17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6185 í B-deild Alþingistíðinda. (5608)

155. mál, kosningar til Alþingis

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Það fer einkar vel á því að hefja 2. umr. um þetta mál er kvöldar. Við munum öll hvernig 1. umr. um þetta mál hófst. Þá var nú ekki eins bjart úti fyrir. Það var síðustu nóttina fyrir þingslit fyrir jól, líklega einhvern tíma milli kl. 3 og 4 um morgun, að íslenska flokkakerfinu varð skyndilega mjög brátt og ákvað að mæla fyrir kosningalögum. Það hefur raunar aldrei fengist almennilega útskýrt hvers vegna svo mikið lá á, en formanni stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi var fengið það hlutverk að stíga hér í ræðustól um miðja nótt til að mæla fyrir þessu máli. Síðan hefur heldur lítið farið fyrir því. Umræðan um það hefur á engan hátt endurspeglað þá staðreynd að hér er um að ræða eitthvert afdrifaríkasta mál sem þetta þing fæst við.

Umræðan um þetta mál hefur á engan hátt speglað þá staðreynd að þetta er mál sem fleirum kemur við en lausanefnd hv. þm. Páls Péturssonar og kannske þingflokkum nm. Þetta mál varðar nefnilega það hvernig við hugsum okkur að framfylgja venjulegum reglum um lýðræði í framtíðinni hér á landi. Þess vegna er það á vissan hátt táknrænt að 2. umr. um þetta skuli hefjast við svipaðar kringumstæður og sú fyrsta, í tímaþröng rétt fyrir þinglausnir eða þingfrí, eins og var fyrir jólin, þegar menn eru orðnir aðþrengdir. Menn hafa margar athugasemdir fram að færa, menn hafa margt og mikið um málið að segja, en nauðirnar reka þá síðan inn í dilkinn og þeir eru múlbundnir. Þeir mega ekki segja neitt og kannske þora þeir ekki að segja neitt.

Þjóðin hefur ekkert fengið að fylgjast með þessu. Það hafa engar fréttir komið um það hvað reiknimeistarar lausanefndar hv. þm. Páls Péturssonar hafa haft um málið að segja. Það hefur engin kynning farið fram meðal almennings, það hefur ekkert verið skrifað um þetta mál í fjölmiðlum. Það var nýlega einhvers staðar í Þjóðviljanum frétt um það að Alþb. hafnaði Droop. Það spurði mig gömul kona: „Hver er þessi Droop? Er þetta aðmíráll á vellinum?“ Alþb. hafnaði Droop með 6 atkvæðum gegn 4. Og hver er þessi Droop? Það hefur ekki komið fram nein skýring á því hver Droop er. Ég held að þó ekki væri annað þá ætti þjóðin skilið að vera leidd í sannleikann um leyndardóma Droops, að henni sé sagt frá því að Droop er ekki aðmíráll á Keflavíkurflugvelti, heldur er hann löngu dauður reiknimeistari, sem dundaði sér við að búa til formúlur til þess að finna út hvernig væri hægt að fullnægja flokkum þegar þeir eru að bögglast við að búa sjálfum sér til umboð, stundum í trássi við vilja þjóðarinnar.

Þetta er eitt lítið dæmi um það hvað menn vita lítið um þessi mál.

BJ hefur ekki auðnast frekar en þjóðinni að fylgjast með reiknimeisturunum. Atvikin höguðu því svo til að við áttum ekki fulltrúa í lausanefndinni í Nd. sem fjallar um málið. Við höfðum af þessu talsvert þungar áhyggjur á tímabili, þegar það leit út fyrir að hér kæmi málið út með miklum brtt. þeirra Droop og félaga, og við ættum fyrir höndum mikla og erfiða vinnu að setja okkur inn í allar þær reikniformúlur. Hins vegar losuðu flokksforingjarnir okkur við þá raun vegna þess að eftir alla þessa reikninga stöndum við aftur í nákvæmlega sömu sporum og við stóðum desembernóttina fyrir jól þegar mælt var fyrir málinu. Það hafa verið mikil átök og erfiðar fæðingarhríðir, en það eina sem fæddist á öllum þessum tíma var sú staðreynd að flokkarnir gátu ekki komið sér saman um það hvernig þeir ættu að ganga frá þessu þannig að öllum þeirra sérhyggjuathugasemdum og óskum væri fullnægt.

Ég held að menn hljóti að velta því fyrir sér hvort þjóðinni komi þetta yfirleitt alls ekki neitt við. Síðast þegar þetta mál var svolítið til umræðu hafði fólk á þessu þó nokkurn áhuga. Það var fyrir kosningarnar í vor. Og það fékk um það svolitla upplýsingu. Ekki þó vegna þess að flokksforingjarnir hefðu áhuga á að kynna fólki hvað þeir voru að bauka í bakherbergjunum, heldur vegna þess að kosningar voru í aðsigi og íslensk pólitík var að ýmsu leyti í dálítið undarlegri kreppu. Það var reikul ríkisstj. og það voru mikil átök og það hékk á samkomulagi um þetta mál hvenær þinglausnir á þeim tíma yrðu. Þess vegna voru það aðgangsharðir fréttamenn sem píndu svolítið út úr flokksforingjum um það hvað þeir væru að bauka.

Nú er hins vegar engin slík fréttamennska í gangi. Menn hafa áhyggjur af öðru. Það eru ónýtar kartöflurnar sem þeir eru að borða í augnablikinu og þess vegna er það mál þeim öllu hugleiknara en hvernig lýðræðinu vegnar í landinu þeirra í framtíðinni. Hvað sem þessu líður þá stendur eftir sú auma staðreynd að við höfum ekkert fengið að fylgjast með þessum hræðilegu þjáningum, sem við áttum þó fullan rétt á. Ég held að þegar þeir Jefferson og Hamilton og þeir félagar voru forðum að fást við þessi mál hafi verið um þau öllu meiri upplýsing en nú er. Þá skiptust menn á sendibréfum og ég hef lesið um þetta í „Jeffersons samlede værker“, þar sem segir frá þeirri miklu hugarþjáningu sem hann gekk í gegnum við það að reyna að búa til fyrir þjóð sína sæmilega lýðræðislegar reiknireglur, við að skapa umgjörð um það lýðræði sem var að

fæðast á þessum árum í Frakklandi og Bandaríkjunum. Ef við víkjum aftur að hlutverki þingflokks BJ í þessu máli þá kom þingflokkurinn fyrst að málinu þegar honum var boðin þátttaka í nefndinni sem átti að yfirfara frv. og huga að stafsetningu og kommum. Við höfnuðum því höfðinglega boði, en þykjumst þó standa sæmilega réttir eftir, vegna þess að við höfum hugað að stafsetningu og kommum í því frv. sem lá fyrir þarna fyrir jólin, og það eru sáralitlar breytingar sem orðið hafa altan þennan tíma frá því að mælt var fyrir því desembernóttina löngu.

Hvað skyldi hafa vafist fyrir þeim, flokksforingjunum, þessa erfiðu daga með reiknimeisturum Háskólans þegar þeir voru að reyna að reikna sig í gegnum þessi ósköp? Skyldu það hafa verið áhyggjur af því hvernig vilji þjóðarinnar ætti auðveldast með að komast í gegnum reiknimaskínurnar og inn á þing? Skyldu það hafa verið áhyggjur af því að það væri kannske svolítið ámælisvert að fólk hefði verulega misjöfn áhrif á starfsemi löggjafarsamkundunnar eftir því hvar það býr? Ekki skilst manni þó að þetta hafi haldið fyrir þeim verulegri vöku. Þó að okkur hafi ekki hlotnast sú gæfa að fá að vera þarna með höfum við heldur á tilfinningunni að það hafi verið önnur vandamál sem vöfðust frekar fyrir þeim. Ég hef lúmskan grun um að þar hafi komið upp ýmis staðbundin vandamál, menn hafi kannske haft áhyggjur af framtíð sinni og félaga sinna, vegna þess að ekki geta allir gengið að bankastjóraembættum þó þeir verði leiðir á potinu hér. Það var augljóst að áhyggjur flokksforingjanna voru meiri en þjóðarinnar. Þeir gengu hér voteygðir og slitlegir um sali og áhyggjur þeirra augljóslega þungar, ekki vegna fólksins heldur vegna afkomu og úrræða flokkanna sem þeir eru sjálfir fulltrúar fyrir.

Svo fæðist gripurinn. Hér sitjum við nú eftir allan þennan tíma, eftir eins vetrar þing, nýtt þing. Við sitjum bundin af einhverju gömlu samkomulagi sem var samið á öðru Alþingi undir algerlega fáránlegum aðstæðum vegna þrýstings um yfirvofandi þingslit og yfirvofandi kosningar. Og þetta nýja þing, þessir djörfu fulltrúar okkar, þeir hörfuðu í þetta gamla skjól, þeir hörfuðu inn í sömu dilkana og þeir voru reknir í í tímanauðinni fyrir síðustu kosningar.

