14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5888 í B-deild Alþingistíðinda. (5250)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skil mjög vel að hæstv. fjmrh. skuli ekki telja ástæðu til að fara mörgum orðum um frv. sem nú er hér tekið fyrir, 306. mál, vegna þess að bæði hefur hann mælt fyrir frv. í Ed. og auk þess hefur málið verið rætt undir síðasta dagskrárlið, um umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta.

Hæstv. fjmrh. hefur látið mér í té áætlun um tekju- og eignarskatt banka og sparisjóða vegna rekstrarársins 1983 og þakka ég hæstv. ráðh. fyrir það og mun koma að því síðar í ræðu minni.

Ég þakka hæstv. sjútvrh. einnig fyrir að halda því til haga að hann var formaður í bankamálanefnd sem síðasta ríkisstj. hafði í verkum á sínum vegum. Þáverandi hæstv. viðskrh. mun hafa skipað hana snemma á ferli þeirrar ríkisstj. Hún hafði ýmiss verkefni á sínum prjónum og þokaði einhverju áleiðis. Síðan kom babb í bátinn, eins og kunnugt er. Það var skipt um formann í nefndinni og ég held að hún hafi síst lagast við það. Án þess að ég hafi haldið eða haldi yfirleitt miklar lofræður yfir hæstv. núverandi sjútvrh. hygg ég að nefndin hafi verið betur komin í hans höndum en þess sem tók við af honum.

Inn í þessar umr. hefur hæstv. sjútvrh. blandað nokkuð aðdraganda þessa máls og ég held að það sé þá rétt að hv. alþm. fái um það upplýsingar hvernig þeir hlutir þróuðust. M. a. hefur verið rætt um að í síðustu ríkisstj. hafi verið fjallað sérstaklega um að lækka umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta. Hæstv. núverandi fjmrh. Albert Guðmundsson, þm. Sjálfstfl. sem hann auðvitað er enn, á síðasta kjörtímabili, beitti sér mjög fyrir því að umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta yrði felld niður. Hæstv. ráðh. Albert Guðmundsson var mjög nákomin síðustu ríkisstj. eins og kunnugt er. Hann kom þar nokkuð við sögu. Bæði sendi hann ákveðið bréf, sem skipti nokkuð miklu máli, upp í Stjórnarráðið áður en stjórnin var mynduð og í rauninni skapaði hann þannig forsendur þess að hv. þáverandi þm. Gunnar Thoroddsen gat gert tilraun til stjórnarmyndunar eða þess að forseti Íslands fól honum stjórnarmyndun. Hæstv. núverandi fjmrh. mundi mjög lengi eftir þessu bréfi. T. d. var það svo, að þegar hann var gerður að formanni bankaráðs Útvegsbankans ætlaðist hann auðvitað til þess að þáverandi ríkisstj. sýndi Útvegsbankanum fullan sóma, hvað hún og gerði eins og ég rakti í fyrri ræðu minni í dag. Einnig ætlaðist hæstv. núverandi fjmrh. til þess að þáverandi stjórn kæmi á ýmsum öðrum sviðum til móts við hans sjónarmið. Hann leit að sumu leyti á þetta sem sína stjórn þó hann vilji auðvitað ekki viðurkenna það núna, og kom það m. a. fram í tollkrítarmáli sem hefur verið til meðferðar í mörg ár, bæði undir núverandi stjórn og fyrrverandi stjórn. Svo óskaði hann m. a. eftir því að ríkisstj. léti sérstaklega til sín taka varðandi umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta. Á sínum tíma var hann með hugmyndir uppi um að skattskylda innlánsstofnana, sem ákveðin var með lögum 1982, yrði til þess að bankarnir slyppu við að borga umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskiptanna. Hann vildi skipta á þessum tveimur sköttum. Þegar þáverandi ríkisstj. var nokkuð knöpp með meiri hluta á Alþingi, einkum í þessari virðulegu deild, þótti rétt, af skynsamlegum ástæðum og eðlilegum, að líta nokkuð til hv. þm. og þess hvort vænta mætti að hann liti með velvild á frv. um skattskyldu innlánsstofnana. Ekki man ég hvernig þar fór að lokum, en allavega kallaði hann kútinn þegar þessi mál bar á góma, eins og segir frá í þjóðsögunum að gert hafi verið. Það var reyndar faðirinn sem kallaði kútinn — ja, guðfaðirinn má kannske segja, miðað við það sem síðar gerðist.

