16.05.1984
Efri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6002 í B-deild Alþingistíðinda. (5357)

115. mál, lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Landbn. hefur fjallað um málið á mörgum fundum sínum og fengið aðila til umsagnar um málið. Nefndin er sammála um að mæla með frv. með svohljóðandi breytingu við 7. gr.:

Niður falli í 4. mgr.: „Ráðh. getur með reglugerð kveðið nánar á um hvað teljast skuli laun í þessu sambandi.“

Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. Það er rétt, það er ekki breytingartillögunum, heldur tillögum. Ég sé það núna fyrst að þetta er ekki rétt í prentun. En undir þetta rita allir nm. í landbn.

Ég verð að gera örlitla grein fyrir því hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Frv. var, eins og var bent á hér í framhjáhlaupi, flutt allsnemma þings og því vonum seinna að það komi frá nefnd því stórvægileg ágreiningsefni hafa ekki verið í nefndinni og um meginatriði hefur ríkt full samstaða. Meginatriðið er eins og segir í athugasemdum, með leyfi virðulegs forseta:

„Í frv. er lagt til að hjón verði hvort um sig sjálfstæðir sjóðfélagar og öðlist þannig sjálfstæðan rétt til elli- og örorkulífeyris og eftirlifendur þeirra til maka- og barnalífeyris. Því er í frv. gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að iðgjöld bónda og maka hans skiptist milli þeirra til helminga.“

Þetta breytir að sjálfsögðu nokkuð makalífeyri og einnig þeim tekjugrunni sem miðað er við gagnvart iðgjöldum. Um þessi sjálfsögðu réttindi, sem nú eru fyrst tryggð til bændakvenna þó möguleikar hafi verið á þessu áður, er full samstaða. Nm. gera sér hins vegar ljóst að öllu erfiðara er um annað meginatriði frv., þ. e. um framkvæmd skylduákvæðisins um sjóðsaðild launþega í landbúnaði þar sem þar er að langmestu leyti um að ræða börn og aðra nána vandamenn og að meginhluta til um sumarvinnu að tefla. Innheimta iðgjalda og eftirlit með henni hlýtur að verða erfið en reynslan verður þar úr að skera og fyllri reglur verður þá að setja í lög ef nauðsyn krefur. Hins vegar taldi nefndin ekki fært að fela ráðh. með reglugerð að ákveða hvað væru laun og því er brtt. fram borin við 7. gr. eins og segir í nál.

Megintöfin á afgreiðslu frv. varð af því að reynt var að fá ákvæði inn sem tryggði því fólki, sem enn er án alls réttar til lífeyrissjóðsgreiðslna en hefur starfað að landbúnaði að meginhluta, einhvern rétt til lágmarksviðbótar við sína tekjutryggingu. Formaður nefndarinnar, hv. 11. landsk. þm., lýsti þegar áhuga sínum hér á og aðrir tóku undir. En þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst ekki niðurstaða sem dygði og er máli þessu vísað til þeirra sem taka þurfa lögin um eftirlaun til aldraðra til skoðunar fyrir næstu áramót. Þá kemur þetta mál aftur til okkar kasta. Lausn verðum við að finna, en sú lausn þarf vitanlega að ná til fleiri en þeirra sem landbúnað hafa stundað. Þetta er ekki stór hópur en mismununin augljós.

Til umr. í nefndinni komu einnig hugmyndir um fólk sem fjallað er um í 17. gr. laganna, þ. e. fólk fætt fyrir 1914 sem aldrei hafði greitt til sjóðsins sakir þess að það var hætt búskap 1970 þegar lögin fyrst komu til sögunnar. Bæði hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir lýstu áhuga sínum á því að ef það væri mögulegt yrði reynt að ná fram þarna ákveðinni leiðréttingu. Fram kom sú skoðun að núverandi anda frv. um gagnkvæma sjóðsaðild hjóna væri þar slælega fylgt þar sem bændur væru þar einir upptaldir, enda miðað við lögin frá 1970. Bændur eða aðilar sem fyrir búi standa geta að sjálfsögðu verið af báðum kynjum en ólíkt mun karlkynið vera þar fjölmennara. En vissulega hefði þá í upphafi þurft að haga þessu ákvæði, þ. e. 17. gr. laganna sem er nær því upphaflega frá 1970, í samræmi við anda núverandi frv. en vitanlega stóð það ekki til þá, enda náði allur réttur þá mun skemmra en nú er.

Ég skil mætavel hugleiðingar í nefndinni um jöfnun til þessa fólks, að á einhvern hátt hefði átt að nefna húsfreyjur í sveit ótvírætt, en skv. greininni í heild og öllum öðrum ákvæðum í þessu frv. hefði þetta engar breytingar haft í för með sér, engar auknar greiðslur og engan aukinn rétt, því miður. Við hefðum þurft að endurskapa alla þessa grein og jafnvel þar er erfitt að sjá nokkurn árangur nema þá að breyta til hreinnar afturvirkni sem ég held að hefði verið erfitt skv. þeim upplýsingum sem okkur voru gefnar. Þetta stafaði einfaldlega af því, eins og menn vita, að þetta fólk hefur aldrei greitt nein iðgjöld. Þar er engu að skipta út af fyrir sig af þeim eðlilegu ástæðum. Makalífeyrir er þar hins vegar í lagi miðað við greiðslurnar í heild, sem betur fer. En við í nefndinni leggjum að sjálfsögðu þann skilning í bónda í þessu tilfelli í 17. gr. að það séu þeir aðilar sem fyrir búi hafa staðið, af hvoru kyni sem þeir eru.

Vissulega hefðum við viljað sjá margar frekari leiðréttingar í þessu frv. og nánari útfærslu á vissum atriðum eins og t. d. varðandi launþega í landbúnaði. En við viljum að þetta mál að meginhluta til gangi fram og reynslan verður svo úr að skera um það hvernig til tekst um nánari framkvæmd. Við að skoða þetta frv. um Lífeyrissjóð bænda er okkur öllum í nefndinni ljóst enn frekar en áður hver nauðsyn er á samræmingu í lífeyriskerfinu, enn frekari aðlögun að tryggingakerfinu sjálfu, enn frekari jöfnun þessara sjálfsögðustu mannréttinda.

En meginatriðið í þessu frv. er stórt framfaraspor, veruleg bót fyrir bændakonur í landinu og til þess að sú réttarbót nái fram að ganga viljum við stuðla að framgangi þessa máls. Við vitum að skammt lifir þings og því nauðsyn að flýta málinu. Nefnd Nd. hefur nokkuð að málinu komið og verið kynnt hvernig það hefur staðið og ætti það að auðvelda þeim málsmeðferð. En ég endurtek, landbn. er sammála um að mæla með frv. með þeirri breytingu við 7. gr. sem kemur fram í nál.