Við 1. umr. þessa máls fór ég um þetta nokkrum almennum orðum. Það var 7. mars. Ég man að ég velti því upp að nú væri árið 1984 og það væri dálítið fróðlegt að velta því fyrir sér hversu langur tími liði á milli kosningalagabreytinga í landinu. Þetta eru mikil átakamál og þó að þau valdi kannske ekki verulegum átökum með þjóðinni, þá valda þau sýnu meiri átökum með stjórnmálaflokkunum eins og við höfum séð núna að undanförnu. Raunin er náttúrlega sú að menn treysta sér af þessum ástæðum afar sjaldan að glíma við þessi mál. Nú er u. þ. b. aldarfjórðungur síðan tekið var á þessu máli síðast og ef þetta mál verður afgreitt núna er ég hræddur um að flokksforingjarnir, minnugir þeirra þrauta sem þeir hafa átt af því í vetur, verði ekki beinlínis gírugir til að takast á við það í sumar. Mér sýnist þó að í nál. frá lausanefndinni standi að nm. lýsi því yfir fyrir hönd flokka sinna að unnið verði áfram að málinu milli þinga og niðurstöður verði lagðar fram á næsta haustþingi. En ég hef enga ástæðu til að ætla að mönnum vegni neitt betur þá.

Ég er nokkurn veginn viss um að ef þetta mál verður lagt fyrir aftur á komandi haustþingi þá gerist eitthvað svipað og gerðist s. l. haust, að einhverja haust- eða vetrarnóttina í tímaþröng fyrir næstu jól stígur hér upp í stól talsmaður annaðhvort stjórnarskrárnefndar, lausanefndarinnar eða einhvers flokksins og mælir fyrir þessu. Síðan fer málið í n. og svo takast flokkarnir á, engjast og teygjast hálfan vetur og útkoman verður engin.

Ef það líða að meðaltali 25 ár á milli þess að menn takist á við þessi mál þá gætum við sagt sem svo: Ef það verður nú gert eitthvert bráðabirgðasamkomulag, ef menn slá sér nú saman inn í einhvern dilkinn og gera einhvers konar samning um þetta núna út frá þessum reglum, út frá öllum þessum sérgæskuhagsmunaforsendum, sem þeir hafa fjallað um þetta mál út frá hingað til, þá gætum við hugsanlega séð fram á að sitja uppi með þá breytingu — ég vil kannske ekki segja endilega næsta aldarfjórðunginn en allavega næstu 10–15 árin. En hvaða ár er eftir 15 ár? Eftir 15–16 ár er komið árið 2000. Og hvaða hugmyndir höfum við Íslendingar sem verðum þá vonandi komnir inn í upplýsingaöldina, inn í nýtækniöldina — hvaða hugmyndir höfum við þá um framkvæmd lýðræðis? Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá eru nú þegar í löndunum allt í kringum okkur að verða miklar breytingar á stjórnarháttum og starfsháttum ríkisstjórna og löggjafarsamkunda. Í Bandaríkjunum, svo við tökum dæmi, hefur orðið sú breyting að ákvarðanir um mál, sem varða fólk, eru ekki lengur teknar á sambandsþinginu í Washington. Ákvarðanirnar eru teknar í fylkisþingum, heima í héraði, kannske í sveitarstjórnum, í borgarstjórnum, kannske í hverfastjórnum eða kannske bara í litlum hverfafélögum. Þetta er breytingin sem er að verða. Og þetta er kannske það sem skiptir mestu máli. Viljum við vera með? Viljum við fylgjast með því sem gerist annars staðar? Hvar er undirbúningurinn? Hvar er hugsunin að þessum breytingum? Hún kemur hvergi fram í þeim gögnum sem hæstv. n. hefur lagt fram um þetta mál.

Ég held að framtíð barnanna okkar og framtíð okkar sjálfra væri hræðilegur ógreiði gerður ef íslenska flokkakerfinu tækist núna að pína í gegn einhverja bráðabirgðalausn, sem hæfði þeirra héraðskóngum, en gleymdi því að þessi lausn gildir um framtíð sem er að taka stórkostlegri breytingum en nokkur framtíð fólks hefur tekið á þessu landi hingað til.

Það er af þessum ástæðum sem við megum ekki láta það takast. Við verðum að þvinga þessa foringja til að hugsa um hagsmuni fólksins í landinu og að láta hagsmuni flokkanna og gæðinganna, héraðskónganna eiga sig um stund. Þetta er það sem skiptir mestu máli.

Það er tímaspursmál hvenær þessi valddreifing, sem ég talaði um áðan, verður óumflýjanleg. Og hún mun koma vegna þess að við erum ekki eyland. Við erum hluti af umheiminum og við erum í farangri grannþjóðanna og við neyðumst til að taka þeim breytingum sem verða í grannlöndunum í kringum okkur. Hins vegar verða þessar breytingar þeim mun sársaukafyllri fyrir okkur þeim mun óundirbúnari sem við erum. Þess vegna ber okkur skylda til að byrja nú þegar að undirbúa okkur fyrir þessa framtíð. Vegna þess að þó að við sem hér erum og foringjarnir, sem hérna spranga um sali, hafi kannske ekki verulegar áhyggjur af framtíðinni þá munu börnin okkar hafa þær. Börnin okkar munu hafa þessar áhyggjur og það er nóg að gert að við erum að verða búin að setja framtíð barnanna okkar á nauðungaruppboð erlendra skulda þó við búum ekki svo í haginn að þeim sé gert ómögulegt að hafa sjálfsögð áhrif á stjórnarhætti í landinu í framtíðinni. Þess vegna verðum við að halda vöku okkar og koma í veg fyrir að héraðapotið valdi óbætanlegu tjóni.

Hvers vegna eru þessar breytingar að verða allt í kringum okkur sem ég er að tala um? Hvað er á seyði? Það sem skiptir mestu máli er að þeirri hugsun vex sífellt fiskur um hrygg að fólk, sem verður fyrir áhrifum ákvörðunar sem er tekin, á að taka þátt í að taka þessa ákvörðun. M. ö. o., ef á að taka ákvörðun heima hjá okkur, í byggðartaginu okkar um það hvort byggður verði skóli eða sundlaug þá eigum við að taka þátt í þeirri ákvörðun. Við eigum að geta sagt hvort við viljum skóla eða hvort við viljum sundlaug. Þetta er kallað þátttökulýðræði. Þetta er héraðskóngum íslenskra stjórnmála hulin bók. Þeir telja sér helst til hróss, eins og hefur komið fram í umr. hér á þingi og í útvarpi, að þeir hafi mátt til þess að stýra á móti straumnum. Það er þeirra ímynd þingmennskunnar og karlmennskunnar, að hafa mátt og hafa kjark til þess að stýra á móti straumnum. Og það er þess vegna sem þeir hafa kvatt þá Droop og félaga sér til liðsinnis við að finna reiknireglur til að koma í veg fyrir það að fólkið í landinu hafi hér þau áhrif sem því ber.

Hvað er það sem einkennir lýðræðislega framkvæmd á Íslandi í dag? Það sem einkennir lýðræðislega framkvæmd eru flokkarnir. Það er alls ekki fólkið. Það eru flokkarnir. Ég sagði litla dæmisögu hér við 1. umr. þessa máls og ég ætla að segja hana aftur.

Ég var í nokkur ár í Leikfélagi Kópavogs. Þar var oft unnið vel og mikill áhugi og menn lögðu á sig miklar þrautir við að koma ýmsum skúespilum á svið. En hvenær haldið þið að líflegast hafi verið í Leikfélagi Kópavogs? Var það þegar þeir sýndu Lénharð fógeta? Eða var það þegar þeir stórgræddu á því að sýna Tíu litla negrastráka, sem þessi ríkisstj. mætti nú taka til sín? Nei, það var þegar einu sinni átti að kjósa í stjórn Leikfélags Kópavogs og það flaug sá kvittur að sjálfstæðismenn væru að fá meiri hluta í stjórn félagsins. Það varð allt vitlaust. Það var hringt og það var skrifað og það var smalað. Framsókn og Sjálfstfl. börðust um völdin í Leikfélagi Kópavogs. (Gripið fram í: Og hvernig fór?) Það er harmsaga. Það er sama harmsagan og við horfum upp á núna um stærsta stjórnmálaflokk þjóðarinnar. En þetta var nefnilega svolítið merkilegt. Við getum tekið fleiri dæmi af þessu tagi. Hvenær er líflegast í íþróttafélögum Reykjavíkurborgar? Það er fyrir borgarstjórnarkosningar og það er fyrir alþingiskosningar þegar íþróttafélög Reykjavíkur verða útibú fyrir stjórnmálaflokkana í landinu og keyra bíla sína og nota síma sína og nota börnin sín til að dreifa bæklingunum. Þá verður einna líflegast í íþróttafélögum Reykjavíkurborgar.

