16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6063 í B-deild Alþingistíðinda. (5478)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki við umr. um þetta mál að fara að ræða um ævintýri hæstv. iðnrh. eða draumóra væri kannske réttara að tala um, eins og þeir birtast alþjóð nú síðustu dægrin. En vegna þess að hv. 2. þm. Norðurl. v. vék að því máli í tengslum við umr. um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og vitnaði til forsíðufregnar í DV í dag, þá get ég ekki orða bundist að bæta hér nokkru við um það efni þótt ég minntist að vísu aðeins á það í tengslum við umr. í dag um breytingu á lögum um Hitaveitu suðurnesja. Hér er um draumóra af því tagi að ræða og svo stórt mál að ég vil ekki fara að gera þeim þau skil sem verðugt væri í þeim önnum sem við stöndum í hér á Alþingi nú.

En ég vil rifja það upp þegar við heyrum frá þeim ráðh. í ríkisstj., hæstv. iðnrh. sem fer með orku- og iðnaðarmál, yfirlýsingar af því tagi sem hann gaf hér í útvarpsumr. í gærkvöldi og hnykkir á í DV í dag, að það er tæpast að menn geti litið svo á að þar sé talað af alvöru. Hér er um slíkar hugmyndir að ræða að það verður að teljast með ólíkindum að ráðh. í ríkisstj. Íslands, sem væntanlega ætlast til þess að vera tekinn alvarlega, skuli setja fram slíka hluti og það nánast fyrirvaralaust. Ég hygg að fleirum fari eins og mér að ég dreg það í efa að hæstv. ráðh. viti í rauninni hvað felst í orðum hans eða orðaleik í þessum efnum. En með tilliti til yfirlýsinga hans frá því að hann settist í ráðherrastól og raunar á fyrri árum geri ég ráð fyrir að við verðum að fara að taka ráðh. alvarlega hvað orð hans snertir og fyrirætlanir. Ég hlýt að lýsa því hér yfir mjög ákveðið að það fari sannarlega að vera efni til þess og það ærin efni að taka á málflutningi hæstv. ráðh. með nokkuð öðrum hætti en menn hafa séð ástæðu til fram að þessu. Það er hægt að kveða vísu það oft að menn neyðist til að halda að jafnvel hæstv. ráðh. Sverri Hermannssyni sé alvara. Þar sem ráðh. ber stjórnarfarslega ábyrgð á þessum málum og á nú von á heimsókn frá fulltrúum þriggja stórra auðhringa, alþjóðafyrirtækja í áliðnaði, þremur af hinum sex stóru til viðbótar við Alusuisse sem þess fjórða, til viðræðna um draumsýnir sínar varðandi áliðjuver í eigu þessara aðila, þá hljóta menn að fara að staldra við.

Ég hlýt að spyrja og ég geri ráð fyrir að .þeir séu margir fleiri: Er hæstv. ráðh. með réttu ráði þegar hann kastar slíkum hlutum fram? Hefur hann farið yfir þessi dæmi? Ég hef alltaf vænst þess að Sverrir Hermannsson, hæstv. iðnrh., ynni, þrátt fyrir djúpstæðan skoðanaágreining við okkur Alþb.-menn og ýmsa fleiri í sambandi við orkufrekan iðnað, íslenskri þjóð og efnahagslegu sjálfstæði þessarar þjóðar og vildi í raun stuðla að því að við héldum efnahagslegu sjálfstæði í landinu. En miðað við það, sem fram hefur komið síðustu dægur, er það dagljóst að hæstv. ráðh. er með slíkar glæfrahugmyndir á ferðinni að ef þær yrðu að veruleika væri hér ekki um sjálfstæða þjóð að ræða lengur, hvorki í orði né á borði.

