09.11.1983
Neðri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. mikið. Ég er meðflm. þessa frv. og þarf ekki að hafa mörg orð um stuðning minn við það. Ég stóð hér meira upp til þess að leggja nokkrar staðreyndir í langa ræðu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Hann minntist á einstæða foreldra og sagði réttilega að því fólki væri auðvitað nær ókleift að lifa af þeim launum sem það hefði í dag. Hann undraðist að ekki lægju fyrir upplýsingar um fjölda þeirra. Ég vil minna hv. þm. á að ég talaði hér í ræðu fyrir nokkrum dögum um 6 000 slíka foreldra sem verða einir að framfæra börn sín. Síðan hef ég fengið í hendur síðasta eintak Félagsmála, sem Tryggingastofnun ríkisins gefur út, og þar kemur í ljós að ég hef síst ýkt það, því að í ljós kemur að árið 1981 eru tekin mæðra- og feðralaun með 6 422 íslenskum börnum. Það eru borguð meðlög með 8 783 börnum. Og ég vil taka undir það sem hv. þm. sagði, að þessu fólki er auðvitað gjörsamlega ómögulegt að lifa af þeim launum sem það hefur.

Á 104. löggjafarþingi flutti ég till. til þál. þar sem farið var fram á að ríkisstj. gengist fyrir því að starfsmat fyrir ríkisstarfsmenn og starfsfólk ríkisbankanna yrði endurskoðað. Sú till. náði ekki fram að ganga. áreiðanlega af sömu ástæðu og menn hafa verið að amast við þessu frv., en ástæðan er sú, eins og hv. þm. Guðmundur Garðarsson minntist á, að þetta eru svo viðkvæm mál. Þau eru viðkvæm gagnvart forustu verkalýðshreyfingarinnar, þau eru viðkvæm gagnvart Alþingi.

Þetta er auðvitað mikill grundvallarmisskilningur á störfum beggja aðila. Þetta mál er ekkert viðkvæmt nema fyrir einn aðila, og hann er fólkið sem á að lifa af þeim launum sem því eru boðin. Það er viðkvæmt mál. Það er auðvitað ekkert viðkvæmnismál að hið háa Alþingi geri það sem það getur til að bæta kjör þegnanna í landinu, síst af öllu ef það hefur ekki tekist sem skyldi með frjálsum kjarasamningum, sem við höfum svo ekki einu sinni lengur.

Ég setti fram nokkrar upplýsingar í sambandi við þessa tillögugerð mína um stöðu starfsmanna ríkisins. Og vegna þess sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson tók fram að Alþfl. leggi áherslu á kjör allra láglaunamanna í landinu, þá er ég alveg hjartanlega sammála honum um það. Og aðskilnaðarstefnan — og nú skulum við reyna að halda okkur við gamla, góða íslensku hér — hún er auðvitað ekki æskileg, en hún er bara í fullum gangi. Ég tók t.d. saman upplýsingar, sem eru að vísu frá árinu 1980 þegar þessi till. var borin fram, en ég á ekki von á að þær hafi breyst mjög síðan, og ef við lítum á Starfsmannafélag ríkisstofnana, og það eru áreiðanlega fjölmargir einstæðir foreldar þar eins og annars staðar, þá kemur í ljós að í 5.–10. launaflokki eru konur 1476, karlar 522, eða nær þrisvar sinnum færri. Þar fyrir neðan eru sárafáir starfsmenn og lítill munur eftir kynjum. Í 11.–15. flokki er hlutfallið nokkuð jafnt, 645 karlar, 660 konur. En þegar launaflokkar fara yfir 16. flokk breytist hlutfallið heldur betur. Í 16–20 flokki eru 128 konur, 327 karlar, og þegar komið er að 26. flokki er engin kona en 19 karlar. Skilnaðarstefnan er því í fullu gildi.

Ef við lítum á bankana, líka árið 1980, þá sjáum við að í 6. flokki, ég nenni ekki að fara neðar, eru 215 konur, 41 karl. Síðan fer þetta auðvitað stighækkandi eftir því sem flokkarnir hækka. Þegar komið er upp í 10. flokk eru karlarnir orðnir 138 en konurnar 46. Þegar komið er upp í 12. flokk eru karlarnir 134, 6 konur. Það er þess vegna ástæðulaust að vera að tala um óæskilega skilnaðarstefnu öðruvísi en að rætt sé um þá skilnaðarstefnu sem á sér stað í þjóðfélaginu.

Ég lofaði að halda ekki uppi löngu máli hér. En almennt vil ég segja þetta — og ég er ekki að álasa einum eða neinum, ég held að verkalýðshreyfingin og við ættum að geta unnið í sameiningu en ekki sundruð. En í allri umræðu um láglaunafólk held ég að menn ættu að endurskoða það orð yfirleitt. Er hann hálaunamaður, barnakennarinn sem á að ala upp börnin okkar af því við erum öll að vinna, ekki bara að kenna börnunum okkar staðreyndir, heldur meira og minna að gera þau að sómasamlegum einstaklingum, sem við höfum því miður öll allt of lítinn tíma til? Er hann hálaunamaður af því að hann fær fyrir það innan við 15. þús. kr. á mánuði? Eigum við að kalla hann hálaunamann? Eða fóstra, sem elur upp börnin okkar á dagheimilinu flesta daga vikunnar í 10 tíma og hefur fyrir það 13 þús. kr.? Er hún hálaunakona af því hún er ekki innan ASÍ? Nei, þetta er láglaunafólk, og við skulum bara viðurkenna það hér og nú. Ísland er láglaunasvæði. Fóstra í Noregi hefur sömu laun og ég í peningum. Hún er einfaldlega með sömu laun og alþm. á Íslandi. Við skulum bara horfast í augu við hvernig komið er fyrir okkur og reyna að tala um þessi mál af einhverju skynsamlegu viti. Ég held þess vegna að frv. okkar flm. hér sé nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr. Það fengist kannske fram hvernig kjör íslensks launafólks í raun og veru eru. Ég skal svo hins vegar taka undir það með hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, að ég hef oft undrast hið ótrúlega misræmi sem virðist vera í lífskjörum landsmanna. En ég hef áður getið mér til um að þar sé skattgreiðsla landsmanna ærin ástæða.

Ég vil ljúka þessari umr. og ekki tefja hana frekar. Ég vil biðja hv. deildarforseta lengstra orða að sjá um að þetta mál komist í n.

En ég tók með mér hér viðtal við hæstv. forsrh. úr norska blaðinu Verdens gang. Fyrir utan lýsingu á því hvað hann sé fallegur og unglegur er hann spurður: Hvernig finnst forsrh. hið pólitíska andrúmsloft eftir hálft ár í embætti? Gott, segir forsrh. Ég hef ferðast mikið um í landinu á þessum tíma. Það er náttúrlega órói á vinnumarkaðnum og í efnahagslífinu almennt, en það er skilningur fyrir sterkum meðulum og ég held að ríkisstj. fái vinnufrið.

Ég er ekki eins viss um það. Ég held að a.m.k. þeim sem eru einir að vinna fyrir börnunum sínum á þessu láglaunasvæði hæstv. forsrh. líði ekki vel. Ég trúi því ekki að þeir gefi honum vinnufrið miklu lengur.