14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5885 í B-deild Alþingistíðinda. (5247)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Síst ætla ég nú að lasta það að menn endurskoði hlutina. Ég hef ekkert á móti því að endurskoða og ég hef raunar komið að því hér áður að ég tel það skyldu stjórnvalda að láta á hverjum tíma fara fram endurmat og endurskoðun á stjórnkerfinu, hinum ýmsu hlutum þess, hvernig þeir vinna og kannske mest hvernig þeir vinna ekki. Og ekki er síður ástæða til að rannsaka hvernig háttar til í bankakerfinu og reyna svona að straumlínulaga það og sníða það betur að þörfum tímans. En ég held að við getum ekki litið á þetta mál einhverjum náttúrulausum endurskoðunaraugum. Þetta er spurning um afstöðu til samneyslu og þetta er spurning um sæmilega raunhæft mat á stöðu okkar sameiginlegu sjóða í dag. Það er tímasetningin á þessum frv.-flutningi sem er að mínu viti alveg glórulaus. Það eru ekki nema — mér liggur við að segja nokkrar klst. eða nokkrir sólarhringar síðan við lukum langri og strangri yfirferð yfir „bandorminn“ svokallaða og grundvallarástæðan fyrir tilvist bandormsins er náttúrlega fjárskortur á öllum stigum kerfisins. Okkur vantar peninga til allra skapaðra hluta. Okkur vantar peninga í skólakerfi, okkur vantar peninga í heilbrigðiskerfi og okkur vantar peninga hreint úti um allt. Út af því er þetta blessaða gat. Það var athugað og það var leitað með logandi ljósi að möguleikum til að leggja á nýja skatta. Það var athugað með bílaskatta, vegaskatta, bensínskatta og alls konar skatta vegna þess að það var náttúrlega augljóst að meira fjár var þörf. Okkur vantaði meiri peninga. Um það snerist allt saman.

Ég held að það sé hverjum manni augljóst að hver einasti skattstofn sem við leggjum niður við þær aðstæður sem nú ríkja, t. d. þessi hérna, skilar sér bara í erlendum lánum. Í staðinn fyrir að innheimta þessa peninga af erlendum peningaviðskiptum, eins og hefur verið gert, erum við bara að tala um að taka líklega álíka háa upphæð í erlendum lánum í haust. Þarna er bara spurningin hvort við viljum setja börnin okkar á e. k. nauðungaruppboð, stækka þennan part sem við flytjum til þeirra og ætlum þeim eða öðrum, sem á eftir koma, að sjá um að bæta. Og það er af þeim ástæðum sem ég er algjörlega á móti innihaldi þessa frv. Eftir alla þá blankheitaumræðu sem hér hefur staðið að undanförnu finnst mér hreinlega móðgandi fyrir alþm. að fá þetta svo framan í sig. Við erum að tala um, eins og ég segi, að auka erlend lán sem þessu nemur í haust. Og síðan vitum við hvernig erlendu lánin eru notuð. Þau eru notuð á hverjum tíma til þess að berja menn til hlýðni. Við vitum hvernig erlenda lánasvipan hefur verið notuð allt frá því fyrir kosningar á síðasta ári til þess að reka fólk inn í réttina, berja það til hlýðni, standa nú alveg klárir á því að menn vogi sér hvorki að æmta né skræmta út af því að þeir hafi það slæmt. Menn eiga ekki að kvarta yfir því að hert sé að þeim í skólamálum, börnin þeirra fái ekki þá bestu menntun sem hugsast getur, að kostnaður við læknaþjónustu hækki, að það sé samdráttur í heilbrigðiskerfinu. Menn mega ekki kvarta yfir neinu af þessu vegna þess að erlendu lánin eru komin upp fyrir eitthvert mark, viðvörunarmark sem meðaltalsmaskínustjórinn kallar, 60% markið. En hér erum við bara að tala um að flytja þessa bankaskatta til erlendu lánanna í haust og svo fáum við það í hausinn náttúrlega næst þegar verður umr. um fjárlög að erlendu lánin séu því miður orðin svo há að nú verðum við enn þá að draga saman, nú verðum við enn þá að minnka við okkur hér og þar. Ég held að menn ættu stórlega að vara sig í þessum efnum. Hér er á ferðinni allt annar hlutur heldur en t. d. 10% gjaldeyrisskatturinn sem við vorum að tala um hér fyrir einhverjum vikum.