Þegar hv. þm., hæstv. núv. fjmrh., ætlaði að leggja fyrir þingið frv. um að afnema umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta hvöttum við þáv. fjmrh. hann eindregið til að láta málið liggja. Við vildum ekki fá þetta mál inn í þingið frá þessum næstum að segja stuðningsmanni ríkisstj., vegna þess að það var hætta á því að fleiri gleptust á því að styðja þetta mál en góðu hófi gegndi miðað við þær aðstæður sem þá voru uppi, og við gátum ekki fallist á að bankaskatturinn ætti að koma í staðinn fyrir þann skatt sem þarna var um að ræða. En vegna eindreginna óska og tilmæla þessa hv. þm., hæstv. núv. fjmrh., féllst Ragnar Arnalds fjmrh. á að í frv. um skatta á innlánsstofnanir væri slakað örlítið til í sambandi við skattlagninguna, þannig að á árinu 1982 yrði skatturinn ekki 60% af umboðsþóknun og gengismun heldur 50%. Auðvitað var okkar skoðun sú að það gæti vissulega komið til greina, og menn munu ekki hafa tekið því neitt þverlega, að einhvern tíma yrði gengið skrefi lengra, þegar fjárhagur ríkissjóðs leyfði, og kannske yrði þessi skattur lækkaður niður í 40%, en það kom aldrei til greina af okkar hálfu að það yrði gengið lengra og í þeim frv. sem fjallað var um í síðustu ríkisstj. var ekki gert ráð fyrir að gengið væri lengra í þessa átt. Það er því í besta falli alger misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að við höfum gert ráð fyrir því í síðustu ríkisstj. að fella þennan skatt niður. Við gátum í mesta lagi hugsað okkur þarna einhverja tilslökun, en ekki meiri en svo að um yrði að ræða áframhaldandi 40% hlut ríkissjóðs í þessari gjaldtöku bankanna.

Það fór svo, eins og hv. alþm. er kunnugt, að Alþingi afgreiddi skattskyldu á bankastofnanir með nokkuð ákveðnari hætti en hæstv. þáv. fjmrh. hafði gert tillögur um því að einungis var gert ráð fyrir tilslökun á árinu 1982 og síðan ekki söguna meir. Ég man ekki, það man kannske hæstv. sjútvrh. betur en ég, hvernig stóð á þessari breytingu nákvæmlega. Ég var ekki sjálfur í þessum málaflokki, þannig að ég man ekki nákvæmlega hvernig þessi breyting gerðist og er kannske erfitt að finna því stað hvaðan hún var ættuð þegar málið var tekið fyrir hér á hv. Alþingi. Ég reikna með að hún hafi komið fram í nefnd sem fjallaði um málið og breytti þessu frá því sem þáv. fjmrh. hafði gert ráð fyrir.

Síðan hefur bersýnilega komið á daginn, sem allir sáu náttúrlega fyrir, að ríkinu veitir ekki af þessum tekjum. Sérstaklega hefur það komið í ljós í tíð hæstv. núv. fjmrh. Og aðstæður eru á margan hátt breyttar frá því sem var fyrir einu eða tveimur árum. Ef einhverjir, þar á meðal hæstv. fjmrh., hafa haft í huga að gott væri að slaka til með þetta gjald þá ættu þeir að hafa breytt um skoðun núna, og ekki síst hæstv. fjmrh. eftir að hann kynntist því af eigin raun hversu bágur fjárhagur ríkissjóðs er. Hæstv. ráðh. hefur reyndar lýst því að fjárhagur ríkissjóðs hafi verið bágari en hann gerði sér grein fyrir í kosningabaráttunni.