Ég man eftir öðru svona dæmi. Í vetur urðu harðvítug átök í útvarpsráði vegna þess, að mig minnir, að Jón Múli hafði verið með eitthvert einkaframtak í leiðréttingum á texta í auglýsingum. Þetta varð hið versta flokkspólitíska mál. Það var ekki málkennd eða málsást Jóns Múla sem var talin valda þessu. Það var auðvitað hitt, að hann var talinn hinn versti kommi. Og út af þessu urðu hinar heitustu umræður úti í þjóðfélaginu. Þetta er svolítið dæmi um það hvernig stjórnmálaflokkarnir eru með alla anga úti um allt stjórnkerfið, í sveitarstjórnum, í ríkiskerfinu, í peningastofnununum, í bönkunum, í öllum framkvæmdastofnunum landsins. Þar eru þeir. Angar þessara kolkrabba eru úti um allt.

Þá spyr kannske einhver: Er nokkur von að batni? Ég hef mikið velt þessu fyrir mér: Er nokkur von að batni? Ég held að það gæti ýmislegt breyst til batnaðar. Til allrar hamingju er íslensk pólitík svolítið að breytast. Hún er t. d. að breytast á þann hátt að það eru komnir upp þm. sem hafa sínar eigin aflstöðvar, eru ekki undir flokksmaskínurnar og íþróttafélögin og blaðberana komnir, heldur ganga fyrir eigin vélarafli, ef svo má að orði komast. Við höfum ágætt dæmi um þessa stjórnmálamenn. Við þekkjum dæmi um þá og vitum að þeir eru ekki þrælar flokksvélanna heldur ganga þeir fyrir einhverju öðru eldsneyti. Þessu valda m, a. prófkjörin. Það er ekki lengur á valdi einhverrar flokksklíku heima í afdal eða einhvers staðar í úthverfinu hver verður frambjóðandi heldur er það á valdi fólksins. Þetta er eitt dæmi um það sem er að breytast.

Annað dæmi er náttúrlega ýmislegt sem við sjáum í kringum okkur þar sem angapoturum stjórnmálaflokkanna virðast svolítið vera að fatast tökin. Eitt dæmi er t. d. það að Alþb. tókst ekki, þó þeir reyndu mikið í vetur, að sveigja eða pína Alþýðusambandið að vilja sínum í sambandi við launamálin. Það var eitt lítið dæmi. Og eitthvað fataðist flokkapoturunum í sambandi við Búnaðarbankann. Þar varð dálítið sprell sem ekki hefur áður orðið. Yfirleitt hafa flokksforingjarnir haft föst tök á sínum mönnum og ráðið því vel og dyggilega hvaða stefnu og hvaða afstöðu og hvaða ráðningar þeir hafa í frammi. En í þetta skiptið skripluðu þeir eitthvað á skötunni vegna þess að útkoman úr Búnaðarbankaráðningunum varð ekki eins og þeir ætluðu sér. En þá tóku flokksforingjarnir sig greinilega í akt og söfnuðu liði og næst þegar atlagan var gerð, sem gerðist þegar ráðinn var bankastjóri í Útvegsbankanum, þá gættu þeir eins: þeir gættu þess að láta ekki fólkið vita. Þeir afgreiddu það í skjóli náttmyrkurs rétt fyrir helgi. Það vissi enginn nema þeir sem fá að vera í reykfylltu þingflokksherbergi Sjálfstfl. hvað var á seyði. Síðan kom það í ljós, þegar þjóðin var að éta sínar skemmdu kartöflur, hvað hafði skeð. Það var kominn nýr bankastjóri í Útvegsbankanum, einn af þm. Sjálfstfl. Það versta var að það bitnaði á fjölskyldu formannsins. En eitthvað varð undan að láta þegar í veði var heiður flokkakerfisins. Það hafði um stund verið á nokkru undanhaldi, menn höfðu tekið sér bessaleyfi úti í bæ til að fara ekki að vilja þess. Næst gerðu þeir leifturárás um nótt, Blitzkrieg kallaði Hitler það forðum — Blitzkrieg og rúllaði yfir hálfa Evrópu án þess að nokkur fengi vörnum við komið.

Nú hefur það gerst, hef ég heyrt, ég hef að vísu ekki fyrir því sannanir, að fjölskyldur íslenskra flokksformanna hafa myndað hagsmunasamtök til þess að koma í veg fyrir að svona ósköp geti aftur átt sér stað. Það mun því ekki bitna aftur á fjölskyldum flokksformannanna þó að þeim fatist angapotið þegar að því kemur að útvega störf eða ellilífeyri innan ríkiskerfisins. Við skulum vona að fjölskyldur þeirra geti andað léttar. En málið er það að það þarf ekki að mynda neitt hagsmunafélag. Það þarf bara að gæta þess að fólkið í landinu fái að vita hvað er að gerast. Þá koma ekki fyrir svona slys. Fólkið í landinu getur nefnilega haft vit, jafnvel fyrir flokksforingjunum.

Þannig höfum við tekið dæmi um það að Alþýðusamband Íslands hafnaði leiðsögn Alþb. í samningamálunum og bankamenn höfnuðu forsjá Sjálfstfl. og Framsfl. í sambandi við bankastjóraráðningar í Búnaðarbankanum. Þannig eru glætur, getum við sagt, það eru nokkrar glætur. Kannske á fólk sér viðreisnar von, kannske hefur það smugu ef það sofnar ekki á verðinum.

En það er fleira en flokkarnir sem einkennir þessa lýðræðislegu framkvæmd í landinu. Við höfum hér ákveðið kerfi sem þeir vinna inni í, miðstýringarkerfi sem lýsir sér þannig t. d. að frá miðjunni er stjórnað öllu í sjávarútvegsmálum, í efnahagsmálum, í verðlagsmálum allra atvinnugreina landsins. Við höfum þetta í skólamálum, við höfum þetta í vegamálum, það var síðast verið hér á Alþingi að greiða um það atkv. í kvöld hvernig ætti að leggja vegi út á landi. Grundvöllurinn að öllu þessu kemur úr meðaltalsmaskínum, sem eru hér á ýmsum bæjum í stjórnarráðum og efnahagsstofnunum, þar sem menn búa til tölur sem standa ekki í neinu sambandi við fólk. Þessar tölur eru síðan notaðar til að búa þessu fólki til framtíð og nútíð án nokkurs tillits til þess hvernig þessu fólki líður. Fólk verður eining og þessi eining er hluti af meðaltali. En það hefur enginn spurt eininguna hvernig henni liði, þannig að einingin getur verið að drepast úr sulti og seyru þó að meðaltalið segi að henni eigi að liða ágætlega vel. Þetta er dæmi um það sem gerist þegar fólkið fær ekki að ráða högum sínum.

Eitt er það sem hefur valdið mönnum hér miklum áhyggjum. Það er ójafn atkvæðisréttur. Það er nefnilega staðreynd að fólk sem býr í Reykjavík og í kringum Reykjavík hefur ekki nema svona eins og kannske fjórðungs atkvæði á við fólk sem sums staðar annars staðar býr. Um þetta hefur orðið mikil umræða og um þetta hefur verið umræða alveg síðan á dögum Jeffersons. Það hefur alla tíð valdið mönnum svolitlum erfiðleikum að finna hvernig þeir ættu að ráða fram úr þessu. Þessi umræða hefur talsvert verið uppi hérlendis að undanförnu og er það vei. Menn hafa, að vísu í trássi við flokksforingjana sem ekki hafa leyft neinar slíkar umræður, laumast til í skjóli myrkurs að lesa með vasaljós undir sænginni ýmislegt um grundvallaratriði eins og t. d. jafnan atkvæðisrétt og þar fram eftir götunum. Og þá kemur ýmislegt fram í dagsljósið. Það kemur t. d. fram í dagsljósið að í Eimreiðinni, 6. árg. 1900, undir ritstjórn dr. Valtýs Guðmundssonar, birtist ágætisgrein eftir Pál Briem sem heitir „Um kosningar“. Ég ætla að lesa nokkrar glefsur úr þessari grein vegna þess að það er manni þó nokkur hugarhægð að verða þess áskynja að einhvern tíma hafi þó verið til menn á Íslandi sem veltu fyrir sér grundvallaratriðum, þó að þeim myrkursæknu flokksforingjum sem hafa um þetta mál fjallað núna síðasta árið hafi ekki hlotnast sú gæfa. Í þessari grein segir Páll Briem m. a.:

„Eins og mönnum er kunnugt er Íslandi allmjög stjórnað af kosnum mönnum, af mönnum sem landsmenn kjósa til Alþingis, í amtsráð, sýslunefndir hreppsnefndir, sóknarnefndir, bæjarstjórnir o. s. frv. Í stað þess að landsmenn stjórni sér sjálfir beinlínis kjósa þeir aðra menn til þess að stjórna. Slíkt þekktist eigi í fornöld. Í Aþenuborg, Spörtu, Rómaborg og annars staðar þar sem sjálfstjórn átti sér stað var venjan sú að borgararnir stjórnuðu sér sjálfir. Þeir urðu að koma sjálfir á fundi og greiða þar atkvæði.“ Síðan segir:

„Englendingar hafa gefið öðrum fyrirmynd. Nálega allar siðaðar þjóðir hafa tekið upp þing með kosnum mönnum á líkan hátt og Englendingar hafa. Jafnvel vér Íslendingar höfum fengið Alþingi vort að miklu leyti sniðið eftir þjóðþingi Englendinga.

