19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6318 í B-deild Alþingistíðinda. (5768)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skipa það sem sennilega mundi heita núna 1. minni hl. landbn. og álit hans kemur fram á þskj. 993, eins og hv. frsm. minni hl. hefur þegar gert grein fyrir.

Ég ætla ekki að orðlengja mjög um þetta mál og það sem hér hefur verið sagt í tengslum við samtvinnun Framsfl. og SÍS. En ég þykist þess þó nokkurn veginn fullviss að þessi skipan mála, verslunarmála á landbúnaðarafurðum, hafi nú ekki verið þeim skörungum í huga sem fyrir hundrað árum fóru af stað í Suður-Þingeyjarsýslu með þá nýmóðins félagshyggju og samvinnustefnu.

En hvað um það. Ég ætla aðeins að ítreka þá skoðun Samtaka um kvennalista að við viljum að Íslendingar rækti sjálfir allt sitt grænmeti, hvort sem það eru kartöflur eða annað grænmeti. Ég er fullviss um að við getum það og mig langar hér og nú til að hvetja hæstv. landbrh. til að gera áætlun um það hvernig haga megi ylrækt, kartöflurækt og grænmetisrækt hér á landi í framtíðinni og leggja slíka till. fyrir næsta þing. Ég hvet til slíkrar áætlunargerðar og ég hvet til þess að einhverju stuðningsfjármagni verði veitt í það að byggja upp slíka ræktun hér á landi og minni einnig á atriði sem er mjög mikilvægt í aðgerðum eins og þessum og það er upplýsingaþjónusta og fræðslustarfsemi til þeirra sem vilja fara út í þess háttar ræktun.

Það er ljóst að það tekur nokkurn tíma þangað til því marki verður náð að við önnum hér þörfum innlenda markaðarins og getum boðið landsmönnum öllum upp á nýtt og gott grænmeti og kartöflur. Þangað til tel ég að best sé að hafa þann háttinn á sem það frv. sem hér er til umr. kveður á um.

Það er ljóst að núverandi skipan þjónar hvorki kartöflubændum né neytendum. Ég vil minna hv. þdm. á að tillögugreinin, sú eina sem eftir stendur í þessu frv. að till. 1. minni hl. n., hljóðar upp á það að leyfi til innflutnings skuli því aðeins veitt að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn. Hér er aðeins verið að tala um innflutning á reyndar ekki öllu grænmeti heldur aðeins kartöflum á meðan við höfum ekki nóg úr okkar eigin kartöflugörðum. Mér er kunnugt um að þannig er því ekki háttað hér á landi nú, eins og fram hefur komið í ræðum annarra ræðumanna hér. Kartöflur eru fluttar inn þótt innlend framleiðsla sé fyrir hendi. Ég tel þetta því út frá því sjónarmiði einnig tvímælalaust vera spor í rétta átt og miða að verndun íslenskrar framleiðslu og garðræktar hér á landi.

Ég styð því eindregið að sú grein sem eftir stendur í frv. verði samþykkt.