Hæstv. fjmrh. blandar gjarnan þessum tveimur sköttum saman, þegar hann er að ræða um þessi mál, og gerði það í umr. um fyrra dagskrármálið. Ég tel að út af fyrir sig hafi komið til greina að slaka nokkuð til á umboðsþóknun fyrir gjaldeyrisviðskipti, en það kom aldrei til greina af okkar hálfu að fara neðar en í 40%. Sérstaklega finnst okkur alvarlegt þegar menn eru að gera tillögur um þetta þegar vandi ríkissjóðs er jafnstórfelldur og hæstv. ráðh. hefur viðurkennt. Þá eru menn að gera hér tillögur um frv. sem hefur í för með sér tekjutap ríkissjóðs sem nemur hvorki meira né minna en 180 millj. kr. á næstu tveimur árum. Þetta, herra forseti, taldi ég nauðsynlegt að kæmi fram vegna þess að hæstv. sjútvrh. var svo vinsamlegur að minna á afskipti fyrrv. ríkisstj. af þessum málum.

Í umr. um þessi mál hefur hæstv. fjmrh. fullyrt aftur og aftur að Ragnar Arnalds, hv. 3. þm. Norðurl. v., hafi svikið þetta eða hitt í þessu máli. Ég tel að þetta sé alvarlegur áburður og ég tel að það sé mjög alvarlegt þegar hæstv. fjmrh. er að skamma Ed.-menn óbófa skömmum niðri í Nd. og bera á þá svik. Ég tel að það sé algert lágmark að hæstv. ráðherrar hagi orðum sínum þannig að þeir þm. sem um er að ræða hverju sinni geti borið hönd fyrir höfuð sér. En hæstv. fjmrh. hefur nú kosið að endurtaka þessi svikabrigsl á hv. 3. þm. Norðurl. v. í dag og ég verð að segja að mér þykir það heldur leitt vegna þess að ég kannast ekki við að hæstv. fjmrh. hafi lagt sig eftir slíkum vinnubrögðum og mér þykir það heldur leitt að hann skuli láta standa sig að slíku.

Í sambandi við þessi svikabrigsl, sem hæstv. fjmrh. hefur hins vegar borið á fyrrv. hæstv. fjmrh. og á þáv. ríkisstj. og þar með kannske sérstaklega okkur í Alþb., sem bárum ábyrgð á ríkisfjármálunum á þeim tíma, gerðist nákvæmlega það í þessum efnum sem til stóð, að slaka til um álagningu þessa skatts, en það var aldrei á blaði að fella þennan skatt niður af okkar hálfu. Það kom auðvitað ekki til greina. Ég segi hæstv. ráðh. alveg eins og er, að í hans sporum mundi ég alls ekki ljá máls á því að lækka þennan skatt miðað við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu og sérstaklega hjá ríkissjóði. Mér finnst að hæstv. fjmrh. sjáist nokkuð oft yfir að þessi mikli halli á ríkissjóði er stórfellt efnahagslegt vandamál orðið hér í landinu. Hér er um að ræða gífurlega seðlaprentun sem engin verðmætasköpun stendur á bak við og það er bersýnilegt að þessi mikla seðlaprentun mun hafa í för með sér að hætta verður á stóraukinni verðbólgu þegar liður á þetta ár, eins og ýmsir aðilar hafa bent á, t. d. Vinnuveitendasamband Íslands, svo að ég nefni einn aðila sem stundum hefur náð eyrum hæstv. fjmrh., að ég tali nú ekki um Verslunarráð Íslands þar sem mig minnir að hann hafi einu sinni verið formaður. (Fjmrh: Það er rangt.) Ja, hann var þar í stjórninni. Var það ekki rétt? (Fjmrh.: Jú, jú, jú, jú.) Já, ég bið hæstv. ráðh. að afsaka. Ég hef yfirtitlað hann í þessu efni. Það var ekki meiningin. Þegar eitthvað er missagt er mér skylt að hafa það sem sannara reynist og ég tek ábendingum hæstv. fjmrh. með ljúfu geði. (Fjmrh.: Ekki gerðirðu það fyrri.) Jú, ég hef gert það í allri þessari ræðu, hæstv. ráðh., og gæti þess jafnan að hafa það sem sannast reynist í hverju máli.