Landinu er að miklu leyti stjórnað af kosnum mönnum. Þeir samþykkja lögin. Þeir ákveða hvað vér eigum að greiða til almennra þarfa. Nauðugir viljugir verðum vér að opna peningabudduna og leggja fram meira og minna fé eftir ákvæðum kosinna manna. Vér getum meira að segja ekki látið svo upp í okkur sykurmola eða sopið á kaffibolla að þeir hafi ekki haft þar einhver áhrif. Kaffi- og sykurtollurinn, sem var samþykktur á Alþingi árið 1889, nam árið 1895 meira en 2 kr. á hvert mannsbarn á öllu landinu.

Það er óhætt að segja að heill landsins og hvers einstaks manns í landinu sé að meira og minna leyti komin undir stjórn landsins og þá einnig undir því hvernig þeir menn beita valdi sínu sem kosnir eru af landsmönnum til þess að sitja á þingum, í ráðum, í nefndum o. s. frv. Fyrir því er það nokkurs vert að menn gjöri sér ljóst hvernig kosningar eiga að vera til þess að geta náð tilgangi sínum. En áður en vér tökum það til athugunar þurfum vér að skoða dálítið hvers vegna allar þessar kosningar eiga sér stað.“

Þetta er skrifað árið 1900. Þá er hér á ferðinni maður sem hefur af því augljósa ánægju að velta fyrir sér á opinberum vettvangi hvernig haga beri kosningum. Ég efast um að hann hafi setið á lokuðum fundi úti í Þórshamri við að skrifa þessa grein. Áfram segir Páll Briem:

„En áður en vér tökum það til athugunar (þ. e. hvernig kosningarnar eiga að vera) þurfum vér að skoða dálítið hvers vegna allar þessar kosningar eiga sér stað.

Þegar dregur að kosningum fara kjósendurnir að verða meira og minna órólegir. Þó að einhver vilji vera í friði dugir það ekki því að aðrir koma að utan og sunnan til þess að ónáða hann og fá hann til þess að vera með og leggja sitt atkvæði á metaskálarnar. Stundum fylgja kosningunum mestu róstur og skammir og illindi. Þeir sem ekki hafa kosningarréttinn og standa því að miklu leyti utan við, eins og til að mynda á sér stað um konur, furða sig á þessu og óska jafnvel að engar kosningar væru til og að vandamenn sínir væru a. m. k. lausir við þær. En ég held að það séu ekki mikil líkindi til þess að þessar óskir verði uppfylltar, því að ef vér litumst um í heiminum, þá sjáum vér fljótlega að kosningarnar eru stöðugt að verða víðtækari og víðtækari.“

„Á síðari árum hefur kosningarréttur manna verið svo aukinn að jafnvel gegnir furðu,“ segir Páll Briem. „Árið 1866 lagði Gladstone fyrir enska þingið frumvarp til laga um að veita 400 þúsund mönnum kosningarrétt til þings. Þingmenn felldu frumvarpið en í varnarræðu sinni mætti Gtadstone til þingmanna: „Þér getið lagt frumvarp vort í gröfina, en það sem vér setjum á leiði þess eru orðin: Exoriatur aliquis nostris ex ossibus ultor, sem útleggst: Hefnari skal rísa upp af beinum vorum og vér erum öldungis sannfærðir um að þau orð munu rætast.“

Síðan segir Páll Briem: „Þér getið ekki barist gegn framtíðinni. Tíminn er með oss. Hinar ríku vættir þjóðfélagsins ganga fram með tign og veldi, háreysti ræðumannanna getur ekki stöðvað þær eitt augnablik eða beygt, en þessar ríku vættir eru ykkur andvígar, en oss eru þær hjálparvættir.“ Þetta var það sem Páll Briem hafði um mál að segja og hann var ekkert að fara í neinar felur með þetta. Hann skrifaði þetta í Eimreiðina sem skv. titilsíðu var í eigu nokkurra Íslendinga. Þessu var dreift út á meðal bókelskandi manna og menn gátu fræðst af þessu og tekið sínar eigin ákvarðanir, myndað sér afstöðu, rætt eins og upplýstir menn um kosningar, rætt eins og upplýstir menn um það hvernig kosningarrétti ætti að vera háttað. Ég held að flokksforingjarnir í dag ættu að taka sér þetta svolítið til hliðsjónar.

Síðar í greininni segir Páll Briem: „Eins og kunnugt er hafa bændur hér á landi öll ráð við kosningar til þings. Eins og tekið hefur verið fram er venjan sú, að sá flokkurinn sem ræður vill skara eld að sinni köku, en getur ekki litið á málið frá hlið þeirra sem þeir ráða yfir. En eru nú bændur hér á Íslandi lausir við þetta fremur öllum öðrum? Ég efast um það.

Ég skal nefna eitt dæmi. Árið 1861 lagði stjórnin fyrir Alþingi tilskipun um vinnuhjú. Þá settu alþingismenn inn í tilskipunina ákvæði um að húsbóndinn mætti refsa hjúi sínu án dóms og laga. Oss mundi nú þykja það ofboð geðslegt eða hitt þó heldur að sjá húsbændur vera að berja vinnuhjú sín, alveg án dóms og laga. Þetta var samt samþykkt á Alþingi 1861 með 17 atkvæðum gegn — segi og skrifa einu atkv. Stjórnin neitaði tilskipuninni um staðfesting og taldi þetta ótilhlýðilegt, svo að Alþingi hætti við þetta. En er það nú ekki auðséð að á Alþingi 1861 hafa það verið húsbændur, sem hafa ráðið, en ekki vinnuhjúin? Það er margt í löggjöf vorri um vinnuhjú, lausamenn og húsmenn, sem aldrei mundi hafa verið samþykkt nema af húsbændum. Og það þarf jafnvel ekki að leita lengra en til Alþingis 1897. Þá voru samþykkt lög um vinnuhjú, lausamenn og húsmenn með svo hamlandi og íþyngjandi lögreglufyrirskipunum að stjórnin sá sér eigi fært að leggja lögin fyrir konung til staðfestingar.“

Síðar í þessari grein segir Páll Briem:

„En ef það er rétt, að kosningarréttur sé veittur mönnum réttlætisins vegna, þá getum vér leitt út af því ýmsar setningar, og skulum vér nú nefna þrjár aðalsetningarnar:

1. Kosningarnar eiga að vera þannig, að kjósendunum sé mögulegt að neyta kosningarréttarins, og að þeim sé gjört það nokkurn veginn jafnauðvelt.

2. Kjósendurnir eiga að geta kosið þá sem bjóða sig fram, framboðana, eftir eigin sannfæringu.

3. Atkvæði sérhvers kjósanda á að hafa fullt gildi í hlutfalli við önnur atkvæði, eigi aðeins að því er snertir þann mann er hann vill kjósa, heldur og þann flokk er hann fylgir að málum.

Vér verðum nú að íhuga hverja af þessum meginreglum út af fyrir sig.“

Þarna hefur Páll Briem lagt fram ákveðnar frjálslyndar forsendur, getum við sagt, fyrir því sem hann telur að menn eigi að leggja til grundvallar þegar þeir fjalla um þessi mál. Síðar í greininni fjallar Páll Briem um hver áhrif kjördæmið hafi og hvernig það sé að kjósa í kjördæmum, það er að segja í einstökum litlum kjördæmum, miðað við það að kjósa í einu stóru. Hann segir: „Það er nærri því eins og það sé óþekkt í kosningalögunum að til sé neitt sem heitir föðurland. Þegar kjósandinn á að fara að neyta kosningarréttar síns þá finnur hann það ekki, því það er allt brytjað í sundur í smástykki, sem eru kölluð kjördæmi. En þó að ég búi í einu kjördæmi, þá er það eigi framar föðurland en stólfóturinn er stóll.“ Páll Briem segir að þó hann búi í einu kjördæmi þá sé það ekki frekar föðurland hans en stólfóturinn sé stóll.

