15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5947 í B-deild Alþingistíðinda. (5273)

336. mál, dreifing olíu innanlands

Fyrsta spurning fyrirspyrjanda hljóðar svo:

„Hvað veldur því að olíubirgðageymir Olíuverslunar Íslands á Seyðisfirði hefur ekki verið notaður um eins árs skeið?“

Því er til að svara að olíubirgðageymirinn á Seyðisfirði er einvörðungu undir gasolíu. Síðast var gasolíu landað þar í október 1982. Engar birgðir hafa verið í olíubirgðastöðinni á Seyðisfirði frá því í febrúar 1983.

Ástæða þess að birgðaaðstaðan á Seyðisfirði hefur ekki verið notuð í allan þennan tíma er öðru fremur ágreiningur milli olíufélaganna um hagkvæmni birgðastöðvarinnar. Að áliti forráðamanna Olíufélagsins hf. og Skeljungs hf. hefði verið óhagkvæmt fyrir fyrirtækin að nota geyminn á síðastliðnu ári. Forráðamenn Olíuverslunar Íslands hf. eru á hinn bóginn öndverðrar skoðunar.

Önnur spurning er svohljóðandi:

„Hvaða þjóðhagsleg áhrif hefur það að nýta ekki þennan geymi til eðlilegs birgðahalds en flytja þess í stað alla olíu út frá Reykjavík?“

Varðandi þessa spurningu verður að gera grein fyrir sjónarmiðum beggja deiluaðila:

Olíufélagið hf. og Skeljungur hf. byggja afstöðu sína á því að miðað við þá olíunotkun, sem nú er í landinu, hvernig sú notkun skiptist á landshluta og nýtingu strandferðaskipa, muni vera hagkvæmast að nota eina höfn sem birgðahöfn vegna innflutnings á olíum til landsins. Félögin telja að sá kostnaður, sem hlýst af gasolíudreifingu frá Seyðisfirði, sé hærri en sem nemur mismun dreifingarkostnaðar til Austfjarðahafna frá Reykjavík annars vegar en Seyðisfirði hins vegar. Nefna þau m. a. fjármagnskostnað vegna aukins birgðahalds.

Forráðamenn Olíuverslunar Íslands hf. telja á hinn bóginn að þessir útreikningar standist ekki. Benda þeir m. a. á að birgðahald í landinu eigi ekki að þurfa að aukast neitt við það að olía sé sett upp á Seyðisfirði ef þess er gætt að þar séu ekki of miklar birgðir.

Þess má geta að fyrirspurn þessi var send olíufélögunum þremur til umsagnar. Rétt þykir að gera nánari grein fyrir svörum þeirra við fyrirspurninni.

Í svarbréfi Skeljungs hf. kom m. a. eftirfarandi fram: „Það er og hefur ætíð verið vilji stjórnenda Olíufélagsins Skeljungs hf. að gæta sem mestrar hagkvæmni við sölu og dreifingu á olíu. Með þetta að markmiði er öll starfsemi félagsins í sífelldri endurskoðun. Við slíka endurskoðun eru m. a. gerðir hagkvæmnisútreikningar á hinum ýmsu þáttum starfseminnar, þar með talið á hvern hátt best sé að standa að innflutningi á olíu til landsins og dreifingu olíuvara innanlands.

Niðurstaða þessara útreikninga hefur leitt í ljós að miðað við þá olíunotkun, sem nú er í landinu, hvernig sú notkun skiptist á landshluta og eðlilega nýtingu strandferðaskipa, muni vera hagkvæmast að nota eina höfn sem birgðahöfn vegna innflutnings á olíum til landsins.

Við þessar athuganir hefir að vorum dómi m. a. verið tekið eðlilegt tillit til aukins fjármagnskostnaðar við birgðahald, geymslukostnaðar og hækkaðs flutningskostnaðar á olíum til landsins, væru birgðastöðvar á tveim höfnum notaðar í þessum tilgangi.

Þetta eru í stuttu máli helstu ástæður þess að vér höfum ekki tekið þátt í að nota innflutningsgeyminn á Seyðisfirði á annað ár.“

Í svari Olíufélagsins hf. kom fram m. a.:

„Rökin fyrir því að hagkvæmara sé að dreifa gasolíu á Austfirði frá Reykjavík en ekki frá Seyðisfirði eru þau að sá kostnaður, sem hlýst af dreifingu frá Seyðisfirði, er hærri en mismunur á flutningskostnaði frá Reykjavík til Austfjarðahafna annars vegar en frá Seyðisfirði til Austfjarðahafna hins vegar.

