17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6177 í B-deild Alþingistíðinda. (5564)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá umhyggju sem virðulegur forseti sýnir okkur þdm. með því að ætla að slíta fundi núna svo að við getum farið heim að sofa. Þessi umhyggja hlotnast reyndar ekki því langþreytta starfsliði þingsins, sem enn þá verður að vaka, því að Nd. er að störfum. Að því leyti væri okkur þess vegna ekkert að vanbúnaði að halda hér áfram umr. og afgreiðslum ef með þyrfti.

Ég verð að lýsa yfir óánægju minni með það að við skulum ekki hafa tekið það mál á dagskrá sem hefði verið afskaplega tímabært að afgreiða á þessum degi, þ. e. breytingar á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. (Gripið fram í.) Það verður að segjast að maður á erfitt með að líða vinnubrögð sem greinilega eru viðhöfð til að málið komist ekki hér til afgreiðslu og vísvitandi verið að tefja málin. Skilur maður reyndar ekki hvaða hugsun þar liggur að baki.

Eins og allir vita fór fram afskaplega sérkennileg ráðstöfun í dag með trúlega ansi miklum tilkostnaði og fyrirhöfn þar sem Grænmetisverslun ríkisins tók í gegnum toll og dreifði kartöflum í allar verslanir bæjarins nema eina, sem greinilega var einhvers konar hefndarráðstöfun gegn þessu fyrirtæki.

Þess vegna er það sem ég sakna þess að þetta mál skuli ekki hafa getað komið hér á dagskrá og vildi reyndar fara þess á leit við hæstv. forseta að hann segi fyrir um það hvenær málið kemur á dagskrá og hvort það verði á morgun.