„Kjördæmaskiptingin kemur beinlínis í bága við föðurlandið. Föðurland mitt er Ísland, en hvorki þessi hreppur eða þetta hérað sem ég er búsettur í. Af ást til föðurlandsins get ég verið hjartanlega andstæður öllum hreppapólitíkusum“ — árið 1900 eru menn búnir að finna upp orðið hreppapólitíkus. Páll Briem segir: „Af ást til föðurlandsins get ég verið hjartanlega andstæður öllum hreppapólitíkusum, og þó er það hreppapólitíkin sem er löghelguð með kosningalögunum. Hreppapólitíkin hefur aldrei haft gott orð á sér, enda má með sanni segja að hún geti verið hættuleg fyrir föðurlandið. Sérstaklega hefur hún reynst háskaleg fyrir alla skynsamlega fjárhagsstjórn í löndunum. Hin stórkostlega óstjórn í fjármálum, sem nú þjakar menn í mörgum löndum, á að ýmsu leyti rót sína að rekja til hreppapólitíkurinnar. Og hvers er annars að vænta? Hvert kjördæmi vill skara eld að sinni köku, en þegar hvert fyrir sig vill fá sína sneið af landsjóðnum, þá geta menn gert sér í hugarlund hvort ævinlega verður litið á hag landsins í heild sinni.“ Þetta er síðan 1900. Síðan segir hann:

„Ef þingmannsefnin í .einhverju kjördæmi vilja eingöngu líta á hag þess, þá er ekki ólíklegt að þeir hafi meiri hlutann með sér, en þeir sem vilja líta á hag ættjarðarinnar neyðast e. t. v. til að gefa slíkum mönnum atkvæði sitt eða til að greiða ekkert atkvæði.“

Þarna er farið að velta fyrir sér nákvæmlega sömu atriðunum og við erum að velta fyrir okkur enn í dag, hreppapólitík, kjördæmaskipan, sem veldur óstjórn í peningamálum, svo ég vitni aftur í þetta: „Hin stórkostlega óstjórn í fjármálum, sem nú þjakar menn í mörgum löndum, á að ýmsu leyti rót sína að rekja til hreppapólitíkurinnar. Og hvers er annars að vænta? Hvert kjördæmi vill skara eld að sinni köku, en þegar hvert fyrir sig vill fá sína sneið af landsjóðnum, þá geta menn gert sér í hugarlund hvort ævinlega verður litið á hag landsins í heild sinni.“

Það sem mjög vakir fyrir Páli Briem í þessari grein, er það sem kemur núna fram. Hann segir:

„Þriðja krafan er svo: Atkvæði sérhvers kjósanda (hvort sem hann hefur eitt eða jafnvel fleiri, eins og í Belgíu) á að hafa fullt gildi í hlutfalli við önnur atkvæði, eigi aðeins að því er snertir þann mann sem kjósandi velur, heldur og að því er snertir þann flokk er hann fylgir að málum.

Eins og ég tók fram í upphafi þessa máls, var svo í fornöld að borgararnir tóku sjálfir þátt í stjórn þjóðfélagsins. Þeir komu saman á þjóðsamkomum og greiddu þar atkvæði um þjóðmálefnin. Meiri hlutinn réði, en á þjóðsamkomunni gátu allir borgarar tekið til máls og rætt málin frá öllum hliðum. Nú kjósa menn sér fulltrúa og ræða málin á fulltrúaþingum. Það á auðvitað meiri hluti að ráða, en það á að vera hægt að ræða málin frá öllum hliðum eins og á þjóðsamkomum borgaranna.“ Síðan segir: „Hinn frakkneski stjórnvitringur Mirabeau sagði svo 1789: „Fulltrúaþingin eru fyrir þjóðina alveg hið sama sem landsuppdrátturinn er fyrir landið; í stóru sem smáu eiga þessar ímyndir að sýna sömu hlutföll sem frummyndirnar.“ Þetta ætti að vera svo, en það er ekki svo, og allra síst þar sem eiga sér stað venjulegar meirihlutakosningar í kjördæmunum.“

Síðan segir: „Kosningalögin jafna ranglætinu niður og við það hugga þeir sig sem hafa sljóva réttlætistilfinningu.“

Hann segir: „Ég ætla að nefna einar kosningar sem fóru fram 1890 í svissneska smáríkinu Tessin. Atkvæði flokkanna voru hér um bil alveg jöfn, en samt sigraði annar flokkurinn í 75 kjördæmum af 110. Minni hlutanum þótti þetta svo mikið ranglæti að hann gerði uppreisn.“

Hér erum við að lesa upp úr 85 ára gamalli grein þar sem Páll Briem var að velta fyrir sér stórmálum í sambandi við kosningarrétt og skammaðist sín ekkert fyrir það og gerði það fyrir opnum tjöldum og skrifaði um það.

Síðan segir: „Sænskur vísindamaður, dr. Cassel, hefur skrifað ritgjörð um hlutfallskosningar og sýnt þar fram á hversu það sé ástæðulaust að láta atkvæði þingmanna hafa jafnt gildi. Eftir því sem nú sé, þá skipti engu hvort þingmaðurinn hafi mörg atkvæði eða fá. Afleiðingin af þessu sé sú, að atkvæði missi sitt hlutfallslega gildi og verði ekki bætt úr því nema því aðeins að atkvæði hvers þingmanns hafi gildi eftir þeim atkvæðafjölda sem hann hefur fengið við kosninguna.“

Þetta er nú dálítið slungið. Hérna stingur dr. Cassel, sem hefur skrifað einhvern tíma fyrir 1900, upp á því að það sé höfð svona nokkurs konar gengisskráning á atkvæðum þingmanna eftir að þeir koma inn á þing. Og hvernig færi ef við bærum saman gengið hjá hæstv. fjmrh. og hjá hæstv. forsrh.? Hver ætli yrði gengismunurinn á atkvæðum hæstv. fjmrh. og forsrh.? Ég held að þar mætti finna álitlega fúlgu í gengismunarsjóð. Ég held að menn verði nú að fara að velta þessum möguleika fyrir sér, ef ekki fæst sú sjálfsagða leiðrétting að gengi atkvæða landsmanna verði jafnt út frá kosningaaðferðinni, að við verðum hreinlega að taka upp gengisskráningu á atkvæðum þm. eftir að þeir eru komnir inn. Ég held að menn ættu að lesa svolítið meira eftir dr. Cassel.

Af lestri þessarar greinar kemur augljóslega fram hverja óbeit höfundur hefur á því poti og þeim ójafna atkvæðisrétti sem fylgir kjördæmafyrirkomulaginu með stórkostlega misjöfnum atkvæðarétti. Hann leiðir að því ýmis rök að landið eigi að vera eitt kjördæmi og einungis þannig geti atkvæðisréttur manna orðið sæmilega jafn. Og að þessu eigum við eftir að koma nánar, því að sem betur fer hafa Íslendingar skrifað um jafnan atkvæðisrétt meira síðan árið 1900. Það eru til menn þrátt fyrir allt sem hafa haft áhuga á jöfnum atkvæðisrétti s. l. 85 ár og þeir hafa látið á sér kræla. Ég mun koma að því síðar.

Við ættum kannske að líta hér á ágætis gögn, sem eru líka gömul, þar sem er einn af okkar þekktustu stjórnmálamönnum fyrri ára, Héðinn Valdimarsson. Hann er að tala um frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands nr. 9 frá 18. maí 1920, flm. Héðinn Valdimarsson.

„Kröfurnar í baráttunni fyrir þingræðinu hafa hér sem annars staðar byggst á því að þjóðin sjálf, allir fulltíða menn hennar, ættu að ráða málum sínum. Þá fyrst er lýðræði komið, er fulltrúar flokkanna á þingi þjóðarinnar eru í réttu hlutfalli við þann fólksfjölda er hefur kosið þá. Aðeins þannig getur þjóðin sjálf skipað sína eigin stjórn,“ segir Héðinn Valdimarsson.

„Í stjórnarskrá Íslendinga er ekki lýðræði í þeirri merkingu sem forgöngumenn þess mundu ætlast til. Að sumu leyti stafar þetta af breytingum í atvinnuvegum þjóðarinnar, en að nokkru er það meinsemd sem komin er af röngum grundvelli undir skipun kjördæma.

Þessu frv. er ætlað að ráða bót á þessum helstu göllum á núverandi skipulagi kosningarréttarins og tryggja lýðræði í landinu. Aðalefni þess er að komið verði á almennum og jöfnum kosningarrétti; allir fulltíða menn hafi kosningarrétt.“

Síðan segir Héðinn Valdimarsson: „Jafn verður hann ef landið verður gert að einu kjördæmi í stað hinna mörgu sem nú eru og hlutfallskosningar hafðar. Þá verður þingið betra verkfæri í hendi þjóðarinnar til að koma fram vilja hennar, þó verður það enn betur tryggt með því, að æðsta atkvæði um ýmis málefni liggi hjá þjóðinni sjálfri.“

Hér erum við að lesa 65 ára gamalt mál. Það er flokksforingi sem kemur fram og ræðir opinskátt um lýðræði. Hann er ekkert að fara í felur. Hann segir: „Þá er hitt atriðið ekki síður merkilegt, að kosningarrétturinn verði jafn, þ. e. a. s. hver einstaklingur þjóðfélagsins fái jafnan kosningarrétt við hina. Orsökin til þess ójafnaðar, sem nú er kominn í þessum efnum, er að þjóðarhagirnir hafa breyst svo mjög síðan þetta ákvæði kom inn í stjórnarskrána. Þá mátti heita að allir landsmenn lifðu af landbúnaði og í sveitum og er kjördæmaskiptingin enn byggð á þeim grundvelli. Síðan hefur sjávarútvegur og vaxandi verslun og iðnaður dregið menn til kaupstaðanna, svo að nú lifir rúmur helmingur landsmanna í kaupstöðum og kauptúnum. En kjördæmaskipunin hefur ekki breyst að sama skapi. Nú er svo komið, að Reykjavík hefur t. d. ekki nema helming þeirra þingmanna sem hún ætti heimting á eftir fólksfjölda, en við annað verður ekki miðað. Það er ekki hægt að kjósa svo og svo marga þingmenn eftir fjölda nautgripa í kjördæminu.“ Héðinn Valdimarsson segir: „Það er ekki hægt að kjósa svo og svo marga þingmenn eftir fjölda nautgripa í kjördæminu, eða fyrir báta í því o. s. frv., heldur verður að miða við mannfjöldann og hann einan.“

Héðinn Valdimarsson hafnaði atkvæðisrétti fyrir nautgripi og báta. Ég vil að það komi hér skýrt fram. „Aftur á móti eru nú ýmis kjördæmi, svo sem Austur-Skaftafellssýsla, Norður-Múlasýsla o. fl., sem hafa hlutfallslega allt of fáa kjósendur til þess að eiga rétt á sérstökum þm. Hægt er að hugsa sér ýmsa möguleika til að bæta úr. þessu ástandi.“

Síðan er hér haldið áfram. Ég ætla ekki að þreyta þm. með allt of löngum lestri, en mér sýnist ljóst á meðferð þessara mála hingað til að eitthvað hafi skort á efnislegan undirbúning, þannig að ég ætla að taka mér svolítið bessaleyfi til að tína hér til ýmis atriði frekar frá gengnum forustumönnum í íslenskum stjórnmálum.

