16.05.1984
Neðri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6018 í B-deild Alþingistíðinda. (5385)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið í fyrrakvöld að hæstv. forsrh. kom að máli við mig og greindi frá því að ríkisstj. væri með í huga að e. t. v. yrði nauðsynlegt að setja lög vegna verkfalls Félags ísl. atvinnuflugmanna sem þá var og er yfirvofandi. Það næsta sem spurðist til málsins var að inn á þingflokksfund í Alþb. í dag kom frv.-uppkast frá hæstv. samgrh., það frv. sem hér liggur nú fyrir til meðferðar.

Við í Alþb. höfum engin gögn fengið um aðdraganda þessa máls á undanförnum dögum og þann tíma sem það hefur verið til meðferðar. Ég tel að ýmislegt í aðdraganda málsins sé í rauninni afskaplega óheppilegt ef ríkisstj. vill stuðla að samstöðu um málið. Einkum og sér í lagi tel ég að yfirlýsingar eins og þær sem fram komu hjá hæstv. iðnrh. í útvarpsumr. í gærkvöld geti hvorki verið til að greiða fyrir kjarasamningum né heldur því að samkomulag takist á Alþingi eins og eðlilegt er ef stjórn ætlar að hraða í gegn máli af þeim toga sem hér er á ferðinni.

Alþb. hefur á undanförnum árum, eins og kunnugt er, staðið að setningu laga um frestun á vinnudeilum. Það gerðist árið 1979 með brbl. um frestun á vinnudeilu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands vegna yfirmanna á farskipum og það mun hafa verið á árinu 1982 að sett voru lög um úrskurðaraðila í kjaradeilu flugmanna vegna starfsaldurslista, sem ágreiningur hafði verið um á milli flugmanna þeirra sem starfað höfðu annars vegar hjá Flugfélagi Íslands og hins vegar þeirra sem höfðu starfað hjá Loftleiðum fyrir sameiningu fyrirtækjanna. Við teljum þess vegna að það gæti vel komið til greina þegar sérstaklega stendur á að taka á vinnustöðvun með þeim hætti að henni sé frestað um skeið, einkum þegar um er að ræða hálaunahópa sem eru að reyna í krafti sérstakrar aðstöðu að brjótast út úr þeirri almennu launastefnu sem má segja að hafi þróast eða sé að verða til í þjóðfélaginu. Ég held að það verði að horfast í augu við þann veruleika að slíkir sérmenntaðir og sérstakir hópar geta öðlast ægivald á vinnumarkaðinum og ég er ekki viss um að það sé láglaunafólki í landinu fyrir bestu að það ægivald fái að njóta sín til enda þegar menn hafa aðstöðu til þess að beita því.

Ég vil segja af okkar hálfu að við munum ekki gera neitt til að hindra eða tefja framgang þessa frv. Við tökum engan þátt í afgreiðslu þess, enda er þetta eingöngu mál ríkisstj. og hún hefur engum gögnum komið til okkar í undirbúningi málsins að undanförnu. Ég vil hins vegar mótmæla hér alveg sérstaklega þeim rökum sem hæstv. samgrh. hafði uppi í ræðu sinni í þessu efni. Rök hans voru í raun og veru þau og þannig flutt að það væri réttlætanlegt, ef menn fallast á þau, að svipta flugmenn, einkum á Norður-Atlantshafsrútunni, verkfallsrétti í eitt skipti fyrir öll. Þessi rökstuðningur samgrh. er að mínu mati í hæsta máta óeðlilegur og það er nauðsynlegt að það komi fram, a. m. k. af minni hálfu, að við tökum ekki undir röksemdafærslur af þessum toga þó að við getum tekið undir það að nauðsynlegt sé við sérstakar aðstæður að gera ráðstafanir til að fresta vinnudeilum sem geta skapað verulegan vanda þegar þannig stendur á.

Varðandi það frv. í einstökum atriðum, sem hér liggur fyrir, þá ætla ég ekki að blanda mér í umr. um einstakar efnisgreinar þess. Ég hefði þó talið að eðlilegra væri, og vildi láta það koma fram, að slíkt frv. kvæði á um frestun slíkrar vinnustöðvunar fremur en stöðvun hennar. Ég hefði talið að eðlilegra væri að tiltaka frestunartíma verkfallsins eða vinnustöðvunarinnar frekar en að láta bann við vinnustöðvunum gilda til 31. okt. 1984, eins og 8. gr. frv. gerir ráð fyrir. Mér finnst að þetta sé óeðlileg uppsetning eins og hér er í frv. og eðlilegra væri að miða við frestun í þessu efni.

Þá vil ég einnig minna á að ég tel að 4. gr. frv., ef það verður að lögum, hljóti að vera óþörf. Skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur segir það sig sjálft að þegar um væri að ræða ólöglega vinnustöðvun eru samúðarvinnustöðvanir með henni óheimilar líka, ef ég kann þá löggjöf rétt. Þess vegna finnst mér að það sé óþarflega langt seilst með því að banna samúðarvinnustöðvanir einnig, eins og gert er í 4. gr. þessa frv.

Eins og ég sagði, herra forseti, munum við ekki leggja stein í götu þess að þetta mál fái skjóta meðferð í gegnum þingið. Við áskiljum okkur allan rétt varðandi afstöðu til afgreiðslu málsins þegar það kemur frá hv. samgn., sem mun fá málið til meðferðar.