Það er eftirtektarvert í þessu sambandi, herra forseti, að bankamálanefndin, sem hæstv. sjútvrh. var í fyrirsvari fyrir, lagði tvær tillögur fyrir hæstv. fjmrh. Annars vegar var gert ráð fyrir að þessi skattur, sem hér er verið að ræða um, stæði áfram og yrði 50% eins og hann var á árinu 1982. Undir þetta frv. rituðu fulltrúar allra flokka á Alþingi þá. Hins vegar var gert ráð fyrir að skatturinn yrði alveg lagður niður. Ráðh. átti sem sagt um tvo kosti að velja. Hann gat valið annað af þessu tvennu því að nefndin skilaði tveimur valkostum. Hæstv. sjútvrh. var að ýja að því áðan að við í Alþb. ættum nú að vera heldur glaðir yfir þessu vegna þess að sennilega hefði okkar nm. í bankamálanefndinni skrifað upp á þau gögn sem hér eru gerð að umtalsefni, en vafalaust hefur þessum nm. Alþb. ekki dottið í hug að til greina gæti komið að hér sæti nokkurn tíma að völdum fjmrh. sem tæki þann kostinn að minnka tekjur ríkissjóðs enn meira. Núv. hæstv. fjmrh. valdi þann kostinn sem skilaði ríkissjóði sem minnstum tekjum. Það er hans búskaparlag þegar kemur að svona fyrirtækjum og bönkunum. Hann valdi það frv. sem svipti ríkissjóð tekjum í stórum stíl og kaus þannig frá sjónarmiði ríkissjóðs verri kostinn. Það má hins vegar segja að það sé í fullu samræmi við afstöðu hans yfirleitt í ríkisfjármálum, þannig að þetta sé gersamlega rökrétt þegar allt kemur til alls miðað við hans feril sem fjmrh. Hæstv. ráðh. og fleiri hafa að undanförnu og í tilefni af þessum málum sett á langar ræður og haft hér harmagrát í frammi vegna hins bága fjárhags bankanna. Er greinilegt af þessum ræðum að það er Jóhannes Nordal og aðrir bankastjórar viðskiptabankanna sem ráða úrslitum um hvað ríkisstj. er að gera í þessu efni. Það verður auðvelt, herra forseti, þegar þar að kemur að skýra vegna hvers fjárhagur ríkissjóðs varð svo bágur á árunum 1983, 1984 og 1985 og hvers vegna komu svo mörg göt á ríkissjóð hjá hæstv. núv. fjmrh. Þau urðu til með þeim hætti sem hér er verið að gera tillögur um. Hæstv. ráðh. situr við daglangt og náttlangt og borar göt á ríkissjóð. Það eru jafnvel felldir niður skattar gersamlega að ástæðulausu og stundum eru fluttar tillögur um niðurfellingu skatta án þess að ríkisstj. viti neitt hvað þeir þýða í tekjumissi fyrir ríkissjóð. Það er settur krani á ríkissjóð og það veit enginn hvað kemur út um þetta gat á ríkissjóði þegar skrúfað verður frá krananum. Þessi vinnubrögð hæstv. fjmrh. eru þess vegna fullkomlega gagnrýni verð út frá sjónarmiði þeirra sem líta á ríkið og ríkissjóð sem einn megingrundvöll samneyslunnar í landinu. Við erum hér að tala um grundvallaratriði í okkar stjórnskipun og grundvallaratriði í okkar pólitísku umræðu allri og ég hlýt að gagnrýna að það sé haldið á málum eins og hæstv. fjmrh. gerir. Það er sjaldgæft að þm. sýni umhyggju fyrir ríkissjóði og það er einkum og sér í lagi sjaldgæft, og var svo á síðasta kjörtímabili, að stjórnarandstaðan sýni ríkissjóði umhyggju. Ég held því að hæstv. fjmrh. ætti að taka því fagnandi þegar stjórnarandstöðuþm. gera það sem þeir mega til að leiða ráðh. fyrir sjónir hvað hér er að gerast, hvort sem þeir eru sofandi eða vakandi í ræðustólunum, og gjarnan sé reynt að fá ráðh. til að opna augun, rífa sig upp og vakna til að átta sig.

