19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6319 í B-deild Alþingistíðinda. (5769)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Í þeim orðum sem ég segi hér vil ég fyrst og fremst reyna að halda mig við staðreyndir, en ekki leggja út í málflutning sem hefur verið, a. m. k. sumt af honum, nokkuð í stíl við þá blaðamennsku sem hefur verið rekin í kringum þetta mál. Þó get ég tekið undir margt sem fram hefur komið, t. d. flest sem hv. síðasti ræðumaður sagði.

Fyrst ætla ég að rekja hvernig þetta mál, sem mest er um talað nú, snýr að landbrn.

Mér barst fyrir u. þ. b. hálfum mánuði umsókn um innflutningsleyfi fyrir kartöflum. Fyrst kom umsókn frá einum aðila og síðan bættust við nokkrar fleiri. Ég hygg að þær hafi orðið sjö í lokin. Strax og mér barst fyrsta leyfið taldi ég þörf á að þetta mál yrði athugað og á hvern hátt yrði orðið við þeirri beiðni sem þar var fram sett, og reynt yrði að fá fram sjónarmið allra aðila sem þarna eiga hagsmuna að gæta. Ég ákvað því að skipa nefnd sjö manna sem í ættu sæti aðilar frá matvörukaupmönnum, frá Neytendasamtökunum, frá Hollustuvernd ríkisins, frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, sem löggjafarvaldið hefur falið að annast innflutning og verslun með kartöflur, og fulltrúar frá kartöfluframleiðendum og garðyrkjubændum, en formaðurinn frá ráðuneytinu. Jafnframt voru beiðnirnar sendar jafnóðum og þær bárust til Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Framleiðsluráðið vildi ekki taka afstöðu til einstakra beiðna um innflutning meðan sú nefnd sem ég hafði þá skipað og var tekin til starfa sæti að störfum og fyrr en hún hefði skilað áliti. Það kom fram í ítarlegri greinargerð sem það sendi mér. Nefndin var kölluð saman til funda undir eins og hún hafði verið skipuð og eftir tvo fundi sendi hún mér bókun sem ég tel rétt að lesa hér. Það er bókun á öðrum fundi í nefnd til að fjalla um verslunarhætti með kartöflur þann 17. maí 1984, þ. e. í fyrradag:

„Vegna þeirra aðstæðna sem upp eru komnar í innkaupum á erlendum kartöflum þykir rétt að taka fram eftirfarandi atriði þó svo að störf nefndarinnar séu á frumstigi og ekki mögulegt að taka endanlega afstöðu til þess verkefnis sem nefndinni er falið með skipunarbréfi frá landbrh., dags. 10. maí 1984:

Nm. eru sammála um að ákvarðanir sem kunna að verða teknar í þessu máli byggi á því að íslensk framleiðsla eigi forgang að innlendum markaði þegar hún er fyrir hendi. Þess vegna, og jafnframt til að varna því að komi til óheppilegrar birgðasöfnunar við innkaup á erlendum kartöflum, verður að telja óhjákvæmilegt að fylgst verði með innflutningi hverju sinni og hann háður stjórn til þess bærra aðila. Minnt er á að ákveðnar reglur gilda um meðferð og sölu á kartöflum, þ. á m. um pökkun í smásöludreifingu sem nauðsynlegt er að efla frekar en draga úr.

Nm. gera sér ljósa þá þýðingu sem Grænmetisverslun landbúnaðarins ásamt Sölufélagi garðyrkjumanna hafa til að tryggja hagsmuni framleiðenda og neytenda um allt land í dreifingu og sölu garðávaxta og grænmetis. Vegna þeirra hagsmuna telja nm. æskilegt að gerðar verði breytingar á stjórn Grænmetisverslunar landbúnaðarins í þá veru að við stjórnina bætist a. m. k. fulltrúar neytenda og matvörukaupmanna sem dreifa þessum vörum.

