18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6258 í B-deild Alþingistíðinda. (5709)

Um þingsköp

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að ég geri grein fyrir því sem um samdist í nótt. Við 2. umr. um kosningalagafrv. urðu alilangar ræður og ákveðið að fresta fundi og rætt við þá sem vitað var að hefðu hug á að tala í því máli. Eftir þær viðræður samdist um það að ljúka fundi þá nótt og var þá áætlað af okkur, sem þennan fund sátum, eftir að við höfðum, eins og ég sagði, rætt við þá sem höfðu lýst yfir áhuga að taka þátt í umr. um málið, að það þyrfti um tvo til þrjá tíma hámark. M. a. var það byggt á því að hv. 3. þm. Vestf. lýsti því yfir að ef fundi yrði lokið þegar í nótt mundi hann tala stutt við 2. og 3. umr. Ég tel að þetta mat hafi verið mjög rúmt satt að segja, tveir til þrír tímar. Ég veit að forseti hefur haft í huga að ljúka hér fyrir kl. sjö og enn þá eru tveir tímar og þrír stundarfjórðungar til klukkan sjö. Eftir því sem ég veit best er einn maður á mælendaskrá um þessi tvö mál sem nú eru til umr. Ef hann er stuttorður getum við snúið okkur að öðrum málum.

Út af spurningu hv. þm. um fundarhlé var okkur kunnugt um að Sjálfstfl. vildi fá stuttan þingflokksfund og það var tekið með í þetta dæmi. Að vísu var gert ráð fyrir að hann yrði bara hálftími en hann varð nokkuð lengri, ég verð að segja því miður, en til þess lágu brýnar ástæður. Ég vil því vísa því á bug og bið hv. þm. að endurskoða það að verið sé að rjúfa samkomulagið. Byrjað var með því að standa fullkomlega við það að ljúka fundi í nótt eins og óskað var. Í öðru lagi er a. m. k. ekki enn þá hægt að fullyrða að ekki fáist nægur tími til að ræða kosningalagafrv. og stjórnarskrárfrv.