21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6495 í B-deild Alþingistíðinda. (6008)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég mun ekki verða langorð. En það er með þetta mál sem hér er til umr. eins og mörg önnur hér í þinglok. Málið er margslungið og grípur víða inn í kerfið. Enn fremur á það sér forsögu. Þó ekki væri nema vegna þessara ástæðna væri brýn þörf til að kynna sér það vel og hafa tíma til að gaumgæfa það, síðan að meta hvort réttmætt sé að afgreiða málið á þann veg sem stjórnin gerir till. um. En nú gefst enginn tími, því að nú á bara að afgreiða hratt og vel, og einu gildir um athygli og vandvirkni og alúð. Þessi vinnubrögð eru ekki nógu góð og það vita allir hv. þm. En þeir eru orðnir þessu vanir, taka því eins og hverju öðru hundsbiti í þingmannabransanum, finnst kannske svolítið gaman að vertíðarstemningunni, hasarnum, sem fylgir síðustu togstreitu stjórnar og stjórnarandstöðu. En hvers vegna er þessi togstreita svona sýnileg rétt fyrir þinghlé eða þinglok? Skyldi það vera vegna þess að lýðræðisleg og sanngirnisleg vinnubrögð eru ekki betri en svo, að eini möguleiki stjórnarandstöðu til að sýna vægi sitt og ná fram málum sínum er að mynda fyrirstöðu gegn framgangi stjórnarmála undir þinglok? Væri nú ekki betra að elska friðinn og sýna meiri sanngirni og ljúka málum á þingi með sátt og samlyndi? Væri ekki hægt að skipuleggja störf vetrarins betur, þannig að þessi fljótaskrift yrði úr sögunni? Þessi vinnubrögð eru hvorki sæmandi þm., málunum né heldur því umboði sem þm. eru kjörnir til að fara með.

Á þeim stutta tíma sem mér hefur gefist til að fjalla um það mál sem hér er til umr. hafa vaknað í huga mínum nokkrar spurningar. Vil ég bera þær fram hér til hæstv. fjmrh. Mér skilst að hér sé um að ræða aðgerðir til að bæta eiginfjárstöðu bankanna svo að þeir verði samkeppnisfærir á hinum harðskeytta fjármagnsmarkaði, bæði erlendis og innanlands. Jafnframt kom það fram hjá Jónasi Haralz bankastjóra á fundi í fjh.- og viðskn. Nd. í morgun að árið 1983 var verulega gott ár fyrir bankana, miðað við 1982, sem var slæmt ár. Nú er aftur fyrirsjáanlegt að bankarnir komast í klemmu á árinu 1984 vegna þess að mun meiri verðtrygging er á útlánum en innlánum bankanna. Þannig er því spáð að það sem græddist 1983 muni tapast bönkunum á árinu 1984. Og bankarnir óttast að eiginfjárstaða þeirra verði of veik og þeir muni ekki standa sig í samkeppninni og missa lánstraust. Þess vegna biðja þeir um lægri skatta.

En af því að það er víða pottur brotinn og fleiri hundar svartir en hundurinn prestsins, þá vil ég vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að eiginfjárstaða heimilanna er víða veik og þau óttast að þau muni ekki standa sig í samkeppninni og einnig að þau muni missa lánstraust. Og þau mundu vilja biðja um lægri skatta ef þau gætu.

Svo vitum við öll og höfum verið leidd til að sjá sólina skína gegnum götin á buddunni okkar allra, blessuðum ríkissjóði. Við vitum öll að eiginfjárstaða hans er ósköp veik. Hann hlýtur líka að óttast að hann muni ekki standa sig og missa það lánstraust sem hann hefur haft. Þarna eru sem sé þrír aðilar, bankarnir, heimilin og ríkissjóður. Allir eiga við sömu vandamál að stríða og vilja aðstoð og leiðréttingu mála sinna. En það er ekki hægt að hjálpa öllum, eða hvað? Allavega ekki í sömu andránni. En í ljósi þeirra dæma sem ég tók áðan af þjáningasystkinunum þremur, sem öll gera kröfu um aðstoð, langar mig að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvers er neyðin mest og hver getur beðið lengst eftir hjálp? Þannig verða heilbrigðisstarfsmenn nefnilega að hugsa þegar margir slasaðir sjúklingar berast en starfsliðið er fáskipað. Hvers vegna kennir hæstv. ráðh. mest í brjósti um bankana og hvers vegna rennur honum blóðið til skyldunnar heitast þangað? Hvers vegna mega bankarnir ekki bíða? Það er fyrsta spurningin.

Síðan langar mig að fjalla um ráðstöfun eiginfjár bankanna. Nú skilst mér að þegar metin er eiginfjárstaða bankanna þá sé dregin frá fjárfesting í fasteign og síðan metin lausafjárstaða sem nota má sem lánsfjártryggingu. Á fundi í fjh.- og viðskn. Nd. í morgun kom í ljós að hlutfallið milli fasteigna og lausafjárstöðu bankanna er óvenjuhátt hér á landi miðað við grannlönd okkar, svo hátt að víða er ekkert lausafé til í íslenskum bönkum og eiginfjárstaða neikvæð vegna mikillar fjárfestingar bankanna í fasteignum. Það er kannske varla nema von að bankarnir finni sig frjálsa til að byggja yfir sig því að lögin, sem ná yfir ráðstöfunarrétt bankanna á eigin fé, eru það rúm að þeir finna þar svigrúm til að gera það sem þeim sýnist í byggingarmálum. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh.: Er bönkunum treystandi fyrir auknu eigin fjármagni þegar litið er til þess hve lögin um ráðstöfun þess eru rúm og hve óspart bankarnir hafa varið fé sínu til byggingar glæsihúsnæðis fyrir sjálfa sig? Þurfum við ekki að fá ákveðnari lög um ráðstöfunarrétt yfir eiginfjármagni banka fyrst, til þess að tryggja þó ekki væri nema æskilegt ferli þess aukna fjár sem bönkum er ætlað til umráða? Væri það ekki eðlileg gætni í meðferð fjár? Þetta er önnur spurning mín.

Freistandi væri að skíða um það harðfenni og hjarn þar sem félagsmálunum er áætlaður framtíðarstaður, en þar hafa aðrir farið um víðan völl og lagt langar vegalengdir að baki í umr. hér á undan og því læt ég mér nægja að spyrja hæstv. fjmrh. einungis þessara tveggja spurninga nú.