16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6053 í B-deild Alþingistíðinda. (5453)

136. mál, hafnalög

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka undir með síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Austurl., að því er þetta varðar. Það vill nú svo til að ég var einn af þeim nm. sem samdi þetta frv. á sínum tíma og hef í áraraðir staðið í því að meðhöndla þessi mál og mér er alveg fullkunnugt um að þetta var ákaflega þýðingarmikið atriði í frv., að fá þá heimild inn að bankakerfið kæmi inn í tryggingu á greiðslu hafnargjalda. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði. Ég viðurkenni að ég var ekki búinn að gera mér grein fyrir þessari breytingu fyrr en ég sá þetta núna, en ég hefði gjarnan viljað fá að vita hvaða rökstuðningur er á bak við svona lagað. Það var búið að gera nokkrar tilraunir með þetta nokkuð víða um land og gafst ákaflega vel og er fullkomlega réttlætanleg ráðstöfun að hafa þetta í hafnalögum þess vegna vildi ég gjarnan fá skýringu á því hvers vegna þetta var tekið út úr frv.