki get ég þó stillt mig um að koma inn á fáein atriði. Hér er um að ræða, eins og hæstv. ráðh. gat réttilega um, hliðarfrv. við aðalfrv. um launamál sem hefur verið til umr. í Nd. Og auðvitað hlýtur hér að vera um að ræða eina aðalforsenduna fyrir því hvernig til hefur tekist um framkvæmd á þeim brbl. sem þar var um að ræða.

Ég saknaði þess að hæstv. forsrh. rakti ekki hér hvernig til hefði tekist um þessa þætti, og hef ég þá 1. liðinn alveg sérstaklega í huga, vegna þess að hann lýtur að ýmsu því sem fólk almennt er með sem óhjákvæmilega þætti í sinni neyslu. Greinargerð Verðlagsstofnunar, sem hæstv. forsrh. vitnaði hér í áðan, bar þess vott að þar höfðu verið höfð nokkuð önnur vinnubrögð en gagnvart launaliðum. Þar hafði greinilega verið mjúklega á málum tekið gagnvart þeim aðilum sem fram á hækkanir fóru og hið óhjákvæmilega orðið býsna teygjanlegt, svo að ekki sé meira sagt.

Þegar svo strangar reglur eru settar um launamál sem raun ber vitni og þessi hæstv. ríkisstj. setti og þeim hefur verið fylgt jafn afdráttarlaust eftir og allir vita, þá hlýtur það að hafa verið keppikefli að fylgja 1. gr. þessara laga um hinar ýmsu vörur og þjónustu jafn afdráttarlaust eftir, svo að hún færi ekki fram úr og ekki yrði nein misvísun á framkvæmd laganna um laun fólks og kostnaðarþætti þess. Og að sjálfsögðu hefur hið opinbera í þessu tilfelli gefið fagurt fordæmi. Helstu þjónustuhækkanir hafa vitanlega ekki farið fram úr 8% fram að 1. okt. og síðan ekki nema 4% þar á eftir, eða er ekki svo? Með tilliti til hinna mildandi aðgerða í raforkumálum hlýtur auðvitað að vera augljóst að þar var ein meginstoðin niðurgreiðslurnar á raforku til húshitunar. Og þá skyldi maður ætla að sú orka sem menn nota á köldu svæðunum hefði a.m.k. ekki hækkað meira en nam launahækkuninni. En eins og rakið hefur verið hér áður hefur áætlaður hitunarkostnaður hækkað um 17.4% á þessum sama tíma þrátt fyrir — það skal viðurkennt — hinar stórauknu niðurgreiðslur á raforku til húshitunar. Hins vegar hefur hinn almenni rafmagnstaxti hækkað um tæp 40% á sama tíma. (EgJ: Svona skilduð þið við þetta.) Svona skilduð þið við þetta, segir hv. þm. Egill Jónsson. Hann virðist hafa ráð við öllu í þessum efnum, m.a. að kenna þeim sem áður stjórnuðu um allt sem núverandi hæstv. ríkisstj. er að gera. Ég er að tala um það sem hefur verið framkvæmt eftir að þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum og hv. þm. Egill Jónsson ber alveg sérstaka ábyrgð á, vegna þess að enginn hafði, held ég, stærri orð um t.d. hitunarkostnaðinn á landsbyggðinni en hann í umr. fyrir kosningar í vor. Þetta eru efndirnar sem við sjáum nú þegar. Væri vert að rifja upp kannske fleiri þeirra stóru orða, sem þá voru látin falla, einmitt í ljósi þess sem síðan hefur gerst.

Ég ætla ekki að fara út í hina einstöku liði. En við vitum það að á þessum tíma hafa þjónustugjöld opinberra aðila hækkað margfalt á við það sem laun í landinu hafa hækkað. Ég get nefnt símagjöld og gjöld fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Þar hefur ekki verið fylgt neinni 8% reglu eða 4% , sem launin hafa fylgt á þessum tíma, heldur er hér um margfaldar hækkanir að ræða. Slík fordæmi, sem gefin eru, hafa vitanlega hleypt illu blóði í það fólk jafnvel sem hefur viljað lúta ákveðnum takmörkunum varðandi sínar launahækkanir.

Ég hef hér einmitt lista frá Verðlagsstofnun yfir verðbreytingar á ýmsum innlendum vörum og þjónustu, sem stofnunin hefur fjallað um á þessu tímabili frá 27. maí til miðs október. Ég ætla ekki að rekja það náið. Ég nefni bara dæmi af handahófi um hækkanir sem sjálfsagt teljast allar, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem hér var lesin upp áðan, óhjákvæmilegar hækkanir. En ég segi enn og aftur, þar hefur greinilega verið mildilega á tekið og mjúklegar höndum um farið en um launin til fólksins. Svo að matvörur séu teknar hefur borðsmjörlíkið hækkað um 60.3%, lyftiduft um 21.2, saltfiskurinn, sem verið var að tala um áðan, um 23%. Ég skal ekki segja hvað ríkur þáttur gosdrykkir eru í neyslu manna, þó er ljóst að þeir eru býsna ríkur þáttur. Þeir hafa hækkað um 26% rúm, uppþvottalögur um 45%, þvottaefni um 28.6%. Ýmsar fleiri vörur mætti nefna. Bensín hefur hækkað um 38.8, ullarvörur um 28.6% þjónusta efnalauga um 21%, innanlandsflug um 22.7%, vinnuvélar um 38.4% og þjónustugjöld skipafélaganna um 25.2%. Ég skal ekki fara náið út í þessa upptalningu. Ég býst við, eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. hér áðan, að Verðlagsstofnun þykist hafa einhver rök fyrir hverju og einu, sem þarna er upp talið, en hún hefur um leið hlotið að skoða þessi mál í ljósi þeirra ströngu laga sem giltu um kaup og kjör fólksins í landinu. Ég sé að það er ekki margt á þessari skrá sem er innan við 10%. Þó rek ég augun í tvo liði. Það eru klór og álegg. Ég heyri að það gleður hv. 11. landsk. þm. að klór og álegg skuli þó vera undanskilið þessum prósentum. Ég heyri að það gleður hann mjög. En frá áleggi væri kannske rétt að víkja örstutt að álagningu. Það hefur reyndar verið gert í þessari hv. þd. áður.

Þegar til slíkra ráðstafana hefur verið gripið eins og nú hefur verið gert, þá hefur sú regla æðioft verið látin gilda að álagning hefur verið skert. En ég læt hæstv. forsrh. um það. ef hann kemur hér upp aftur. að skýra frá hvað valdið hafi því að þau ákvæði voru ekki látin gilda nú, hvaða sérstök ástæða var til að hlífa þeirri atvinnugrein alveg sérstaklega og þá enn frekar miðað við það hvað aðgerðirnar voru harkalegar og fortakslausar. Ég held nefnilega að þegar menn eru með slíkar samræmdar aðgerðir, eins og hæstv. ríkisstj. hefur hælt sér af, þá verði þeir að reyna að hafa samræmi í aðgerðum sínum. Það er því miður ekki í þessu tilfelli.

Á flestum þeirra þátta sem eru óhjákvæmilegir í neyslu fólks hefur verðlagsþróunin verið allt önnur en launaþróunin. Og það er þess vegna fyrst og fremst sem fólk unir ekki því ástandi sem nú er. Það vill ekki una því að svo einhliða sé tekið á málum varðandi kjör þess á meðan á öllu öðru virðist tekið mjúklega og mildilega. Þar er nefnilega hin mildandi hönd ríkisstj. svo sannarlega á ferðinni.