19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6334 í B-deild Alþingistíðinda. (5798)

318. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Vegna brtt. minni hl. langar mig til að taka fram að þetta frv. er orðið til með þeim hætti að þríhliða samkomulag var gert á milli fjmrn., BSRB og BHM. Þetta er samkomulag sem ég tel rétt að virða og eðlilegt að verða við þessum réttmætu óskum þessara aðila og lögfesta það sem samkomulag varð um.

Lífeyrismál okkar eru í hinum megnasta ólestri og eitthvert alvarlegasta misrétti í þjóðfélaginu er þetta hve eftirlaunarétturinn er misjafn. Sumir eiga aðild að verðtryggðum lífeyri, sumir ekki og sumir alls engum. Mér finnst ekki óréttlátt að miða lífeyri manna við unninn starfsdag. Að því er þeir gestir sem við kvöddum á okkar fund tíunduðu munu vera allmörg dæmi um að menn reyni að spila á þetta kerfi eins og það er núna. Fólk, sem hefur unnið hálfan daginn mestalla starfsævina, fer kannske allt í einu síðustu mánuðina áður en vinnu lýkur að vinna allan daginn í staðinn fyrir að náttúrlegra hefði kannske verið að menn léttu heldur á sér í ellinni. En fólk öðlast við þetta fyllsta Lífeyrisrétt jafnvel þó að ekki séu unnir nema örfáir mánuðir rétt fyrir starfslok allan daginn. Þó að vafalaust sé margt í brtt. hv. 3. þm. Reykn. og við viðurkenndum að þarna gæti verið um að ræða að einhverjir yrðu fyrir vonbrigðum þá taldi meiri hl. n. að ekki væru efni til að breyta frv.