21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6496 í B-deild Alþingistíðinda. (6009)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þau mál sem hér eru til umfjöllunar og menn ræða nú gjarnan bæði í einu taki, skattskyldu innlánsstofnana og það gjald sem rennur í ríkissjóð af gjaldeyrisviðskiptum bankanna, eru í rauninni tvíþætt. Annars vegar er verið að ræða um það með hvaða hætti skuli taka skatt af bönkunum. Það hefur verið í gildi eins konar veltuskattur, getum við sagt, á bönkunum. Það hefur verið lögð nokkur áhersla á það að breyta skattlagningunni yfir í form tekjuskatts og eignarskatts. Það er sjálfsagt álitamál hvort formið sé betra því að bankarnir falla í sjálfu sér ekkert sérlega vel að tekjuskattslöggjöfinni í landinu.

Því trúi ég að allir séu orðnir sammála um það núna að rétt sé að bankarnir og innlánsstofnanirnar greiði skatt eins og annar atvinnurekstur hér á landi.

Hitt málið er það að þau frv, sem uppi eru um þetta efni fela það í sér að tekjur ríkissjóðs af þessum skattstofnum stórskerðist ef þau yrðu að lögum. Hvaða skoðun sem menn hafa á því hvert skattformið skuli vera á bönkunum, þá er augljóst að nú árar ekki til þess að lækka skattlagningu þessara stofnana. Að því beinist auðvitað gagnrýnin fyrst og fremst á þessari stundu. Hvort sem menn telja rétt eða rangt að breyta skattlagningarforminu, þá er það augljóst og hlýtur að verða yfirgnæfandi röksemd í þessu máli núna að það ári ekki til þess, þegar ríkissjóður er rekinn með miklum halla og almenningur tekur á sig þungar byrðar bæði í kjaraskerðingu og skattlagningu, að lækka skattlagningu bankanna. Á þessum forsendum teljum við Alþfl. menn það með öllu óviðunandi að afgreiða þessi frumvörp um skattalagabreytingar eins og sakir standa af þeirri einföldu ástæðu að það er verið að létta byrðum af bönkunum á sama tíma og almenningur í landinu tekur á sig þungar byrðar.

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi fram við þessa 1. umr. um það mál sem hér er til umfjöllunar.