Við Íslendingar höfum 15 ára reynslu af samstarfi við hinn minnsta af hinum 6 stóru risum í áliðnaði, auðhringnum Alusuisse. Það er orðin dýrkeypt reynsla sem við ættum að hafa lært nokkuð af. Fyrir utan það að við höfum orðið að gjalda þessum auðhring stórkostlega fjármuni sem hann hefur fært úr landi, arð af íslenskum auðlindum og vinnu íslenskra handa jafnframt, þá hefur þessi auðhringur, sem stendur að baki um 12% af útflutningsafurðum frá Íslandi, nú þegar náð slíkum áhrifum í stjórnmálalífi á Íslandi að mjög áhrifamiklir aðilar, bæði í stærsta stjórnmálaflokki landsins, Sjálfstfl., og í fleiri flokkum lúta orðið að verulegu leyti veldissprota þessa hrings og láta sig hafa það að ganga í gildru hans í sambandi við meðferð mála varðandi álverið í Straumsvík. Ljóst dæmi um það er það bráðabirgðasamkomutag sem ríkisstj. Íslands staðfesti 23. sept. s. l. og felur í sér uppáskrift á 50% stækkun álversins á árunum 1987–1988. Nú hefur hæstv. iðnrh. árfest eða dagsett viðbótina upp á önnur 50% á árunum 1990–1991.

Sú fjárfesting, sem hér er um að ræða, svarar til um 450 millj. Bandaríkjadala, en erlendar skuldir íslensku þjóðarinnar námu samtals í árslok 1982 — ég nefni það hér því að ég hef ekki í huga mér skuldastöðuna við síðustu áramót sem var til muna hærri — námu samtals 1200 millj. dala, svo að menn sjá af því hvaða upphæð er hér á ferðinni. Það eru á núverandi gengi um 13 milljarðar íslenskra króna sem þessar framkvæmdir í orkuveri og verksmiðju, 50% stækkun átversins í Straumsvík mundi kosta. Það svarar til þess miðað við þá dagsetningu, sem hæstv. ráðh. hefur sett á þessar fyrirætlanir, að varið yrði árlega að meðaltali fram til ársins 1987/88 55 millj. Bandaríkjadala í þessar framkvæmdir, orkuver og verksmiðjur. Það er meira en varið var samtals til orkuframkvæmda, bæði á raforkusviði og til hitaveitna og iðju og iðnaðar og stærri iðnfyrirtækja á árinu 1982. Kvarta þó ýmsir um það nú að ofgert hafi verið af okkur Íslendingum á þeim tíma í þessum framkvæmdum þó að kvæði við annan tón á þeim tíma sem þær stóðu yfir þegar talið var að hér gengi hvorki né ræki í orku- og iðnaðarmálum í landinu, miðað við þann tón sem var í þáverandi stjórnarandstöðu og málgögnum hennar. Viðbót upp á 50%, sem hér er dagsett 1990–1991, felur í sér enn þá meiri framkvæmdahraða og skuldbindingar því að þar er um styttri tíma að ræða framkvæmdalega séð sem þessi kostnaður jafnaðist niður á.

Nú hefur hæstv. iðnrh. kannske gert sér einhverja grein fyrir því að í nokkuð væri ráðist, en hann er fljótur að sjá ráð við því fyrir utan það að bæta nú ofan á tveimur álverum inn í draumapakkann. Hann orðar þetta svo í DV í dag, með leyfi hæstv. forseta:

„En það má þó hugsa sér að hraða þessu, það kæmi jafnvel til greina að semja við þá um allt saman, bæði orkuframkvæmdirnar og álverin, þótt við höfum ekki hugsað okkur þann hátt á hingað til.“

Þetta er orðrétt tilvitnun í hæstv. iðnrh. í DV í dag. Hér er komin upp sú hugmynd að framselja íslenska vatnsaflið, orkulindirnar og orkuverin, til hinna erlendu auðhringa, þannig að þeir hirði nú hvort tveggja sem eignaraðilar og Íslendingar gerist vinnuhjú á þessari hjáleigu Alusuisse, Alcan, Alcoa og Pechiney, sem hæstv. ráðh. hefur hér í takinu og sýnist reyndar á vanta að sá fjórði fái eitthvert álver í sinn hlut. En kannske ræður hæstv. ráðh. bót á því innan skamms. Hann munar ekki um minna í sínum dagdraumum en að bæta einu litlu álveri við þannig að hver fái sitt.