Héðinn Valdimarsson segir: „Það eru því kaupstaðabúar og einkum verkalýðurinn sem geldur þessa rangláta skipulags. Með núgildandi stjórnarskrá er níðst á þeirri stétt manna. Ástandið hér minnir á það ástand sem var á Englandi nálægt 1830, þótt það væri enn verra. Af breytingu atvinnuveganna þar í landi var kjördæmaskipunin orðin þannig, að á einum stað kusu 21 kjósandi þingmann og á öðrum jafnvel einir sjö menn. Þetta leiddi auðvitað til margs konar ranglætis og spillingar, eins og uppboðs á atkvæðum í þessum litlu kjördæmum. Urðu þar miklar deilur út af kosningarréttarmálinu, því að hin ráðandi stétt vildi ekki sleppa völdum sínum, sem á ranglætinu byggðust. Það var ekki fyrr en lá við byltingu að þessu var breytt.“

Síðan kemur hér mjög merkilegt atriði í ræðu Héðins Valdimarssonar, sem ég held að eigi fullt erindi til samtímans, ekki síst vegna þess að nú er til umræðu að hugsanlega verði greitt þjóðaratkvæði um bjór. Ýmsir þm. hafa hafnað þeirri aðferð og sagt að þm. verði að hafa þor til þess að ganga gegn þjóðinni. En Héðinn Valdimarsson sagði, með leyfi forseta, árið 1920:

„Síðasta atriðið í brtt. mínum, er máli skiptir, er þess efnis að þjóðaratkvæði um hvaða þingmál sem er skuli fram fara hvenær sem 3500 kjósendur óska þess. Í ýmsum lýðfrjálsum löndum gilda slík ákvæði eigi einungis um þau mál, er heyra undir þing og stjórn, heldur einnig um þau mál er heyra undir bæja- og sveitarstjórnir.“ Árið 1920, þátttökulýðræði.

„Ég skal til dæmis nefna það, að svo er þessu háttað í Sviss og Ástralíu, og ég hygg að mér sé óhætt að fullyrða að svona sé það í Finnlandi líka. Slíku ákvæði er vitanlega ekki beitt nema um stórmál sé að ræða. Þjóðaratkvæði þekkist nú hér í stjórnarskránni um breytingu á sambandslögunum og hefur verið beitt um bannlögin, en hér er lengra gengið, þar sem kjósendum er leyft frumkvæði um atkvæðagreiðslu um málin ef þau eru þingmál. Styðst þetta við það, að meiri hluti þjóðarinnar eigi að ráða fram úr stærstu vandamálunum og hafa æðsta úrskurðarvaldið þar, eins og í fornöld var hjá öllum germönskum þjóðum. Þetta ákvæði miðar að því að styrkja lýðræðið í landinu og er hollt aðhald fyrir þm., til þess að nota ekki umboð sitt til að greiða atkvæði á þingi þvert ofan í vilja kjósendanna.“ Og þetta væri nú gott að heyra fyrir þm. sem berja sér á brjóst og telja það merki karlmennsku og þingmennsku og þors og djörfungar að ganga gegn vilja kjósenda sinna.

„Áður en ég skil við þetta mál vil ég minnast örfáum orðum á frv. það til stjórnarskrárbreytinga sem hæstv. stjórn ber nú fram í hv. Ed., og verð ég þá fyrst að lýsa yfir því, að ég undrast stórlega að slíkt frv. skyldi eigi vera borið undir hv. Nd. fyrst.“

Hér fer Héðinn greinilega út í deilumál ársins 1920, sem ég ætla ekki að rekja frekar að sinni, en ég sakna þess mjög að allur sá tími sem íslensku flokksforingjunum hefur gefist síðan þetta mál varð fyrst til, allur sá tími hefur farið forgörðum í þeirra höndum, til að fá þjóðina til að taka þátt í því að móta framtíðarstefnu í þessum málum. Þeir hefðu átt að taka sér fordæmi þessara manna til hliðsjónar.

Það eru fleiri sem hafa skrifað um þetta mál sem betur fer. Þó nokkur umræða varð um þessi mál á síðasta ári, og reynt hefur verið að vekja menn svolítið til umræðu um þau á þessu ári.

Nýlega birtist í blöðunum grein eftir Garðar Sverrisson sem heitir „Gegn Alþingi fermetranna“. Með leyfi forseta, þá byrjar hún svo: „Getur málamiðlun um mannréttindin verið réttlætanleg?“ Það sem hér er verið að velta fyrir sér er sú umræða þegar því er haldið fram að þar sem augljóslega skortir ýmislegt á um opinbera þjónustu og aðstöðu o. þ. h. úti á landsbyggðinni þá sé það réttur þess fólks að hafa tiltölulega þyngri kosningarrétt heldur en fólkið sem býr í Reykjavík og á Reykjanesi. Í greininni er haldið áfram:

„Getur málamiðlun um mannréttindi verið réttlætanleg? Þessari spurningu hefur mikill meiri hluti alþm. svarað játandi. Röksemd þeirra er (opinberlega) fyrst og fremst sú að fleira sé mannréttindi en jafn kosningarréttur, t. d. jafn aðgangur allra landsmanna að þjónustu ýmiss konar. Auk þess segja þeir að misvægi atkvæða komi í veg fyrir meiri búferlaflutninga en þegar hafa átt sér stað á þessari öld.

Um þessa röksemdafærslu er það að segja að búseta í dreifbýli og þéttbýti hlýtur alltaf að hafa ákveðin sérkenni, kosti og galla. Almenn þjónusta hlýtur t. d. alltaf að vera mun fjölbreyttari þar sem fólkið er flest. Annað væri stórfurðulegt, enda þekkist það hvergi í veröldinni. Á hinn bóginn hefur svo þéttbýlið ákveðna ókosti, svo sem hávaða, þrengsli, dýrt húsnæði, fjarlægð frá vinnustað, árekstra og alls kyns ónæði. Pólitískt brask með atkvæðisrétt manna fær aldrei breytt þessum ofureðlilegu einkennum.

Sú fullyrðing er alröng að búseta fólks í dreifbýli eða þéttbýli sé einhver mælistika á lífskjör þess. Í Reykjavík eru t. d. hlutfallslega stærstir hópar láglaunafólks, einstæðra foreldra, fatlaðra, sjúkra og aldraðra. Þetta fólk er stór hluti þeirra Íslendinga sem stjórnmálamennirnir treysta ekki fyrir fullum atkvæðisrétti.

Jafnvel þótt satt væri að lífskjör fólks réðust af því hvort það byggi í dreifbýli eða þéttbýli er ekki þar með sagt að atkvæðavægi eigi að ráðast af því. Jafn kosningarréttur hefur í gegnum tíðina verið eitt helsta baráttumál lýðræðissinnaðra stjórnmálamanna. Þeir telja skoðanir sínar ekki svo heilbrigðar og réttar að þeir vilji þröngva þeim upp á fólk með ólýðræðislegum aðferðum. Þvert á móti vilja þeir knýja baráttumál sín í gegn með því að afla þeim meirihlutafylgis.

Ef við teljum rétt eða hagkvæmt að ríkið reki einhverja tiltekna byggðastefnu þá gerum við það einungis með því að afla þeirri skoðun okkar nægilegs fylgis. Ef við viljum að ríkið aðstoði einhvern tiltekinn hóp einstaklinga þá gerum við það ekki með því að margfalda atkvæðavægi þess hóps heldur með því — og því einu að afla þessari skoðun okkar meirihlutafylgis. Þetta er algert grundvallaratriði.

Áður fyrr var kosningarréttur manna háður efnahag og kynferði. Víða erlendis var hann, og er sums staðar enn, bundinn ákveðnum litarhætti.

