22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6566 í B-deild Alþingistíðinda. (6170)

368. mál, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti allshn. á þskj. 991, en eins og þar kemur fram er raunar um nýja sjálfstæða till. að ræða sem tekur á efni tveggja tillagna.

Í grg. segir: Nefndin hefur fjallað um 267. og 270. mál og orðið ósátt um að afgreiða bæði málin á þann hátt að hún flytur sjálfstæða till.

Fjarverandi þessa afgreiðslu í nefndinni var Þorsteinn Pálsson, en hann er samþykkur hinni nýju till. þannig að nefndin stendur öll að henni.

267. mál, sem vísað er til í grg., er till. Alþfl. um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum, en hún hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta semja frv. til l. um afnám tekjuskatts af launatekjum ásamt grg. og leggja það fyrir næsta löggjafarþing.“

270. mál, sem vísað er til í grg., er hins vegar till. Sjálfstfl. um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum sem hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að skora á fjmrh. að skipa nefnd þriggja manna til þess að gera tillögur um á hvern hátt hagræða megi og spara í rekstri ríkisins og ríkisstofnana með tilliti til þess að tekjuskattur verði afnuminn í áföngum á almennum launatekjum. Skulu tillögur nefndarinnar lagðar fyrir Alþingi í upphafi næsta þings.“

Hin nýja till., sem unnin er á grundvelli þessara tillagna, er svohljóðandi, en það er till. til þál. um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum frá allshn.:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að leggja fyrir næsta Alþingi till. um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum í áföngum og á hvern hátt megi breyta skattheimtu að öðru leyti og spara og hagræða í ríkisrekstrinum til að ná þessu markmiði án þess að minnka þjónustuna.“

Ég vil fagna þeirri samstöðu sem náðist í nefndinni um þessa till. og þar sem öll nefndin flytur þessa till. er óþarfi að hún fari til nefndar. Þeir sem standa að till. eru allshn.-menn Ólafur Þ. Þórðarson, Guðrún Helgadóttir, Eggert Haukdal, Guðmundur H. Garðarsson, Stefán Benediktsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Þorsteinn Pálsson.