Hér hefur nokkuð verið rætt um þá tekjuskerðingu sem ríkissjóður verður fyrir vegna þessa frv. Hún verður miklu stórfelldari á árunum 1985 og 1986, ef frv. verður samþykkt, því að þá eiga greiðslur í ríkissjóð frá innlánsstofnunum að lækka um helming eða um 65 millj. kr. til viðbótar núverandi verðlagi hvort árið um sig vegna breyttrar tilhögunar við álagningu. En við þurfum að átta okkur á að hér er verið að breyta álagningu bankanna í grundvallaratriðum frá því sem verið hefur. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. segir svo, með leyfi forseta:

„Ljóst er að ekki verður horfið frá staðgreiðslufyrirkomulagi til eftirágreiðslukerfis á sköttum nema með því að niður falli skattgreiðslur eins árs.“

Það er það sem hér er verið að gera. Bankaskattarnir, eins og þeir eru lagðir á, eru staðgreiðsluskattar. Það er eini staðurinn í kerfinu, trúi ég, þar sem um er að ræða staðgreiðslukerfi skatta. Ríkisstj. ætlar ekki að fylgja þessu frumkvæði eftir og halda áfram með staðgreiðslu skatta á öðrum sviðu, heldur ætlar hún að breyta þessu staðgreiðslukerfi bankanna í eftirágreiðslukerfi. Það er sú grundvallarbreyting sem hér er verið að gera fyrir utan alls konar ívilnanir sem verið er að veita með þessum frv. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa áttað sig á því að verið er að rífa niður þetta staðgreiðslukerfi á sköttum bankanna. Þetta er skýringin á hinu mikla tekjutapi ríkissjóðs á árunum 1985 og 1986. Það eru felldar niður skattgreiðslur eins árs og niðurfellingunni er dreift á tvö ár. En skyldi það nú vera rétt, sem meiri hl. í Ed. segir, að það sé ekki hægt að breyta úr staðgreiðslufyrirkomulagi í eftirágreiðslukerfi nema fella algerlega niður skattgreiðslur sem svara til skatts á einu ári. Er þetta eina leiðin sem til er, ef menn á annað borð vilja fella niður staðgreiðslukerfi? Ég tel að það sé rangt. Það er auðvitað hægt að breyta þessu skattakerfi frá staðgreiðslusköttum til eftirgreiðslukerfis með öðrum hætti en þeim að sleppa bönkunum við skatt í eitt ár. Það er það sem verið er að gera. Þetta er blekking í raun og veru, sem meiri hl. n. í Ed. setti í sitt nái. til þess að rökstyðja þá fullyrðingu sína að það sé ekki hægt að breyta álagningarkerfi án þess að fara að með þeim hætti sem hér hefur verið lýst og tillögur eru gerðar um. Auðvitað er hægt að finna ótal leiðir til að ná þessum peningum inn í ríkissjóð aðrar en þær sem hér eru valdar, þ. e. að fella skattinn einfaldlega gersamlega niður í heilt ár. Það er verið að fella niður skattinn í bönkunum í heilt ár. T. d. vil ég benda hæstv. fjmrh. á þann möguleika að skattleggja árið sem verið var að gera breytinguna á þeim tekjuskattsgrunni sem seinast var notaður og setja í lög ákvæði þess efnis. Þannig mundu ekki tapast 130 millj. sem ríkissjóður verður af af þessari ástæðu.