Hér eru vissulega á ferðinni svo hrikalegar hugmyndir, slíkt tilræði við efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga, að nauðsynlegt er að menn hér á Alþingi Íslendinga fari að taka við sér. Það sem fékk mig til þess að taka á þessu stóra máli hér inni í þessari umr. um þetta mál voru orð, sem hrutu af vörum hv. 2. þm. Norðurl. v. í tengslum við þetta mál. Ég vænti þess að hv. þm. heyri mál mitt þannig að honum gefist kostur á leiðréttingu ef ég túlka hans hug rangt og mundi biðja hæstv. forseta um að gera þm. viðvart að ég ætla að víkja aðeins að hans ummælum áðan. Ég mundi gera hlé á máli mínu þangað til. — Hv. þm. Páll Pétursson er hér kominn og ég þakka honum fyrir að koma hér í þingsal. Ég hef verið að gera hér að frekara umtalsefni draumsýnir hæstv. iðnrh. eins og þær hafa birst okkur síðustu dægrin og í tengslum við það ummæli hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég var að benda á þær hrikalegu hugmyndir sem felast í því sem fram kom í DV í dag, haft eftir hæstv. ráðh. innan tilvitnunarmerkja eða hermimerkja eins og hann kallar það, að til greina komi ekki aðeins að útlendingar eigi nú álverin, sem hæstv. ráðh. telur sjálfgefið, heldur einnig orkuverin. Og kæmi jafnvel til greina að semja við þá um allt saman. Ég þóttist skynja það hér á máli hv. 2. þm. Norðurl. v. að honum fyndist sem nokkur bragarbót hefði orðið á við þessa staðhæfingu hæstv. ráðh. þar sem hann gerði sér nú ljóst að ráðh. ætlaði ekki að bæta kostnaðinum við orkuverin ofan á skuldir eða taka fjármagnið til þess að reisa orkuverin að láni og bæta kostnaðinum ofan á erlendar skuldir Íslendinga. Það mátti skilja af máli hv. þm. Páls Péturssonar að hann teldi að þetta væri nokkur bót á ráði hæstv. ráðh. í sambandi við þessar draumsýnir.

Nú kann það að vera að hv. þm. Páll Pétursson hafi verið nánast að henda gaman að þessum draumsýnum ráðh. en það var þó engan veginn ljóst af hans máli heldur mátti skilja það sem hér væru hugmyndir á ferðinni sem kæmu fyllilega til álita. Ég vil ekki trúa því að Framsfl., þótt vissulega sé hann mjög heillum horfinn nú hin síðustu ár og alveg sérstaklega eftir að hann gekk inn í núv. stjórnarsamstarf með Sjálfstfl., sé sameinaður um það að taka undir hugmyndir í þá átt sem hér hefur verið látið að liggja af hæstv. iðnrh. Satt að segja finnst mér það með nokkrum ólíkindum ef þessi samstarfsflokkur Sjálfstfl. telur sér stætt í stjórnarsamstarfi þar sem einn ráðh. og það fagráðh. viðkomandi mála er með ráðagerðir á döfinni, í fyllstu alvöru að því er best verður séð, af því tagi sem hér hafa fram komið. Þá er orðið nokkuð djúpt á flokkssamþykktum Framsfl. frá undanförnum árum sem iðulega hefur verið vitnað til í umr. um þessi mál og endurtekið var í Tímanum sáluga öðru hvoru þegar þurfti aðeins að lyfta árinni, bæta eitthvað um í sambandi við aðgerðir flokksins og störf að þessum málum. En vissulega hafa komið fram ýmis þau merki í afstöðu Framsfl. að undanförnu sem gefa það til kynna að flokkurinn sé fallinn frá fyrri stefnu í þessum efnum eins og hún var samþykkt á þingum flokksins á árunum fyrir 1980.

