16.05.1984
Neðri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6028 í B-deild Alþingistíðinda. (5394)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að fjalla aðeins um það atriði, sem kannske hefur mest verið talað um í þessari umr., sem er c-liður 2. gr. og hvers konar nýting jarðgufu og jarðvatns.

Ég held að þetta sé talsvert mikilvægt mál og ég held að það megi ekki líta á það sem málþóf þó menn taki til máls um þetta, vegna þess að hér er ákveðið „prinsip“ á ferðinni. Mönnum getur sýnst sitt hvað um það hvort Orkustofnun hafi verið rétti aðilinn til að benda á þetta „prinsip“, en það ber a. m. k. að þakka að sú ábending hefur komið fram. Við getum sagt að það sé fræðilegur möguleiki á því að Hitaveita Suðurnesja með þetta heimildarákvæði eins og nú er gerðist þátttakandi í meiri háttar atvinnurekstri sem síðan yrði verulegt tap á. Þá yrðu það almennir orkunotendur á svæðinu sem mundu þurfa að greiða það tap í hækkuðu orkuverði. Það er náttúrlega ekki réttur „praxís“, eins og komið hefur fram, ef það er um að ræða fyrirtæki sem hefur einkaleyfi á sölu á svæðinu eða er a. m. k. eini aðilinn sem selur orku á viðkomandi svæði. Hins vegar er á það að líta að hjá fyrirtæki eins og Hitaveitu Suðurnesja er mikil þekking og reynsla í nýtingu á gufu og jarðhitaorku og þess vegna full ástæða til þess að sú þekking nýtist í rannsókna- og tilraunaskyni sem við ákveðnar aðstæður þyrfti kannske að koma fram í einhvers konar atvinnurekstri, annaðhvort tilraunaatvinnurekstri eða annars konar atvinnurekstri sem því tengist.

Ég vil vekja athygli í því sambandi á hlutverki sem t. d. orkuver í Skotlandi hafa tekið sér. Þar eru stór kjarnorkuver til rafmagnsframleiðslu og mörg þeirra hafa verið í fararbroddi í sambandi við rannsóknir á nýtingu heits affallsvatns, t. d. í fiskeldi. Ég held ég fari rétt með að í tengslum við þær rannsóknir hafi verið stofnuð fyrirtæki sem þessi orkuver hafa verið þátttakendur í. Nú veit ég ekki nákvæmlega um orkusölufyrirkomulag þar að öðru leyti en því að þarna fer saman þekking, aðstaða og kannske byggðalegir hagsmunir sem er sjálfsagt að haldi sér.

Það er spurning hvort ekki þurfi að fara einhvern milliveg frá því sem nú er í frv. og brtt., sem hefur komið fram, þess eðlis að í staðinn fyrir að opna algerlega fyrir þátttöku í hvers kyns atvinnurekstri sem tengdist jarðgufu og grunnvatni væri opnað fyrir og beinlínis tekið fram að tilgangur Hitaveitu Suðurnesja væri að stunda tilraunir og rannsóknir á alls konar hagnýtingu orku og af því væri leyfður rekstur smáfyrirtækja í því sambandi eða setja inn í frv. skilyrði um það að ef fyrirtækið Hitaveita Suðurnesja gerðist þátttakandi í meiri háttar atvinnurekstri verði að halda fjármálum þess atvinnurekstrar algerlega aðskildum rekstrarlega frá því sem við kemur orkudreifingu til hins almenna notanda á svæðinu. Ég held að menn ættu að líta á það.

Ég kem nú að þessu máli fyrst nú. Við í BJ eigum ekki fulltrúa í iðnn. og þess vegna er það nú fyrst í dag sem ég hef fengið tækifæri til að velta þessu máli almennilega fyrir mér og hef reynt að fylgjast með þessum umr. Ég held að hérna séum við að tala um talsvert mikilvægt efni sem geti skipt máli, ekki bara fyrir þessa hitaveitu eða þetta orkubú, heldur það hvaða stefna verður mörkuð í sambandi við önnur orkubú, eða aðrar orkuveitur sem við eigum eftir að reisa í framtíðinni. Þær geta greinilega vegna aðstöðu sem þær hafa og vegna þeirrar þekkingar sem verður saman komin á meðal starfsmanna, hvar á landinu sem verður, haft mikilvægu hlutverki að gegna í sambandi við að koma hugmyndum um nýtingu orku í framkvæmd og gera á því rannsóknir og stuðla að atvinnurekstri í byggðarlögunum, en það er náttúrlega augljóst að á sama tíma þarf að hafa einhver ákvæði um að vernda hagsmuni hins almenna orkukaupanda á svæðinu. Mig langaði því að varpa þeirri hugmynd hér fram hvort ekki þyrfti brtt. sem næði þessu tvennu, þ. e. leyfði þátttöku í smáfyrirtækjarekstri og rannsóknum og tilraunum en ekki í stóriðju eða meiri háttar atvinnurekstri af neinu tagi.