19.05.1984
Efri deild: 108. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6346 í B-deild Alþingistíðinda. (5853)

341. mál, Íslensk málnefnd

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru um lögfestingu starfsemi sem fram hefur farið í tengslum við Háskóla Íslands í 4 ár. Það miðar að því að styrkja þá málræktarstarfsemi sem þarna hefur farið fram og tengja stofnunina betur Háskólanum á þann veg að í Íslenska málnefnd tilnefni nú heimspekideild og Orðabók Háskólans sinn manninn hvor og háskólaráð tilnefni einn. Þetta þýðir að það kemst fastari skipan á málnefnd, en hingað til hefur ráðh. skipað hana án tilnefningar.

Íslensk málnefnd hefur haft með höndum mjög mikilvægt starf, ekki síst á sviði nýyrðasöfnunar og gefið út fagorðasöfn. T. d. hefur nú í vetur komið út íslenskt tölvuorðasafn. Þetta eru atriði sem skipta mjög miklu máli eftir því sem nýjar atvinnugreinar koma inn í landið, ný tækni og ný heiti. Ýmis fleiri mjög mikilvæg verkefni hefur Íslensk málnefnd haft með höndum.

M. a. var hún brautryðjandi í íslenskri máltölvun og fleiri hagnýt verkefni, sem henni eru falin, annast hún.

Til að tryggja að ekki verði um of skörun á verkefnum málnefndar og annarra stofnana, sem tengjast íslensku máli á vegum Háskólans, eru þessi atriði nú fest í lögum. Orðabók hefur nokkuð skyld verkefni með höndum, en hún annast fyrst og fremst útgáfu sögulegs orðasafns en aftur á móti málnefndin nýyrði. Til að tryggja enn betur samstarf þessara stofnana er gert ráð fyrir að orðabókin tilnefni mann í málnefnd, en það er meðal þeirra breytinga sem komu inn í frv. í Nd.

Ég vil taka fram að skýringin á þeim brtt., sem eru 5 talsins og fram komu frá menntmn. Nd., er sú að tekið var tillit til allra ábendinga frá stofnunum Háskólans og nm. um breytingar sem gera þyrfti á frv. Niðurstaðan er sú að alger samstaða er um málið eftir að Nd.-nefndin hefur borið saman bækurnar við þær stofnanir Háskólans sem þarna eiga hlut að máli. Eins og menn sjá er frv. undirbúið af rektor Háskólans, Baldri Jónssyni dósent, sem staðið hefur fyrir þessu starfi um nokkurra ára skeið, og svo Runólfi Þórarinssyni í menntmrn.

Hæstv. forseti. Ef við miðum við að núv. forstöðumaður verði áfram forstöðumaður er kostnaðurinn við frv. ekki annar en sá að launamunur er á milli starfs dósents og prófessors og mun hann ekki ýkja mikill eins og kunnugt er. Það er samdóma álit Nd.-nefndarinnar og rn. svo og þeirra sem að frv. þessu standa að mikilvægt sé fyrir þessa starfsemi til að tryggja tilvist hennar í framtíðinni að þetta nái fram að ganga nú og ég treysti því að hv. n. sýni því skilning og greiði fyrir því að málið fái samþykki hér í þessari hv. deild.