21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6522 í B-deild Alþingistíðinda. (6057)

252. mál, fjarskipti

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður sagði að eitthvert fólk úti í bæ hefði samið þetta frv. Þetta fólk úti í bæ var fyrrv. samgrh., Halldór E. Sigurðsson, sem var formaður nefndarinnar, ráðuneytisstjórinn í samgrn., Eiður Guðnason alþm., Guðjón Ingvi Stefánsson framkvæmdastjóri, Helgi Seljan alþm., hann er flokksbróðir hv. síðasta þm. og hann er maður úti í bæ, Jón Skúlason, hann er líka maður úti í bæ, póst- og símamálastjóri og Jón Sveinsson lögfræðingur og varaþm., hefur setið hér á þingi.

Þetta frv. var lagt fyrir snemma í vetur og er 252. mál, fékk ítarlega meðferð í Ed. og svo komum við að því. Kapalkerfið er að vísu ekki afgreitt, það er mjög ör framþróun í þeim málum. En hér er um stórkostlega breytingu að ræða í frjálsræðisátt, að gefa allan notendabúnaðinn frjálsan, sem þessi nefnd var sammála um og ég breytti ekki einum staf í frv. sem hún lagði til. Hins vegar lýsti ég því yfir í Ed. að ég tel fjarskiptamálin eða framþróun þeirra og kapalkerfin og fleira vera þess eðlis að í það þurfi nýja nefnd, en ég tel það illa farið ef þetta frv. fengi ekki afgreiðslu og það ætti að bíða jafnvel í nokkur ár eftir því að gera notendabúnaðinn frjálsan.

Þeir sem hér hafa tekið til máls hafa talað um að það væri allt of mikil einokun hjá Pósti og síma. Þegar verið er að gefa þar eftir og taka af Pósti og síma, þá virðast þeir ræðumenn sem hér hafa komið fram ekki hafa skilið hvað væri verið að gera og sagt: Við skulum bara bíða lengur og láta Póst og síma hafa alla einokun á meðan. Ég tel að umrædd nefnd hafi stigið mjög merkilegt skref í frjálsræðisátt og til móts við þann tíma sem við lifum á. Ég held að sú breyting sé fram undan að það komi fram nýjar tillögur og það verði skipuð ný nefnd til að fjalla um þau vandamál sem við blasa sem eru mörg. Þær aths. sem lesnar voru hér upp stafa fyrst og fremst af því að það vantaði í frv. atriði, sem ég átti hlutdeild að að samgn. Ed. bætti inn í og væru í frjálsræðisátt, þannig að hægt væri að ganga lengra en nefndin gengur. Það hefur enginn samgrh. notað sína heimild nema í þá átt að ganga lengra en einkaréttur Pósts og síma er. Allir ráðherrar hafa gengið nokkru lengra til þess að vera í takt til tímann. Ég álít því mjög nauðsynlegt að samþykkja þetta frv.