Eftirfarandi kostnaðarliðir verða til við dreifingu gasolíu frá Seyðisfirði.

a. Rekstrarkostnaður sjálfrar stöðvarinnar.

b. Viðbótarflutningsgjald sem erlend skipafélög taka vegna viðkomu á Seyðisfjörð og reiknast á allan farminn.

c. Fjármagnskostnaður vegna aukins birgðahalds.

d. Lakari nýting á strandflutningaskipum í eigu Olíufélagsins hf. Olíufélagið þarf hvort sem er að dreifa bensíni og svartolíu frá innflutningshöfnum við Faxaflóa og flytur því eðlilega gasolíu í sömu ferð. Einnig leiðir dreifing á gasolíu frá Seyðisfirði í mörgum tilfellum til lengri siglingar.“

Í svarbréfi Olíuverslunar Íslands hf. kom á hinn bóginn fram eftirfarandi álit:

„Olíufélagið hf. og Skeljungur hf. halda því fram að hagkvæmara sé að dreifa allri olíu frá Reykjavík en að nota Seyðisfjarðargeyminn sem innflutningshöfn og birgðageymslu. Þessi félög byggja sína útreikninga á því að birgðahald gasolíu í landinu hljóti að aukast við notkun Seyðisfjarðargeymisins, a. m. k. að því marki sem svokallaðar dauðar birgðir og grunnbirgðir myndist á þeim geymi. Fjármagnskostnaður vegna þessara birgða sé svo meiri en sparnaðurinn við að dreifa frá Seyðisfirði miðað við Reykjavík.

Olíuverslun Ístands hf. telur þessa útreikninga ekki standast. Birgðahald í landinu eigi ekki að þurfa að aukast neitt við það að olía sé sett upp á Seyðisfirði ef þess er gætt að þar séu ekki of miklar birgðir.

Útreiknaður fjármagnskostnaður vegna dauðra birgða og grunnbirgða standist heldur ekki þar sem birgðir aukist í Reykjavík og á Austfjarðahöfnum við það að loka Seyðisfjarðargeyminum ef heildarinnflutningur verður áfram sá sami. Ekki verður séð að hægt sé að draga úr heildarinnflutningi og birgðahaldi á gasolíu með því að setja allt á land í Reykjavík og loka Seyðisfirði.

Olíuverslun Íslands hf. telur að innflutningsstöðin á Seyðisfirði spari þjóðarbúinu 5,5–7,5 milljónir króna á ári. Er þá miðað við það að verðjöfnunarsjóður olíu greiði hinn aukna flutningskostnað frá Reykjavík miðað við Seyðisfjörð og verði skapaðar til þess tekjur, væntanlega með hækkuðu olíuverði.“

Þriðja spurningin er þessi:

„Hafa olíufélögin gert kröfu um greiðslu flutningskostnaðar vegna umrædds olíumagns úr Verðjöfnunarsjóði olíu, og ef svo er, um hversu miklar upphæðir er þar að ræða?“

Samkvæmt upplýsingum frá félögunum mun Olíufélagið hf. fara fram á greiðslu úr sjóðnum miðað við dreifingu frá Reykjavík og nemur sú fjárhæð kr. 3,2 milljónum miðað við árið 1983. Skeljungur hf. hefur og farið fram á slíka greiðslu úr Verðjöfnunarsjóðnum að fjárhæð kr. 2,1 millj. Þessar greiðslur hafa ekki verið viðurkenndar af stjórn sjóðsins.

Loks er spurt um afstöðu viðskiptaráðherra í þessu máli.

Hér er vitaskuld um viðkvæmt deiluefni að ræða milli olíufélaganna og hefur annar aðilinn, Olíuverslun Íslands hf., eigandi geymisins, fullyrt að olíubirgðastöðin á Seyðisfirði spari 5,5–7,5 milljónir króna á ári. Þessar fjárhæðir miðast við að Verðjöfnunarsjóður olíu greiði hinn aukna flutningskostnað frá Reykjavík miðað við Seyðisfjörð og að skapaðar verði til þess tekjur með hækkuðu olíuverði. Olíufélagið hf. og Skeljungur hf. telja á hinn bóginn að óhagkvæmt sé að nota geyminn, svo sem fyrr sagði.

Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé réttlætanlegt að greiða úr Verðjöfnunarsjóði olíu þann aukna kostnað sem leiðir af flutningi gasolíu til Austfjarðahafna frá Reykjavík miðað við Seyðisfjörð. Óeðlilegt hlýtur að vera að í stað þess kostnaðar, sem leggst á olíufélögin vegna starfrækslu olíubirgðastöðvar, verði þeim kostnaði velt yfir á olíugreiðendur í formi flutningsjöfnunargjalds. Slíkt er óhagkvæmt fyrir neytendur.

Þá verður að hafa hugfast það öryggi sem því er samfara að nota birgðaaðstöðuna á Seyðisfirði, bæði fyrir Austfirðinga sjálfa og loðnuskipin á vetrarvertíðinni.