Nú í ár er nákvæmlega hálf öld liðin síðan fátækir menn, svokallaðir sveitarómagar, fengu kosningarrétt. Enn í dag, 50 árum síðar, höfum við ekki horfið frá því siðleysi að úthluta borgurunum ójöfnum atkvæðisrétti. Þegar til kosninga kemur eru Íslendingar flokkaðir í fullgilda kjósendur og undirmálskjósendur. Sumir Íslendingar eru taldir hæfari en aðrir til að haga sér skynsamlega í kjörklefanum.

Samkvæmt stjórnskipan íslenska ríkisins eru þm. aðeins kjörnir til að setja landinu almenn lagafyrirmæti. Þeir eru ekki, skv. reglum stjórnskipunar, kjörnir til þess að bæta aðstöðu ákveðinna hópa með hagsmunapoti. Þó ekki væri nema af þessari ástæðu einni geta misjafnir eiginleikar eða búseta aldrei verið grundvöllur misjafns atkvæðisréttar. Verkefni alþm. er að takast á um skoðanir og löggjöf, um rétt og rangt. Annað er í verkahring borgaranna.

Staðreynd er að minni hluti þjóðarinnar hefur meiri hluta á Alþingi. Þegar þessi þingmeirihluti fjallar um atkvæðisrétt er hann öðrum þræði að fjalla um eigin stöðu og atvinnu. Það er því alls óvíst, þótt það sé ekki aðalatriði málsins, hvort þessir menn eru að tjá tilfinningar og skoðanir umbjóðenda sinna. En jafnvel þótt svo kynni að vera þá stendur alltaf eftir sú staðreynd að þessi meiri hluti talar ekki í umboði meiri hluta þjóðarinnar.

Til að leita svara við því hvort meiri hluti þjóðarinnar vilji að minni hluti hafi áfram meirihlutavald verður að spyrja hana sjálfa í kosningum þar sem hver maður hefur eitt og jafnt atkvæði. Þessi aðferð er betri, þó hún sé ekki fullkomin, því áhöld eru um það hvort það samræmist lýðræðislegri stjórnskipan að meiri hlutinn geti ákveðið leikreglur sem kveða á um að minni hlutinn eigi að ráða. Aðferð þessi er þó augljóslega skárri en sú að selja þm. sjálfdæmi í málinu, enda er það löngu viðurkennd réttarregla að menn dæmi ekki í eigin sök.

Á Alþingi hafa fulltrúar gömlu flokkanna gert samkomulag um áframhaldandi atkvæðamisvægi. Þeir eru að versla með grundvallarmannréttindi. Enn þá skal meiri hlutinn eftirláta minni hlutanum að ákveða leikreglurnar. Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna meiri hluta þjóðarinnar er ekki treystandi fyrir meiri hluta á þingi.“

Ég vil endurtaka þetta: Hvers vegna er ekki meiri hluta þjóðarinnar treystandi fyrir meiri hluta á þingi? „Hvaða skoðanir meiri hlutans eru svo óheilbrigðar og vitlausar að þær megi ekki verða að lögum? Við þessari spurningu krefjumst við undanbragðalausra svara.

Kjarni málsins er sá að misvægi atkvæða er mannréttindabrot og mannréttindabrot má ekki binda í stjórnarskrá. Í 21. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á Allsherjarþinginu 1948, segir svo orðrétt:

„Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvæðagreiðsla viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.““

Þarna hefur 21. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sýnt okkur hver vilji þeirra samtaka er, sem við teljum okkur í skálaræðum afar hólpna að vera meðlimi að. Síðast í dag, í umr. um skýrslu utanrrh., var lögð á það mikil áhersla að við þyrftum að lifa í samræmi við þennan sáttmála og við ættum að efla það hugarfar með okkur og öðrum sem í þessum sáttmála er lýst. Hvernig stöndum við svo við það ákvæði í 21. gr. mannréttindayfirlýsingarinnar að kosningarréttur skuli vera jafn? Þar hefur okkur heldur betur brugðist bogalistin.

Garðar Sverrisson heldur áfram: „Til þessarar skýru og tæpitungulausu yfirlýsingar er enn fremur vísað í inngangi að mannréttindasáttmála Evrópu sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 29. júní 1953. Okkur ber því skylda til að haga löggjöf okkar í samræmi við þennan sáttmála.“

Ég vil segja það að við erum aðilar að þessum greinum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Að sjálfsögðu geta þessir sáttmálar ekki orðið bindandi fyrir okkar löggjöf. Alþm. eru einungis bundnir af sannfæringu sinni. En það eru orðin tóm að halda því fram í veislum með ungmennafélagsglampa í augunum að við lifum í samræmi við þetta og við viljum að aðrar þjóðir geri það, þegar við gerum það ekki einu sinni sjálf.

Garðar Sverrisson heldur áfram: „Þessu til viðbótar má til fróðleiks minna á dóm sem hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp árið 1964. Fjallað var um hvort misvægi atkvæða eftir búsetu fengi staðist í kosningum til löggjafarþings í Alabama. Í forsendum dómsniðurstöðu segir m. a. svo:

„Þingmenn á löggjafarþingi eru fulltrúar fyrir fólk, ekki fyrir tré eða akra. Þingmenn eru kosnir af kjósendum, ekki bóndabæjum eða efnahagslegum hagsmunum.“ — „Eigi þátttaka allra borgara í stjórn ríkisins að bera fullan árangur hlýtur þess að verða krafist að rödd sérhvers þeirra hljómi jafnsterkt við val fulltrúa á löggjafarþing ríkisins. Þetta og ekkert minna er forsenda fyrir nýtískulegum og lífvænlegum stjórnarháttum og þessa og einskis minna krefst stjórnarskráin.“

„Ég vil segja hér í þessu sambandi að ekki veit ég hvort hæstiréttur Bandaríkjanna hafði lesið það sem Héðinn Valdimarsson skrifaði í íslenskum þingtíðindum árið 1920, þegar hann sagði að nautgripir og bátar hefðu ekki kosningarrétt, en hæstiréttur Bandaríkjanna hefur greinilega komist að sömu niðurstöðu, þar sem hann segir í dómsorðum: „Þingmenn á löggjafarþingi eru fulltrúar fyrir fólk, ekki fyrir tré eða akra. Þingmenn eru kosnir af kjósendum, ekki bóndabæjum eða efnahagslegum hagsmunum.“ Þetta ættu menn nú að hafa til hliðsjónar.

Niðurlag greinar Garðars Sverrissonar er eins og hér segir undir millifyrirsögninni „Fulltrúar fermetra gegn fólki“:

„Fulltrúar gömlu flokkanna vilja málamiðlun um mannréttindi. Af persónulegum og pólitískum hagsmunaástæðum vilja þeir ekki taka afstöðu með þeim grundvallarmannréttindum að sérhver íslenskur kjósandi hafi jafnan kosningarrétt.

Ójafn kosningarréttur gengur þvert á allar heilbrigðar hugmyndir um jafnrétti og lýðræði. Þetta misrétti er einnig í æpandi mótsögn við algengustu hugmyndir manna um valddreifingu. Með valddreifingu hljóta menn að eiga við það að völdum sé dreift til fólks en ekki í holt og hæðir. Við hljótum að krefjast þess að þm. séu fulltrúar fyrir fólk en ekki fermetra.

Það er lágmarkskrafa að allir borgarar ríkisins hafi jafnan rétt gagnvart lögum og leikreglum. Við megum ekki lengur láta fulltrúa fermetranna þvælast fyrir lýðræði á Íslandi.“

Svo mörg voru þau orð. Í þessu sambandi er einkar skemmtilegt að lesa grein, sem Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður skrifaði í Morgunblaðið þegar það tókst að pína fram úr flokksforingjunum svolitla umræðu nokkrar dagstundir um kosningamál. Hann segir:

„Nú hefur verið lagt fram á Alþingi frv. um breytingu á því ákvæði stjórnarskrárinnar sem varðar kosningareglur í alþingiskosningum.“ Þetta er skrifað s. l. vor og það er verið að fjalla um það blessaða frv. sem skaut upp kollinum eftir neðanjarðardvöl sína á Alþingi í vetur. „Nú hefur verið lagt fram á Alþingi frv. um breytingu á því ákvæði stjórnarskrárinnar sem varðar kosningareglur í alþingiskosningum. Því frv. fylgja til kynningar drög að frv. að kosningalögum.

Kosningareglurnar, sem í frv. þessum birtast, komu ekki fram opinberlega fyrr en fyrir nokkrum dögum og hafa þær því ekki verið kynntar ítarlega. Mun samt sem áður standa til að afgreiða stjórnarskrárbreytinguna með hraði, enda lítill tími til stefnu þar sem þingstörfum á að ljúka innan fárra daga.“ — Eitthvað kannast maður nú við situasjónina.