Víkjum síðan að öðru. Það sem er kannske að birtast sífellt betur með hverjum deginum, með hverri vikunni sem liður er innrætið, þ. e. afstaðan sem ríkisstj. hefur til þess hvar hún lætur hlutina koma niður. Ef við rifjum nú aðeins upp það sem við höfum séð að undanförnu þá er náttúrlega fyrst frægan að telja bandorminn. Hvað gerist í bandorminum eftir þriggja mánaða stapp og alls konar spekúlasjónir um hugsanlega tekjustofna, um hugsanlegan sparnað? Allur sparnaðurinn í bandorminum, sem við getum sagt að hægt sé að festa hönd á, er í fyrsta lagi í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna, í öðru lagi í sambandi við sjúkradagpeninga, í þriðja lagi í sambandi við læknishjálp og í fjórða lagi í sambandi við tannréttingar eða minnkun tannlæknakostnaðar. Annað eru bara óskhyggjuyfirlýsingar, það eru heimildir. Það er t. d. heimild fyrir fjmrh. til að lækka ríkisútgjöld allt að 370 millj. kr. skv. 1. gr. Síðan hefur margsinnis komið fram, bæði í umr. hér í þinginu og í nefnd, að ekkert er vitað nánar um hvernig eigi að spara þessar 370 millj. Það eina sem hönd er á festandi er að vísu lækkun niðurgreiðslna en síðan er bara listi, sem gæti eiginlega hljóðað á þessa leið, eins og segir í aths. um 1. gr.: Okkur hefði langað að spara í forsrn. um 6 millj. –og gott þætti okkur að spara í menntmrn. um 25. Og ekki væri lakara að spara í utanrrn. um eins og tvær.

Þetta er í raun og veru það sem þarna stendur. Það er ekki neitt sem hönd er á festandi um það í hverju á að spara. Það sem þeir gátu fest höndina á voru sjúklingarnir sem þurfa að fara til læknisins og borga núna 300 kr. í staðinn fyrir 100 kr. Það eru sjúklingarnir sem þurfa að kaupa lyfin sín og borga 300 kr. í staðinn fyrir 100. Þar var öruggur gjaldstofn sem ekki var hætta á að hrökklaðist frá. Við höfum líka sparnaðinn í tannlæknakostnaðinum vegna þess að eins og þar stendur — og

ætti nú eiginlega að komast á spjöld sögunnar, við verðum eiginlega að sjá til að svo verði — einhvers staðar: Kostnaður vegna tannréttinga hefur hækkað úr hófi og þykir því rétt að einstaklingar beri meiri ábyrgð á kostnaði þessum en verið hefur. Við lékum okkur að því í þessari umr. að setja inn ný orð, t. d. að í staðinn fyrir tannréttingar stæði hjartasjúkdómar. Við sögðum: Kostnaður vegna hjartasjúkdóma hefur hækkað úr hófi og þykir því rétt að einstaklingar beri meiri ábyrgð á kostnaði þessum en verið hefur. Eða geðsjúkdómum eða yfirleitt hverju sem væri. Þarna eru hinir öruggu tekjustofnar sem ekki fara í burtu. Ef krakkagreyin eru svo óheppin að vera fædd með skakkar tennur og þurfa nauðsynlega á þeirri þjónustu að halda þá er velt kannske upphæð af stærðargráðunni 20 þús. kr. pr. hvert barn yfir á foreldrana. Öruggur tekjustofn.

Þarna sýnist mér birtast viðhorf ríkisstj. til efnahagsmála og til sparnaðarmála. Þeir berja sér á brjóst. Þegar t. d. rætt var um það í sambandi við fjárlagagerð að ekki væri nú gott að skera niður barnaheimilabyggingar eins og á horfðist og ekki væri gott að horfa upp á þennan samdrátt í skólakerfinu, þá var sagt: Ja, við skiljum það engu verr en þið. Okkur tekur þetta mjög sárt, en maður verður nú að vera raunsær. Við eigum ekki peninga í þetta. Við eigum ekki þessar 20 millj. Við þurfum að spara þessar 20 millj. sem hefðu farið í barnalieimilin. Þetta er nú bara hinn bitri sannleikur. Þetta er raunveruleikinn. Frammi fyrir þessu stöndum við.

