14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5866 í B-deild Alþingistíðinda. (5232)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. og hv. 3. þm. Reykv. hafa báðir gert hér að umtalsefni afstöðu þm. Sjálfstfl. í umr. á fyrra þingi um húsnæðismál og ákvæði í frv. sem þá var til umr. hér sama efnis og við fjöllum nú um. Það hefur verið reynt af hálfu þessara hv. þm. að snúa út úr afstöðu flokksins á þessum tíma og gera hana tortryggilega miðað við þá afstöðu sem nú kemur fram. Ég vil varpa ljósi á þetta mál sem sýnir að hér hafa engin umskipti átt sér stað.

Það kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., frsm. félmn., þegar álit n. kom til umr. við 2. umr. hér í hv. deild, að félmn., meiri hl. hennar, Sjálfstfl. þar á meðal, væri reiðubúinn að standa að samþykkt frv. með ákvæðinu óbreyttu ef í það yrði lagður sá skilningur sem fram kom í ræðu hv. frsm. Hann gerði grein fyrir því að hann liti svo á að ákvæðið tæki til félagasamtaka sem ætla að reisa og reka húsnæði til útleigu á hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja og aðra þá sem svipað er ástatt um, en það tæki ekki til félagasamtaka sem ættuðu á almennum grundvelli að eiga og reka leiguhúsnæði af þessu tagi. Gegn þessum skilningi var Sjálfstfl. reiðubúinn að samþykkja frv. óbreytt. Um það varð hins vegar ágreiningur hvernig skilja mætti frv. Þegar það var til umr. á síðasta þingi var ekki uppi sá skilningur um þessa víðu túlkun sem nú hefur verið höfð í frammi þannig að það væri opið fyrir almennum félögum sem stæðu að útleigu íbúðarhúsnæðis. Afstaða Sjálfstfl. í þessu efni er því fullkomlega í samræmi við það sem áður hefur verið.

Meginatriðið er auðvitað það, sem við höfum lagt áherslu á, að ekki væri gerður mismunur á milli fólks með sömu tekjur eftir því hvort það ætlaði að komast í húsnæði á vegum leigusamvinnufélags eða á vegum byggingarsamvinnufélags. Sjálfstfl. hefur einfaldlega ekki verið tilbúinn til þess að mismuna fólki með sömu tekjur eftir því hvort það ætlaði að komast í húsnæði eftir þessum tveimur mismunandi leiðum. Flokkurinn hefur ekki verið tilbúinn að veita leigusamvinnufélögum forréttindi fram yfir byggingarsamvinnufélög. Það er í samræmi við grundvallarsjónarmið flokksins í húsnæðismálum og ég hygg að það sé í fullu samræmi við meginhugmyndir þorra fólks í landinu að gera ekki þarna á þann mismun sem orðið hefði ef frv. hefði verið samþykkt með þeirri víðtæku túlkun sem hér var til umr. Ég er alveg sannfærður um það að meginþorri fólks í landinu er ekki reiðubúinn að samþykkja húsnæðislög með þessari mismunun á milli leigusamvinnufélaga og húsnæðissamvinnufélaga.

Því hefur verið haldið fram í þessari umr. af hv. 2. landsk. þm. og hv. 3. þm. Reykv. að stjórnarandstaðan væri einhuga í þessu máli og það væri meiri hl. á Alþingi fyrir framgangi frv. þar sem þessum aðilum yrði tryggður réttur umfram byggingarsamvinnufélög, svo dæmi séu tekin. Ég vil minna á það að við 2. umr. í þessari hv. deild komu fram tvær till., önnur frá hv. 2. landsk. þm. sem gerði ráð fyrir því að inn í frv. kæmi nýtt ákvæði sem með ótvíræðum hætti leyfði lán til húsaleigufélaga eins og Búseta þannig að það gengi á rétt verkamannabústaðanna. Ég tók eftir því að hv. 7. þm. Reykv., sem líka er formaður Verkamannasambands Íslands, greiddi þeirri till. ekki atkvæði og ég skil það mætavel. Hann var ekki tilbúinn til þess með þessum hætti að ganga á rétt verkamannabústaðanna. Till. hv. 3. þm. Reykv. gekk í aðra átt, hún miðaði að því að tryggja þessum aðilum rétt til lána ef á fjárlögum yrði tryggt sérstakt fjármagn umfram það sem verkamannabústaðirnir fá skv. útlánaáætlun. Auðvitað mátti öllum vera ljóst að þetta var sýndarmennskan ein því að ekkert slíkt fjármagn er til. Það er nógu erfitt að standa að fjármögnun húsnæðiskerfisins eins og það er í dag þó að svona sýndartillögur séu ekki á borð bornar. Það var því ákaflega lítil meining og merking á bak við þessi orð.

Hér er því í raun og veru um tvennt að ræða, annars vegar mismunun á milli tveggja forma sem fólk á kost á til þess að koma sér í húsnæði og hins vegar spurningu um það hvort ákvæði um heimild til þess að lána húsaleigusamtökum af þessu tagi eigi að ganga á rétt verkamannabústaðanna. Ég hygg að það sé við hæfi í þessari umr. að víkja nokkrum orðum að nokkrum umsögnum þeirra hagsmunaaðila sem félmn. leitaði til og þetta mál snerti sérstaklega. Ég vil með leyfi forseta fá að vitna í nokkrar umsagnir.