Ég vil einnig benda á aðra leið í þessu efni. Það væri einnig hægt að ákveða að á árinu þegar verið er að breyta um kerfi sé lagður á veltuskattur, eins og gert var á árinu 1982, þannig að skattgreiðslan það árið miðist við veltu hvers banka fyrir sig, t. d. innlánsaukningu. En hæstv. fjmrh. vill ekki hlusta á þessa möguleika, sem auðvitað eru til. Hann velur alltaf þá leiðina sem hefur minnstar tekjur í för með sér fyrir ríkissjóð því að hann virðist eiga nóg af peningum þar og munar ekki um það hvort út fara 100 millj. þarna eða 100 millj. einhvers staðar annars staðar. Hér er verið að framkvæma tæknilega breytingu. Ég vek athygli þingheims á því. Hér er verið að framkvæma tæknilega breytingu úr staðgreiðslukerfi yfir í eftirágreiðslukerfi og sú tæknilega breyting er látin kosta ríkissjóð 130 millj. á tveimur árum. Ég segi: Þetta er óþarfi, hæstv. fjmrh. Það er óþarfi að vera svona rausnarlegur við bankana, jafnvel þó að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því að lækka þjónustugjöld bankana og lækka jafnvel einstaka skatta þeirra og láta þá fá aukalega 130 millj. kr., vegna þess að það er verið að breyta um kerfi, það er verið að borga með kerfisbreytingunni, sem bankarnir vilja fá, 130 millj. kr. úr ríkissjóði. Ég tel það, herra forseti, í rauninni alveg glórulaust að fara svona með almannafé. Það er það sem verið er að gera hér. Það er verið að sólunda almannafé. Ég trúi því ekki enn þá að hæstv. fjmrh., standandi frammi fyrir þeim gífurlega vanda sem hann hefur við að glíma í ríkisfjármálum, hafi ekki gert sér grein fyrir því hvaða tekjuniðurfellingu er hér um að ræða.

Ég tel að hæstv. fjmrh. geti ekki fullyrt í alvöru að það sé sanngjarnt eða eðlilegt að fella algerlega niður skattlagningu í heilt ár eða, eins og hér er gert, að hálfu leyti í tvö ár. það eru engin sanngirnisrök, hæstv. ráðh., sem mæta með þessu. Enn síður er það nein nauðsyn. Ég óska a. m. k. eftir því að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því hvaða sanngirnisrök eru fyrir því að láta bankana hafa aukalega 130 millj. kr.

Hv. 1. þm. Suðurl., Þorsteinn Pálsson, mun hafa haft forustu í þessari bankamálanefnd eftir að hæstv. sjútvrh. lét þar af formennsku og þegar hann tekur við forustu í bankamálanefndinni verður hann auðvitað að setja mark sitt á bankamálanefndina. Hann verður að koma með sína tillögu. Hann getur ekki verið að láta núv. hæstv. sjútvrh., fyrrv. formann bankamálanefndarinnar, móta þetta í einu og öllu. Hv. 1. þm. Suðurl. verður að skilja eitthvað eftir sig eins og hann eyðilagði húsnæðissamvinnufélögin fyrr í kvöld. Og þessi hv. þm., formaður bankamálanefndarinnar, gerir það að tillögu sinni að snúa allri skattlagningu á bankana við, hætta við staðgreiðslukerfið og taka upp eftirágreiðslukerfið þó að auðvitað þurfi ekki að skipta efnislega neinu máli hvort kerfið er notað. Afleiðingin verður hins vegar sú, að ríkissjóður blæðir vegna þess að það er verið með þessu frv. að afhenda bönkunum af atmannafé, þetta er styrkur, 130 millj. kr. skv. þessu frv.

