17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6214 í B-deild Alþingistíðinda. (5627)

Um þingsköp

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Auðvitað er samkomulagi háð hvenær þingi er slitið, og menn geta haldið áfram að spyrja hvenær þingi eigi að ljúka, í maílok, júnílok og svo áfram. En hv. þm. spurði um afdrif 2. dagskrármálsins — og það er um þingsköp, herra forseti. (Forseti: Það er nú forseta að svara fyrir það.) Um? (Forseti: Um þingsköp í því efni.) Í því efni, já.

Þegar frv. gengur milli deilda til einnar umr. gengur það formálalaust til nefndar. (GHelg: Gerði það það?) Það hef ég úrskurðað áður sem forseti Nd. Ef það á að takast inn á dagskrá þarf afbrigða við ef n. ekki skilar áliti. Nú vildi þannig til, skilst mér, að n. hafði ekki lokið störfum um málið, en málið var samt tekið á dagskrá. En athugasemd var ekki gerð um að málið yrði tekið til umræðu, þannig að hér var ekki um þingsköp að tefla, heldur afgreiddi forseti með löglegum hætti málið sem lög frá Alþingi. Sú atkvæðagreiðsla og afgreiðsla verður ekki endurtekin, þannig að lokaafgreiðslan um þetta hefur farið fram, á því er enginn vafi, en mistök, sem forseti er alveg ábyrgðartaus um, hafa kannske átt sér stað í meðferð málsins áður en lokaafstaðan er skýr.

Ég ætla svo ekki að blanda mér í þrætur um þingsköp og málsmeðferð og þinglok yfirleitt, um slíkt semja menn og ef nauðsyn ber til verða menn að gefa sér tíma til þess að sinna þingstörfum umfram allt. Þannig hefur þetta verið um langa hríð og bitnaði það nú á ýmsum hér á næstliðnum árum að þungt var þetta í vöfum og erfitt og orkaði tvímælis hvernig þinglok yrðu, en það endaði þá með því að gott samkomulag náðist.