Alþýðusamband Íslands svarar þessu og segir m. a.: „Í frv. virðast veittar heimildir til að lána húsnæðissamvinnufélögum og fleiri aðilum sem byggja leiguíbúðir. Þessi heimild væri fagnaðarefni ef séð yrði fyrir fjármunum til þessara lána. Skv. frv. er Byggingarsjóði verkamanna ætlað að veita lán í þessu skyni án þess að honum séu fengnar nokkrar viðbótartekjur. Alþýðusambandið telur því að heimildarákvæði þetta sé gagnslaust fyrir húsnæðissamvinnufélögin og hættulegt fyrir verkamannabústaðakerfið eins og í pottinn er búið.“

Hættulegt fyrir verkamannabústaðakerfið. Það er afstaða Alþýðusambands Íslands.

Í umsögn stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík segir m. a. þetta:

„Lagt er til að c-liður verði felldur brott þar sem ekki verður séð að Byggingarsjóður verkamanna valdi þeim verkefnum sem honum eru nú ætluð, hvað þá að við þau sé bætt. Auk þess virðist óraunhæft að binda kaupendur verkamannabústaða við ákveðin tekjumörk en aðra sem fengju samsvarandi lánafyrirgreiðslu ekki. Stjórn verkamannabústaða leggur til að c-liðurinn verði felldur brott.“

Í umsögn Sambands byggingamanna segir m. a.: „Sá skilningur hefur verið lagður í IV. kafla þessa frv. að eitt hlutverk Byggingarsjóðs verkamanna skuli vera lánveitingar til félagssamtaka er ætla að byggja íbúðir til útleigu. Eitt húsnæðissamvinnufélag hefur þegar verið stofnsett. Að því hefur verið látið liggja að því beri skv. frv. réttur til lána úr Byggingarsjóði verkamanna án tillits til félagslegrar eða fjárhagslegrar stöðu félagsmanna húsnæðissamvinnufélagsins. Sé sú ætlunin með frv., ef að lögum verður, mótmælir Samband byggingamanna því. Rökin fyrir þeim mótmætum er fundinn staður með tilvísun í tilurð og tilgang Byggingarsjóðs verkamanna. Samband byggingamanna mótmælir lagasetningu með þeim hætti sem orðið hefði ef hér hefði ekki verið gerð á breyting.“

Í umsögn Verkamannasambands Íslands segir m. a.: „Með auknum kvöðum á Byggingarsjóð verkamanna, svo sem að gera honum skylt að veita lán til leiguíbúða umfram það sem kveðið er á um í gildandi lögum án þess að tryggja honum nýja tekjustofna, er brotið gegn því grundvallaratriði að sjóðurinn geti fjármagnað 1/3 af árlegri íbúðaþörf með byggingu verkamannabústaða og leiguíbúða sveitarfélaga. Verkamannasamband Íslands mundi að sjálfsögðu fagna því að bygging leiguíbúða yrði aukin og fleiri aðilum en sveitarfélögum gert kleift að standa fyrir slíkum byggingum. Hins vegar telur Verkamannasamband Íslands ótækt að velta slíku yfir á Byggingarsjóð verkamanna án þess að honum sé séð fyrir viðbótartekjum.“

Verkamannasambandið telur m. ö. o. að þetta ákvæði hefði brotið gegn því grundvallaratriði að sjóðurinn gæti fjármagnað 1/3 af árlegri íbúðaþörf með byggingu verkamannabústaða og leiguíbúða sveitarfélaga. Það er alveg skýrt talað af hálfu hv. 7. þm. Reykv.

Í umsögn Meistarasambands byggingamanna um fólks, segir:

„Félagið leggst eindregið gegn því að Byggingarsjóður verkamanna láni almennt til byggingar leiguíbúða eins og niðurlag 33. gr. c-liðar gerir ráð fyrir og leggur til að niðurlag greinarinnar „og aðra sem ekki hafa aðstöðu til þess að eignast eigið húsnæði við hæfi“ falli út.“

Í umsögn Meistarasambands byggingarmanna um frv. til laga um Húsnæðisstofnun segir um þetta ákvæði í 33. gr.:

„Vér teljum að nýtt ákvæði í c-lið greinarinnar orki nokkuð tvímælis, a. m. k. yrði að setja þeim félagasamtökum, sem hyggjast byggja leiguíbúðir skv. þessari gr., skýrar reglur um hvernig með slík mál mætti fara. Einnig teljum vér að fjármagn til þessara hluta ætti ekki að ganga fyrir fjármagni til verkamannabústaða.“

Í umsögn Sambands sveitarfélaga segir þetta m. a.: „Lagt er til að b- og c-liðir 33. gr. verði sameinaðir í einn lið, en um endurtekningu virðist að ræða. Ástæða er til þess að leggja áherslu á að með lánveitingum til leiguíbúða skv. þessum kafla sé einungis átt við lánveitingar til íbúða sem byggðar eru til nota fyrir þá sem þeirra þarfnast af félagslegum ástæðum.“

Ég held, herra forseti, með hliðsjón af þessum umsögnum þeirra hagsmunasamtaka, sem hér eiga sterkast hlut að máli, sé augljóst að það var skynsamlegt af Alþingi að gera breytingar á þessu frv. Það hefði verið óráð að samþykkja það óbreytt með þeirri víðtæku túlkun sem í frv. mátti leggja. Það var skynsamlegt og er skynsamlegt að gera á því þessar breytingar. Sjálfstfl. hefur fyrir sitt leyti lagt á það áherslu að tryggja hagsmuni aldraðra og öryrkja og námsmanna við afgreiðslu þessa frv. á þessu þingi eins og á fyrra þingi þegar svipað ákvæði var til umr.