Að lokum er tekið fram að nefndin ræður eindregið frá því að ráðist verði í að ákveða skipulagsbreytingar á því sölukerfi sem um er rætt án þess að frekari umræða og umfjöllun hafi farið fram, og lagabreytingar, ef til þurfa að koma, látnar bíða þess tíma. Jafnframt að ekki verði teknar ákvarðanir nú af stjórnvöldum um leyfisveitingar er kunna að skapa mismun milli dreifingaraðila í smásölu og kalla fram aðstöðumun.“

Undir þetta nál. skrifa Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri landbrn., Magnús Sigurðsson, sem er formaður Sambands kartöflubænda, Kristján Benediktsson, sem var þangað til í gær formaður Félags garðyrkjubænda Ólafur Björnsson, sem er formaður matvörukaupmanna, Jón Óttar Ragnarsson, matvælafræðingur og stjórnarmaður í Neytendasamtökunum, Kolbrún Haraldsdóttir, sem er starfsmaður Hollustuverndar ríkisins og mætti á þessum fundi í stað Arnar Bjarnasonar sem hafði mætt á fyrsta fundi og Ingi Tryggvason formaður Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Þetta bréf barst mér síðdegis í fyrradag. Þar sem ég taldi nauðsynlegt að svara sem fyrst þeim beiðnum sem borist höfðu um innflutningsleyfi gekk ég frá bréfi tveimur klukkutímum eftir að mér barst þessi bókun, og held ég að varla sé hægt að segja að hægt hafi verið að hafa þann drátt skemmri. Við ákvörðun mína taldi ég að ég yrði að ganga heldur lengra en þessi nefndarbókun gerir ráð fyrir. Þess vegna var þeim aðilum, sem um höfðu sótt, sent eftirfarandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytinu hefur borist umsókn frá yður um heimild til innflutnings á kartöflum. Af því tilefni skal þetta tekið fram:

Samkv. 34. gr. laga nr. 95/1981 hefur ríkisstj. einkarétt á að flytja til landsins kartöflur og grænmeti. Ákvæði þetta byggist á því að tryggja sem best forgang íslenskrar framleiðslu á innlendum markaði. Auk þess verður sjúkdómavörnum þannig betur við komið, mati kartaflna, flokkun og dreifingu. Innflutningsheimild hefur undanfarin ár, eins og kunnugt er, verið hjá Grænmetisverslun landbúnaðarins.

Vegna margra umsókna um innflutningsleyfi hefur ráðuneytið skipað sjö manna nefnd til þess að fjalla um þessi mál og gera tillögur um skipan þeirra með tilliti til fenginnar reynslu. Nefndinni er ætlað að hraða störfum svo sem tök eru á. Ráðuneytinu hefur borist bókun frá nefndinni þar sem nefndin ræður m. a. eindregið frá því að ráðist verði í að ákveða breytingu á núverandi sölukerfi án þess að málið fái frekari umfjöllun. Bókunin fylgir hér með í ljósriti.

Framleiðsluráði landbúnaðarins var send umsókn yðar til umsagnar og aðrar umsagnir af sömu rót. Ráðið vill ekki taka afstöðu til einstakra umsókna meðan framangreind nefnd hefur ekki lokið störfum.

Með vísan til framangreindra laga og þess sem hér kemur fram telur ráðuneytið sig að svo komnu máli ekki í aðstöðu til að veita mörgum aðilum innflutningsleyfi. Ráðuneytið vill hins vegar leysa þann vanda sem nú er við að glíma með bráðabirgðalausn og veita umsækjendum tímabundið sameiginlegt innflutningsleyfi fyrir ákveðnu magni, verði þess óskað, enda verði innflutningi hagað þannig að auðvelt verði að koma eftirliti við vegna sjúkdómavarna og fylgt verði gildandi reglum um dreifingu, mat, verðlagningu og flokkun á hinum innfluttu afurðum. Geymslur og öll meðferð verða að fullnægja kröfum Heilbrigðiseftirlitsins.

Náist ekki samstaða um þessa leið vill ráðuneytið stuðla að því að forða verðmætum frá skemmdum og greiða fyrir að koma þeim kartöflum á markað sem sannanlega hafa þegar verið keyptar til landsins án þess að leyfa hafi áður verið aflað. Innflutningsleyfi fyrir þeim kartöflum verða veitt þegar fyrir liggja vottorð um heilbrigði kartaflnanna og flokkun þeirra, verðútreikningur liggur fyrir og sjóðagjöld hafa verið innt af hendi. Kartöflunum verði dreift í samræmi við starfsreglur Grænmetisverslunar landbúnaðarins, þannig að ekki verði um mismunun á milli aðila í smásöluverslun að ræða.