Þetta voru hinir raunsæju peningamenn og þetta raunsæi kemur svona niður, við sjáum hvernig þeir hafa sparað peninga. Þeir spara peningana á þeim sem þurfa læknishjálpar með. Það eru sparaðir peningarnir hjá þeim sem þurfa t. d. tannlæknaþjónustuna. Það eru sparaðir peningarnir í menntakerfinu. Það eru sparaðir peningarnir á barnaheimilunum. Það eru skorin niður námslán. Það er nú kapítuli út af fyrir sig að ríkisstj., sem skyndilega hefur uppgötvað framtíðina og má vart mæta vegna áhuga síns á uppbyggingu, nýsköpun, nýtækni, háþróun og öllu því líku, á sama tíma og þessi ríkisstj. ætlar nú loksins að hefja rannsóknir og þekkingu og hugvit til hásætis hjá Íslendingum þá skera þeir niður skólakerfið og stúdentana. Það er þokkaleg byrjun.

Þarna kemur kannske enn þá einu sinni fram skorturinn á sæmilegri framsýni. Menn ættu að minnast þess að það sem Bandaríkjamenn eru að uppskera núna í sínum atvinnulífsbyltingum, fyrst tölvubyltingunni og síðan líftæknibyltingunni, og við gætum talið þær fleiri, það er fjárfesting í menntakerfi sem þeir gerðu fyrir 25 árum síðan og var kennd við ferðina til tunglsins. Þá var þjóðin öll sammála um það að þeir yrðu náttúrlega að koma manni til tunglsins á undan Rússunum. Ég held því fram að þetta hafi bara verið lymskulegt yfirskin til þess að stuðla að rannsóknum í raunvísindum og kennslu í raunvísindum í Bandaríkjunum, til þess að réttlæta stórkostlegar fjárfúlgur sem voru settar í slíkt. En núna eru þeir að uppskera. Það var 25 ára áætlun. Það var 25 ára fjárfesting sem hefur borið ríkulegan ávöxt. Ég held að menn, sem eru búnir að uppgötva þessa framtíð og ætla sér að fara að halda inn á þessi svið, ættu ekki að byrja eins og gert er hér með samdrætti í skólakerfinu en að létta sköttum af bönkum.

Ég hef hér svolítið fjallað um það frá hverju peningarnir hafa verið teknir að undanförnu undir yfirskini þess að sjóðurinn sé tómur og okkur sé bráð nauðsyn að spara. En það er líka hægt að velta svolítið meira fyrir sér í hvað er verið að eyða peningunum okkar á þessum sama tíma. Það hafa verið rakin um það nokkur dæmi hér í kvöld. Við höfum byggingarkúnstir af ýmsu tagi, fyrst og fremst náttúrlega Seðlabankann. Mér óar við því hvað það hús kostar fullbúið ef fylgt verður sama standard í málverkakaupum og menn hafa frétt af á þeim bæjum að undanförnu. Við sjáum í hvað peningunum er eytt t. d. í bankaútibúunum. Þetta eru nú þessir sömu bankar sem er svo bráð nauðsyn að létta sköttunum af núna. Við höfum um þetta fleiri dæmi. Það var minnst hér áðan á flugstöð í Keflavík. Þó að þetta komi kannske ekki allt úr sömu sjóðum eru þetta á endanum allt saman peningar sem við þurfum að borga. Og þetta birtir manni aftur ákveðin viðhorf til samfélagsins, til samfélagslegrar neyslu og undarlegar hugmyndir um það hvernig menn undirbúa sig fyrir framtíðina.

Til þess að draga þetta mál saman vil ég segja það, að þó að ég sé og hafi sýnt það í vetur að ég sé fullkomlega fylgjandi því að menn endurskoði, að menn athugi fjáröflun og endurmeti skattlagningu og þess háttar, þá er það ranglátt að fella niður þennan skatt, það er rangt að leggja þessa tekjuöflun niður á sama tíma og sprengt er blóðið undan nöglunum á okkur við að draga saman og herða beltið í öllu sem heitir félagsleg þjónusta, en ýmiss konar minnisvarðabyggingar fyrir einstaka valdamenn eru þær sem ganga fyrir.