19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6380 í B-deild Alþingistíðinda. (5899)

111. mál, áfengt öl

Frsm. 2. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. allshn. og mælir hann með því að þáltill. verði samþykkt með breytingum sem fram koma á þskj. 1003 þar sem um er að ræða ákveðnar orðalagsbreytingar og nánari skilgreiningu á því hvaða atriði í raun og veru er verið að fjalla um í spurningunni um heimild til sölu og framleiðslu áfengs öls. Það er nú einu sinni þannig að bjór er ekki bara bjór, hann er áfengi, að vísu það veikasta, en hann ber að skoða í samhengi við áfengi almennt eins og við köllum það gjarnan, áfengismál.

Þótt áfengi sé viðurkenndur vímugjafi hér á landi hefur fólk ekki átt þess kost hingað til að kjósa stjórnmálahreyfingar með tilliti til þess málaflokks. Að mér vitandi hefur engin stjórnmálahreyfing yfirlýsta almenna stefnu í áfengismálum. Menn hafa sýnt ákveðnar tilhneigingar til þess að koma slíkri stefnu fram í þingi með því að þing reyni að verða sjálfu sér sammála um einhverja stefnu í þessum málum, en það hefur ekki tekist sem skyldi allavega hingað til. Þar af leiðandi hafa kjósendur aldrei kosið um þessa hluti.

Það er sitt hvað að kjósa um bjór eða kjósa um stefnu í áfengismálum. Það er að mínu mati nánast siðferðileg skylda Alþingis að kanna vilja þjóðarinnar í jafn þýðingarmiklu máli sem áfengismál eru almennt. Það getur í raun og veru ekki talist annað en eðlilegt að 60 þjóðkjörnir fulltrúar geri sér skýra mynd af því hver er vilji atkvæðisbærra kjósenda. Þessir kjósendur geta skoðast vegna fjölda síns sem fulltrúar nær hverrar einustu fjölskyldu á landinu.

Menn greinir á um það hvenær beita skuli almennri atkvæðagreiðslu til að kanna vilja fólks. En almennt vega menn slíkar kosningar og meta eftir því hversu málefnið snertir fólkið náið. Hvað formið snertir, þá er það ekki alveg rétt, sem hv. ræðumaður hér á undan mér hélt fram, að hér hafi ekki farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla síðan lýðveldið var stofnað. Forsetar eru í raun og veru kjörnir í þjóðaratkvgr. því að munurinn á henni og kosningum til þings liggur í jöfnu atkvæðavægi.

Það eru fá mál sem snerta fjölskyldulíf jafnnáið og áfengismál. Þess vegna hefur sú hefð mótast hér á landi, t. d. í sveitarfélögum, að þegar taka skal ákvörðun um það hvort opna skuli áfengisútsölu er leitað samþykkis eða synjunar íbúa viðkomandi sveitarfélags og þegar stórar breytingar hafa verið gerðar á stefnu í áfengismálum hér á landi hefur líka verið leitað álits þjóðarinnar á slíkum athöfnum. Þau fordæmi þekkja allir. Okkur fannst eðlilegra að láta það koma fram í till. með hvaða hætti ætti að selja eða dreifa áfengu öli og hver styrkleiki þess ætti að vera. Þess vegna leggjum við til að spurningin, sem borin verði upp í þessari almennu atkvæðagreiðslu, taki mið af þessum skilyrðum. Þau koma fram, eins og ég sagði, á þskj. 1003.

Bjór er áfengi og áfengi er ekki selt hér á landi annars staðar en í útsölum ÁTVR og á vínveitingahúsum. Að leggja til annan dreifingarmáta á bjór en öðru áfengi væri að rugla saman tveimur mjög óskyldum atriðum.

Annars vegar því atriði hvort fólk vill breyta því ástandi sem nú ríkir í áfengismálum, þ. e. leyfa að drekka hið sterkasta áfengi eins og gert er í dag en banna það veikasta nema þá kannske aðeins ákveðnum sérréttindahópum, og hins vegar þeirri spurningu hvort breyta ætti þeim dreifingaraðferðum sem viðhafðar hafa verið við sölu áfengis hérna um áratuga skeið. Við, sem stöndum að 2. minnihlutaáliti, töldum það ekki nauðsynlegt.

Komið hafa fram gagnrýnisraddir sem telja að þm. vilji ekki eða þori ekki að taka afstöðu til áfengismála á Íslandi. Sumir gengu meira að segja svo langt að þeir töluðu um að menn yrðu að hafa burði til að berjast á móti straumnum og hafa vit fyrir fólki. Það að þm. þori ekki að taka afstöðu til bjórmálsins tel ég reyndar vera alrangt og reyndar mjög útbreiddan misskilning. Flestir ef ekki allir þm. hafa lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir að taka afstöðu til spurningarinnar um það hvort heimila eigi frjálsa sölu og framleiðslu áfengs öls. Þetta er ekki spurning um það hvort menn þori eða hafi hugrekki. Ég held að það hafi eiginlega aldrei verið þannig að hetjur hafi endilega verið kosnar hér á þing. Þetta er spurningin um það hvort menn telji sig hafa umboð til að taka þessa ákvörðun, jafnalvarleg og hún er, án þess að hafa kynnt sér vilja þjóðarinnar. Alþm. bera ábyrgð á lögum og leikreglum en ekki mönnum. Þar sem einstaklings- og valfrelsi ríkir ber einstaklingurinn endanlega ábyrgð á eigin gerðum svo fremi sem hann hefur rétt til þess að velja og hafna.