Bréf samhljóða þessu er sent öllum þeim sem sent hafa ráðuneytinu beiðni um innflutningsleyfi síðustu vikur og fylgir listi yfir þá með þessu bréfi.“

Með þessu taldi ég að komið væri eins til móts við innflytjendur og tök væru á, þannig að reynt væri að gæta þeirra hagsmuna sem lög kveða á um um framleiðendur og neytendur og þeir aðilar sem hér hafa talað hafa tjáð sig sammála. Með þessu móti eiga þeir innflytjendur sem þess óska að geta fengið innflutningsleyfi á næstunni.

Ég tel ekki að það samrýmist ákvæðum laganna eða sé æskilegt fyrir landbrn. að það standi í því að úthluta sérstökum gæðingum innflutningsleyfum, eins og hv. frsm. 1. minni hl., hv. 8. landsk. þm., sagði að ekki ætti að gera, heldur standi allir þeir sem vilja flytja kartöflur til landsins jafnt að vígi, en hins vegar verði þess gætt að ekki verði flutt inn til landsins svo mikið magn að hér yrðu kartöflur á boðstólum löngu eftir að innlend framleiðsla er komin á markaðinn. Hvernig á að tryggja að slíkt hendi ekki sé ég ekki að sé hægt nema því aðeins að fylgst sé með því magni sem kemur til landsins. Ætlunin er að ráðuneytið viti um hversu mikið er flutt inn, en ekki að það ætli sér að stöðva einstaka innflytjendur.

Það er aðeins einn aðili sem hefur komið með innflutningsskýrslur til landbrn. nú og óskað eftir að fá þessi leyfi og hann lýsti sig geta fallist á þá tilhögun sem í þessu bréfi stendur. Hann hefur þess vegna þegar dreift því sem hann hafði á boðstólum. Ég skal ekkert segja um hvernig þar hefur til tekist. Reynsla næstu daga og vikna á eftir að leiða í ljós hvort þetta hefur í för með sér lækkað verð til neytenda og hvort þarna verður betur að verki staðið á allan hátt en verið hefur hjá Grænmetisverslun landbúnaðarins. Það eru gerðar mjög strangar kröfur um pökkun á kartöflum til Grænmetisverslunarinnar og ráðuneytið gerir í bréfi sínu ráð fyrir að það verði aðrir að sæta því líka, en vissulega er það nokkuð mikill kostnaður, eins og hv. 5. landsk. þm. benti á, að ganga frá vörunni í þær umbúðir sem heilbrigðisyfirvöld gera kröfur um.

Mér finnst athyglisvert að í þeim umræðum sem fram hafa farið um þetta hafa allir aðilar lagt áherslu á að nauðsynlegt sé að gæta hagsmuna framleiðenda, þannig að ekki verði offramboð á kartöflum þegar ný uppskera kemur. En ég hef ekki heyrt eina einustu tillögu um hvernig þetta eigi að gera. Af hverju megum við ekki fá að heyra slíkt? Ég skipaði nefndina til að gera slíkar tillögur og hún treysti sér ekki til þess, þó að þar eigi sæti menn sem eru mjög kunnugir málum, nema fá lengri tíma til þess. Mér finnst marklítill málflutningur þeirra sem segja að breytingu eigi að gera, en vilja á sama tíma ekki segja hvernig. Í nál. minni hl. er þessi setning, með leyfi forseta:

„Því telja nm. mikilvægt að skýr og ótvíræð ákvæði verði sett í reglugerð um viðurlög við sölu og dreifingu innfluttra kartaflna og grænmetis fullnægi innlend framleiðsla eftirspurn.“

Af hverju megum við ekki fá að sjá þessi skýru og ótvíræðu ákvæði? Ég tel að það sé nauðsynlegt.

Ég fullyrði að landbrn. mun reyna að haga þessum málum þannig þangað til að ný innlend uppskera kemur að þeim aðilum sem vilja fá innflutningsleyfi verði vísað á þá samstöðu sem innflytjendur geta myndað um að skipta þeim leyfum á milli sín að því marki sem innlendi markaðurinn leyfir. Ég tel að það sé alveg sjálfsagt að þeir hafi kartöflur á boðstólum alveg eins og Grænmetisverslun landbúnaðarins á þessum tíma. En svo ég ítreki það: Það er bæði innflytjendunum sjálfum nauðsynlegt að vita hvað mikið er flutt til landsins og líka framleiðendum ef verða á við þeirri kröfu, sem allir setja fram, að hagsmuna framleiðenda sé gætt.