Ég vil minna á það að hugmyndir hæstv. iðnrh. um eignaraðild útlendinga að orkuverunum eru ekki alveg nýjar á þeim bæ. Árið 1974 fékk íslenska ríkisstj. tilboð frá Alusuisse í silfurlituðum umbúðum undir nafninu áætlun Integral sem fól einmitt í sér hugmyndir af því tagi sem hér eru viðraðar. Einn þáttur áætlunar Integral, sem Atusuisse setti fram við ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. 1974, voru þær að Ísland legði í sameiginlegt púkk með auðhringnum um helmingsaðild að fyrirtæki sem héti ALIS og ætti bæði álbræðslur upp á 500 þús. tonn að framleiðslugetu og virkjanir sem svaraði til 8000 gw-stunda í framleiðslugetu vatnsafls á Austurlandi sem þarna var nákvæmlega til umr. En þetta var ekki öll sagan því að síðan var það áætlunin að ALIS, helmingahlutafélag Íslands og Alusuisse, gerðist hluthafi í stórsamsteypu undir nafninu Alconis. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Ekki ýkja mikið, hæstv. forseti. (Forseti: Þannig stendur á að ég þarf af tvennum ástæðum að gera fundarhlé í korter, annars vegar vegna beiðni eins þingflokkanna um þingflokksfund og einnig, ef svo má til orða taka, af fundatæknilegum ástæðum, og óska eftir að þetta gæti orðið kl. 11, en ef ekki er mjög mikið eftir af ræðu hv. þm., þá . ..) Það er ekki mikið.

En hugmyndin var sú að þetta helmingaskiptafélag Íslands og Alusuisse gengi inn í auðhringasamsteypu undir nafninu Alconis, þar sem þetta fyrirtæki, ALIS, væri einn af þremur eða fjórum aðilum inni í Alconis. Og inn í Alconis kæmu bauxítframleiðendur og súrálsframleiðendur. Ísland sem 50% aðili í ALlS, þessa eiganda að 500 þús. tonna álframleiðslu og 8 þús. gigawattstunda raforkuframleiðslu, væri þar með orðinn lítill meðeigandi í auðhringasamsteypunni Alconis.

Var ekki þessum hugmyndum vísað frá vafningalaust af ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. 1974 um haustið? Nei, ó nei, þeim var ekki vísað frá. Þær voru alveg taldar umræðuverðar og skoðunarverðar því að það var stigið næsta skref að kröfu auðhringsins á þessum tíma með því að stofna til sameiginlegrar athugunar með Alusuisse á virkjanamöguleikum á Austurtandi. Þær athuganir fóru fram sumarið 1975 og úr því varð til skýrsla um hagkvæmni virkjanlegs vatnsafls á Austurlandi, þessara 8 þús. gigawattstunda, skýrsla á ensku sem geymd hefur verið til skamms tíma og er sennilega enn, upplagið, niðri í Seðlabanka sem nú sem þá er miðstöð þeirra áforma í stóriðjudraumum hæstv. iðnrh. og þeirra sem eru í slagtogi með honum. Þar liggur upplagið af þessari skýrslu sem Alþb. gerði grein fyrir á árinu 1976 að tekin hefði verið saman og lægi fyrir og aldrei var lagt í að dreifa til eins eða neins aðila hérlendis eftir að þetta var dregið fram í dagsljósið. Með öflugri andspyrnu Alþb. á árinu 1976 tókst að knýja þáv. ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. til undanhalds í þessu máli. Ég vek athygli m. a. þeirra hv. framsóknarmanna, sem nú sitja á Alþingi, á þessum áformum sem þá voru uppi. Ég vek athygli þeirra og alls þingheims á því að full ástæða er til þess að taka dagdrauma hæstv. iðnrh. alvarlega þó að við höfum sumir kannske haldið að maðurinn talaði í þeim hálfkæringi sem honum er tamt dags daglega. En nú má öllum ljóst vera að það er annað og meira og alvarlegra sem að baki býr. Ég skora á alþm. alla að skera upp herör gegn þeim áformum sem hér eru uppi, því tilræði við efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga sem hér er fitjað upp á og gerð hefur verið grein fyrir af æðsta valdamanni orku- og iðnaðarmála í landinu síðustu dægur.