09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

10. mál, verðlagsmál

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það þykir ekki vel að verki staðið í húshaldi að fara ekki í hornin þegar gólf eru þrifin, að ég nú ekki tali um að sópa undir mottuna. Það endar ekki nema á einn veg. Það kemur að skuldadögum. Ef sá sem húshaldinu ræður þrífur ekki sjálfur verður einhver annar að koma og hreinsa undan mottunni og úr hornunum. Það er nákvæmlega það sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera síðan hún tók við. (Gripið fram í.) Hún hefur verið að sópa upp eftir fyrrv. ríkisstj. og hreinsa úr hornunum.

Það er auðvitað hægt að gleyma því sem er óþægilegt, en það er jafnframt hollt fyrir þá hv. þm., sem vorn stuðningsmenn þeirra aðgerða sem voru stundaðar á síðasta kjörtímabili, þeirrar hæstv. ríkisstj. sem ríkti á undan þeirri sem nú situr, að sópa úr hornunum öllum þeim vandamálum sem áður var frestað. Þá var velt á undan sér rekstrarvandanum til að falsa vísitölur. Þetta þekkja og vita þeir sem vilja. Og hver var svo árangurinn þegar upp var staðið? Verðbólgan var komin í þriggja stafa tölu, 130–140%. Núv. ríkisstj. hefur tekið nokkuð vel til fram að þessu. Henni hefur tekist að koma verðbólgunni aftur í tveggja stafa tölu, 30–40% .

Mig langar við þetta tækifæri til að taka mér í munn orð fyrrv. hæstv. félmrh. Svavars Gestssonar, sem hann mælti í sjónvarpsviðtali þegar verið var að ræða kaupskerðingar eða kjaramál fyrir síðustu kosningar. Hann sagði nefnilega: „Það gerir enginn að gamni sínu að skerða kjör fólksins í landinu, en þetta voru nauðsynlegar aðgerðir.“