14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5877 í B-deild Alþingistíðinda. (5238)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil átelja það að svona sé gengið fram hér í umr. Þetta er í annað sinn sem þessu máli er frestað og ég veit ekki annað en að hér sé á ferðinni mál, sem ríkisstj. telur vera býsna brýnt að fáist rætt hér í þinginu, svo að mér kemur það mjög spánskt fyrir sjónir ef nú á enn að fresta því og kannske næsta máli á eftir á dagskránni, sem rætt hefur verið hér í deild og mælt hefur verið fyrir, svo að ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann láti af því að vera að hringla með málin með þessum hætti. Ég hef sett mig á mælendaskrá í þessu máli og geri ráð fyrir að þurfa að ræða það allítarlega og ég óska eftir að það verði gert hér á skaplegum fundartíma þingsins. Svo að ég óska eindregið eftir því að hæstv. forseti endurskoði þessa afstöðu og að við getum rætt þetta mál, m. a. í ljósi þeirra upplýsinga, sem hæstv. fjmrh. gaf hér, en sem ástæða er til að óska eftir frekari upplýsingum við. Ég treysti því að hæstv. forseti breyti þessari ákvörðun sinni.