16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6076 í B-deild Alþingistíðinda. (5486)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Það ríður auðvitað á smáu, en það lýsir málflutningi stjórnarandstöðunnar, sem hv. 3. þm. Reykv. lýsti í gær í útvarpsumr. hvernig væri sundruð, að halda því fram að ég hafi borið hér fram óskir um utandagskrárumr. um þessi málefni. Ég benti hv. þm. á að ef þeir ættuðu að ræða þetta mál væri þetta ekki réttur dagskrárliður, þá yrðu þeir að óska eftir því að þetta mál yrði rætt utan dagskrár eða bera fram fsp. með eðlilegum hætti. Ég er hins vegar tilbúinn að ræða þetta mál. En það þarf ekkert að snúa þessum hlutum við. Eins og ég segi skiptir þetta mig engu máli, en það er aumur málflutningur að geta ekki farið rétt með eða vera ekki treystandi og trúandi fyrir sendibréfi yfir bæjarlæk.

Ég hef ekki breytt neinu um mína afstöðu frá upphafi þessara mála. Eina nýja viðbótin sem ég nefndi væri hugsanleg staðsetning í Þorlákshöfn og ætla ég ekkert að ræða það frekar nú. En ekkert hefur breyst. Ég hef í engu breytt minni afstöðu eða lýsingum á henni. Það eina sem hefur þá breyst er það ef hv. þm. vilja frekar taka trúanlegar missagnir Dagblaðsins en yfirlýsingar mínar hér. Aðeins það hefur breyst og það er þeim sjálfrátt að gera, ég get ekkert við því gert. En ég endurtek að ef hv. þm. með einhverjum hætti koma þessu máli að er ég reiðubúinn að ræða þau seint og snemma. En orðhengilsháttur og útúrsnúningur, eins og maður hefur hlutstað á hér, og að gera Dagblaðið að sinni Biblíu, það er hv, þm. sjálfrátt.