Hv. þm. Friðrik Sophusson, sem enn er vakandi, var að berjast um í vetur við að koma í gegn tekjuskattshækkun á almenning í landinu. Það var frv. sem fór í gegnum einar átta umr. í þinginu, valsaði fram og aftur, var einn daginn í Nd. annan í Ed. og enginn vissi hvar það mundi enda. Hvað var það nú mikið sem hv. þm. Friðrik Sophusson hafði upp úr þessu krafsi? Hvað var það mikið? 70 millj. í ríkissjóð. Og það var bent á að þetta skipti alveg sköpum og mundi muna miklu fyrir ríkissjóð árið 1984 að fá þetta. Það voru haldnir hérna næturfundir og ég hélt tiltölulega hófsamar ræður, ekki mjög langar en nokkuð ítarlegar stundum, og jafnvel hv. þm. Friðrik Sophusson blandaði sér í þær umr., einkum með frammíköllum eins og hans er háttur, en ekki með mjög löngum ræðuhöldum, en honum var það mjög í mun að koma þessum frv. fram. 70 millj. kr. skyldi hann nú öngla saman fyrir félaga sinn Albert Guðmundsson, hæstv. fjmrh. Viti menn. Ekki er hv. þm. Friðrik Sophusson, 2. þm. Reykv., fyrr búinn að kvelja þetta mál í gegnum þingið fyrir hæstv. fjmrh. en það kemur hér frv. um að lækka bankaskatt tvöfalt á við þetta vegna einnar saman kerfisbreytingar. Bankarnir vilja auðvitað taka upp eftirágreiðslurkerfi og hafa það eins og öll önnur fyrirtæki í landinu. Látum það vera að það sjónarmið bankanna sé eðlilegt. En að borga með þessu 130 millj. af almannafé, það er auðvitað ekki nokkurt ráðslag.

Það fer auðvitað ekki milli mála að þeir sem sömdu þetta frv. og bera það hér fram eru ekki að hugsa um hag ríkissjóðs. Þeir láta sér í léttu rúmi liggja hvernig almannasjóður eins og ríkissjóður kemur út í þessum efnum. Þetta held ég, herra forseti, að sé mjög nauðsynlegt að komi hér fram og ég mun fyrir mitt leyti hafa mjög svipaða afstöðu til þessara frv. og fram kom í Ed. Alþingis þegar málið var rætt, en þá gerðist það að minni hl. lagði til að málinu yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, herra forseti, hefur hæstv. fjmrh. verið svo vinsamlegur að láta mér í té áætlun um tekju- og eignarskatt banka og sparisjóða vegna rekstrar ársins 1983. Í þessu yfirliti kemur fram áætlun um tekjutap ríkissjóðs vegna niðurfellingar gjalda af gjaldeyrisviðskiptum, umboðsþóknun og gengismunar. Það kemur ljóslega fram í þessum tölum frá hæstv. ráðherra að um er að ræða verulegt tekjutap vegna þessarar lækkunar, þ. e. þegar lækkað er úr 60% í 40% 1984, úr 60 í 20 1985 og 60 í 01986. Þá kemur það einnig fram að verulegt tekjutap verður hjá ríkissjóði vegna breytingar á skattskyldu innlánsstofnana. Það munar um það bil 20 millj. kr. Í fyrsta lagi 10 millj. vegna tillagna hæstv. fjmrh., en svo var meiri hl. n. í Ed. svo rausnarlegur að bora fleiri göt á þessa tekjuöflun þannig að tap ríkissjóðs hækkar upp í um 20 millj. kr. Þetta eru álitlegar upphæðir, en þetta segir ekki alla söguna því að við þetta bætist svo 130 millj. sem hæstv. fjmrh. ætlar af rausnarskap sínum að gefa með kerfisbreytingunni úr ríkissjóði, kerfisbreytingunni sem bankarnir sjálfir eru að fara fram á. Þetta heitir nú að vera almennilegur við bankana, hæstv. fjmrh., og ég held að ráðh. ætti að athuga sinn gang þarna aðeins betur og taka upp kerfið, sem ég var að gera grein fyrir, sem tryggir að ríkissjóður tapar ekki á kerfisbreytingunni. Það er auðvitað alger óþarfi að vera að borga með tæknilegri breytingu úr ríkissjóði þó að menn vilji vera almennilegir við bankana, eins og hæstv. fjmrh. leggur sig fram um að vera.