Margt, sem hefur komið fram í þessum umræðum, held ég að sé á misskilningi byggt. Ég vil þó taka undir það að vitanlega er það sameiginlegt hagsmunamál framleiðenda og neytenda að hér séu alltaf góðar kartöflur á boðstólum, það liggur í augum uppi. Ég held að það eigi ekki að taka mörg ár, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði, að það verði mögulegt að við ræktum eigin kartöflur að mestöllu leyti. Að vísu munu aldrei verða nýjar íslenskar kartöflur í boði allt árið eins og við vitum, en geymslur og geymsluaðferðir eru að taka svo miklum framförum að mögulegt er að halda gæðum kartaflnanna mjög lengi frá uppskeru. Þess vegna væntum við þess að í meðaluppskeruári verði hér nægjanlegt magn til innlendrar neyslu mestallt árið, a. m. k. ef snemma vorar þannig að uppskera geti hafist á miðju sumri.

Það virtist koma fram misskilningur í máli hv. 8. landsk. þm. um mat á kartöflum. Það er ekki Grænmetisverslun landbúnaðarins sem sér um yfirmat á kartöflum. Það er sérstakur starfsmaður ríkisins sem sér um það og það er hans hlutverk að taka þar í taumana og stjórna málum eins og hann telur þörf á. Það gildir vitanlega bæði um Grænmetisverslun landbúnaðarins og aðra sem kunna að versla með kartöflur.

Í mínum huga er hér um að ræða hagsmuni varðandi verslun á kartöflum. Við getum orðað það eins og hv. 5. landsk. þm.: Það eru gífurlegir hagsmunir. En það eru hagsmunir framleiðenda og neytenda. Það eru vissulega gífurlegir hagsmunir fyrir þá sem eingöngu stunda þessa atvinnu og lifa algerlega á henni að þarna séu mál í því lagi að þeir geti stundað það starf. Og það eru vissulega hagsmunir fyrir neytendur að fá góða vöru. En í mínum huga ráða ekki sérstakir hagsmunir eða umhyggja fyrir Grænmetisverslun landbúnaðarins að öðru leyti en því að hún er tæki til að þjóna hagsmunum þeirra aðila sem ég nefndi áður.

Hv. 5. landsk. þm. spurði: Hver er mismunur á verslun með appelsínur og epli og verslun með kartöflur? Hann er að sumu leyti ekki mikill. A. m. k. er áreiðanlegt að við höfum öll keypt skemmdar appelsínur og skemmd epli sem við höfum hent beint í ruslafötuna og ekki dottið í hug að leggja okkur til munns. En það er annar mismunur og hann er sá, að hér á landi eru ekki framleiddar appelsínur eða epli og þess vegna ekki um að ræða hagsmuni innlendra framleiðenda. Enn fremur er engin hætta á innflutningi sjúkdóma vegna þess að ekki er um innlenda framleiðslu að ræða. Sjúkdómur sem fluttur var til landsins með erlendum kartöflum hefur verið nú um tíu ára skeið eitt mesta vandamál innlendrar kartöfluframleiðslu. Sem betur fer eru nú möguleikar á að verjast honum betri en áður. Þess vegna er mjög brýnt að sérfræðingar, sem vit hafa á, skoði kartöflur þegar þær eru fluttar til landsins. Ég held að alveg augljóst sé að erfitt væri að koma slíku kerfi á ef innflutningur væri algerlega frjáls, ef við þyrftum að hafa sérfræðing á hverri innflutningshöfn á landinu.

Hv. 5. landsk. þm. sagði að hann gæfi ekki mikið fyrir það sem ráðherrar mundu segja á eftir hans máli og ég geri ekki ráð fyrir að hann taki þá mikið tillit til þess sem ég hef hér sagt, enda þótt ég hafi talið mig eingöngu vera að benda á staðreyndir. Mér finnst samt sem áður að það séu nokkuð stór orð hjá hv. 5. landsk. þm. að segja að aðilar eins og t. d. formaður matvörukaupmanna, matvælasérfræðingur og stjórnarmaður Neytendasamtakanna séu fulltrúar rotins kerfis af því að þeir vara við að gera skyndilegar breytingar á sölukerfinu og telja að það þurfi að huga betur að málum.

Ég ætla svo ekki að eyða lengri tíma í þetta en fullyrði að reynt verður að halda á þessum málum næstu vikur þannig að gætt verði hagsmuna framleiðenda og neytenda eins og kostur er.