„Sá sem þetta ritar hefur unnið nokkuð að lögfræðilegum undirbúningi frv. þessara á vegum Sjálfstfl. Persónulega er ég þó mjög andvígur þeim tillögum sem þar birtast. Sú andstaða er ekki á því byggð að á tillögunum séu lagatæknilegir gallar.“ — Hann hefur greinilega ekki tekið eftir þeim göllum sem kommunefndin fann við nýlega yfirferð, þar sem hún lagfærði kommur og stafsetningarvillur. „Aðrar ástæður koma þar til. Hef ég kynnt þingflokki sjálfstæðismanna rökin fyrir þeirri afstöðu. Ég tel að þau eigi einnig erindi til atmennings og birti þau því hér. Skal þess getið að Finnur Torfi Stefánsson héraðsdómslögmaður, sem unnið hefur að hinni lögfræðilegu hlið málsins fyrir þingflokk Alþýðuflokksins, gerði þeim flokki sams konar grein fyrir andstöðu sinni.“

Í þessari grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. er vikið að ýmsum ágætum hlutum sem við höfum vikið að hér áður, eins og t. d. mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og ákvæði hennar um jafnan kosningarrétt. Í grein hans segir:

„Ekki er ástæða til að eyða löngu máli í að rökstyðja hvers vegna það er viðurkennd lýðræðisleg krafa og mannréttindamál að atkvæði skuli vera jafnt. Með misjöfnum atkvæðisrétti erum við að flokka borgarana. Við erum að segja að einhverjir verðleikar manna eigi að valda því að þeir teljist gildari borgarar en aðrir. Þetta hefur ekki verið gert áður. Þá höfðu menn ekki atkvæðisrétt nema þeir hefðu nokkuð undir sér. Og ekki þótti þá ástæða til að konur mættu kjósa.

Við höfum fyrir löngu horfið frá þessum hugmyndum. Það sem nú er fært fram sem réttlæting fyrir misvægi atkvæða eru e. t. v. öfgarnar í hina áttina. Nú virðast borgarar eiga að fá áhrifameiri atkvæðisrétt ef þjóðfélagsleg aðstaða þeirra er verri en annarra. Að vísu er svo sem ekki heil brú í þeirri röksemdafærslu þar sem misvægið sem menn vilja hafa á atkvæðavægi er ekki í neinu samræmi við þann mælikvarða sem notaður er í orðum. Má sem dæmi nefna að aðstöðumunur manna er mikill innan sömu kjördæmanna án þess að við því sé séð með misvæginu. Og svo hitt, að ýmislegt annað en búseta hefur áhrif á aðstöðu manna og efnahagslega afkomu og efnahagslegt gengi.

Ef taka ætti þessar röksemdir alvarlega yrði að fylgja þeim aðferð við að vega einstaka menn og meta til að finna út atkvæðisþunga þeirra. Þessu til viðbótar skal svo bent á það, sem e. t. v. skiptir mestu máli um þessi rök, að þm. eru samkvæmt stjórnskipan ríkisins kosnir til að setja landinu atmenn lagafyrirmæli.“

Hér er vakin athygli á tveimur býsna mikilvægum atriðum. Í fyrsta lagi er vakin athygli á því að jafnvel þó að reynt sé að bæta íbúum í einhverju kjördæmi upp t. d. félagslega eða atvinnulega aðstöðu, þá getur verið kannske meira misvægi innan þess kjördæmis heldur en er milli þess kjördæmis og segjum R-kjördæmanna svokölluðu. Þá kemur kannske upp sú þörf að fara að flokka menn niður innan kjördæma og þá þurfum við kannske að koma upp einhvers konar gengisskráningu, skrá sérstakt atkvæðagengi, kannske eftir skattskýrslu eða eftir búsetu eða eftir hæð og þyngd, það má vafalaust hafa ýmsar aðferðir til þess. Þetta er ein leiðin til þess að reyna að ná fram þessu máli.

Ég held að það sé mjög erfitt að færa fyrir því gild fagleg rök að mismunur á félagslegum eða atvinnulegum aðstæðum geti nokkurn tíma réttlætt mismunandi atkvæðisrétt, vegna þess að ef við ætlum að beita þessum rökum áfram þá yrðum við að setja einhverja reglu sem segði t. d. að vegalengd til skóla, hver km gilti 1/100 úr atkvæði til viðbótar. Síðan gætum við kannske reynt að meta á einhvern hátt atvinnuástand, reynt að meta það til punkta, kannske ættum við að koma okkur upp punktakerfi til þess að meta atkvæðisrétt. Við erum með punktakerfi í ýmsum lífeyrissjóðum. Kannske geta menn safnað sér punktum til atkvæðisréttar.

Ég held að ef menn ætla í raun og veru að taka það gilt að misjöfn aðstaða í atvinnulegu og félagslegu tilliti geti réttlætt mismunandi atkvæðavægi verði menn að búa til einhvern skala. Og hvernig ætla menn að búa til skala? Á að telja það í fermetrum malbiks? Á að telja það í fermetrum ómalbikaðra vega? Á að telja það í vegalengd frá Reykjavík? Á að telja það í lengd símalina frá Reykjavík? Hvernig ætlið þið að telja þetta? Hvernig á að meta þetta? Það er ekki hægt. Við getum ekki tekið þessi rök og útfært þau.

Ég held að menn þurfi ekkert að óttast það að íslenska þjóðin komi ekki til með að standa með öllum sínum bræðrum og systrum hvar sem þau búa. Það sem íslenska þjóðin þarf að fá er fullt og óskorað tækifæri til að segja álit sitt á því hvaða aðferðum eigi að beita, eins og segir í grein Garðars Sverrissonar. Hvaða sjónarmið fólks á Reykjavíkursvæðinu eru svo vitlaus og óheilbrigð að þau megi ekki njóta sín til fulls á löggjafarsamkundunni? Ég meinti þetta ekki persónulega til hv. þm. sem gekk fram hjá ræðustóli. Þetta var almennt innlegg inn í þetta undarlega mál.

Allir Íslendingar eru eins og sveitamaður sem er nýkominn til kaupstaðarins. Við eigum öll frændur og við eigum öll frænkur úti á landi og foreldrar okkar eru vaxnir upp úr þessu umhverfi. Það mun því aldrei koma til þess að stofnað verði hér til illinda milli dreifbýlis og þéttbýlis. En fólkið hérna í þéttbýlinu hefur fullan og óskoraðan rétt á að láta sín sjónarmið hafa fullt vægi á löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Annað er ósamrýmanlegt öllum grundvallarreglum sem vestræn þjóðfélög starfa eftir. Og það birtist á ýmsan hátt. Það birtist í mannréttindayfirlýsingu hvort sem er Evrópuráðs eða Sameinuðu þjóðanna. Þetta hlýtur að vera sú grundvallarregla sem við fylgjum. Ef íslensku flokkarnir ætla að fara að þvinga þjóðina til að búa við eitthvað annað þá er það hneyksli. Hvorki meira né minna en hneyksli. Og ef þessir flokkar ætla svo í kjölfarið á þeirri misbeitingu að halda þessu leyndu, halda áfram að mæla fyrir þessum málum um miðjar nætur, halda áfram að steinþegja um grundvallaratriði málsins, ef íslenskir flokksforingjar ætla aldrei að opna munninn um grundvallaratriði íslenskrar þjóðskipunar þá erum við illa sett. Nú sitja þeir múlbundnir í samtryggingarjafnvægi, allsherjarjafnvægi, og þeir skammast sín allir. Þeir vita að þeir hafa brugðist í því hlutverki sínu að finna á þessu máli viðunandi lausn. Og þeir segja: Við ætlum að fresta því til haustsins.

Ég segi — og vísa til ágætra hugmynda sem einhverjir í Framsfl. birtu: Það á að taka þetta mál frá Alþingi. Það á að setja stjórnlagaþing, sem er kjörið með jöfnum atkvæðisrétti allra landsmanna, og þetta stjórnlagaþing á að fjalla um þetta mál. Vegna þess að í tvígang hefur fjórmenningunum mistekist, í tvígang hefur þeim mistekist. Hvað eigum við að láta þá ganga hér upp í stól margar nætur í myrkrinu til þess að segja að þeir ætli að fresta þessu?

Íslensk þjóð á meira skilið. Það var í fyrravetur gerð tilraun, mjög virðingarverð tilraun til þess að fá fram umræðu um stjórnskipun og stjórnarskrá. Þá skrifuðu greinar þeir Halldór Guðjónsson, Jónas Gíslason, Páll Skúlason, Sigurður Líndal, Vilhjálmur Árnason og Þórður Kristinsson. Þeir skrifuðu þessar greinar undir nafninu „Lýður“, kannske til þess að reyna að fá landslýð til að huga svolítið að þessu máli. Þar kennir margra góðra grasa. En ég ætla að eiga þau atriði sem þar er vikið að til góða vegna þess að nóttin er löng og ég veit að ýmsir vilja komast hér að til að gera grein fyrir sínum hugmyndum um þessi mál. Ekki væri nú verra ef einhver fjórmenninganna kæmi hér upp og segði til dæmis ofurlítið frá samskiptum þeirra við aðmírál Droops og hvernig og hvers vegna þeirri viðureign lyktaði með ósigri fjórmenninganna. Hvers vegna við erum engu nær en við vorum desembernóttina myrku þegar nýbakaður formaður Sjálfstfl. fékk það hlutskipti að varpa þessu máli inn í heljarmyrkur íslenskra flokka.