09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

10. mál, verðlagsmál

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins langaði mig að víkja nokkrum orðum að efni þessa frv. til l. um verðlagsmál, sem hér er til umr. til staðfestingar brbl. sem ríkisstj. gaf út í sumar. Það voru örfá atriði sem mig langaði til að drepa á.

Hæstv. forsrh. tók þannig til orða. að hér hefði nú verið hert verðlagseftirlit og að 1. gr. þessa frv. fæli það í rauninni í sér. Ég held að gagnvart almenningi sé þetta hálfgert öfugmæli, vegna þess að ekki verður annað séð en að flestar þær verðhækkanir sem t.d. hinar ýmsu opinberu stofnanir hafa farið fram á hafi náð fram að ganga næstum óheftar, eða lítt heftar, meðan kaup hefur verið fast. Ég gerði hér að nokkru umtalsefni um daginn þær hækkanir sem orðið hafa á bensíni t.d. og hv. 2. þm. Austf. kom hér að í sinni ræðu. Ég ætla ekki að endurtaka það, en það er t.d. ljóst að álagning olíufélaganna hefur verið hækkuð. Ég held að það sé ekki fjarri lagi, ef við lítum eitt ár aftur í tímann, til þessara daga í nóv. í fyrra, að bensínverð hér á landi muni hafa hækkað um allt að 100%. Og verulegur hluti þeirrar hækkunar er tilkominn í þremur, ef ekki fjórum bensínhækkunum frá því að núv. ríkisstj. tók til starfa.

Það var tvennt sem mig langaði til að beina til hæstv. forsrh. og biðja hann um að svara hér á eftir. Raunar bar hv. 2. þm. Austf. fram aðra mína spurningu, en ég ítreka hana bara og óska svara: Hver var hin raunverulega ástæða þess að í vor, þegar gengið var fellt, var álagningarprósentan ekki skert eins og ég hygg að venjan hafi verið. Ég fullyrði ekki að það hafi ævinlega verið gert, en venja hefur þó verið að þegar gripið hefur verið til gengisfellinga með þeim hætti og jafnstórra og gert var á s.l. vori, þá hefur þessi álagningarprósenta verið skert. Og annað í beinu framhaldi af þessu. Nú lýsti ríkisstj. yfir því, þegar hún tók við, að hér yrði óbreytt gengi til áramóta. Ég hygg að verslunin og innflytjendur hafi vegna gengissigs fengið nokkra ívilnun og aukna álagningu, þar sem um hefur verið að ræða vörur sem hafa verið keyptar með gjaldfresti til þriggja, fjögurra eða sex mánaða. Hér hefur verið gengissig og það hefur verið tekið tillit til þess við ákvörðun álagningar. En nú, þegar ríkisstj. ákvað að hér skyldi vera fast gengi allar götur frá því í maí og til áramóta, þá hafa menn áfram þessa ívilnun í álagningunni. Ég spyr því hæstv. forsrh.: Hvers vegna var þessu ekki breytt?

Ég minnist þess er þeir ræddust við í sjónvarpi hér fyrir nokkru, hæstv. forsrh. og forseti ASÍ. Þá spurði forseti ASÍ hæstv. forsrh. tvisvar sinnum þessara sömu spurninga sem hér eru nú fram bornar. Nú kann það að vera að það hafi farið fram hjá mér í þessum þætti, en ég heyrði ekki að hæstv. forsrh. svaraði þessum spurningum þar. Nóg er nú lagt á fólk í þessu landi með þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. hefur gert þó að ekki komi þetta til viðbótar. Mér sýnist að ríkisstj. hefði átt að fara aðrar leiðir og hefði getað dregið úr álagningarprósentunni.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta lengra mál að sinni. Það mætti auðvitað fara hér með langa tölu um allar þær verðhækkanir sem gengið hafa yfir og auðvitað er endalaust hægt að deila um þetta klassíska orðalag, sem hefur verið notað við svona tækifæri svo lengi sem elstu menn muna, að ekki skuli leyfa aðrar hækkanir en þær sem eru óhjákvæmilegar.

Það verður ævinlega matsatriði og ekki alltaf auðvelt að ákvarða hvað í þessum efnum er óhjákvæmilegt og hjá hverju væri hægt að komast. En ég fer þess á leit við hæstv. forsrh. að hann svari þessum tveimur spurningum mínum.