14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil gjarnan leggja nokkur orð í belg um þau alvarlegu tíðindi sem hér eru rædd.

Það eru vissulega alvarleg tíðindi ein sér að vestur í Bandaríkjunum skuli menn vera að ráðskast svona með landið okkar án þess að hæstv. utanrrh. viti af því. En þetta eru í mínum huga enn þá alvarlegri tíðindi ef við skoðum þau í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í vígvæðingarmálum hér í kringum okkur síðustu árin og áratuginn. Það er nefnilega þannig, að margt smátt gerir eitt stórt og safnast þegar saman kemur.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. utanrrh. að það komi að hans dómi ekki til greina að slíkar flaugar verði settar hér upp, en ég vil taka það fram sem mína skoðun að ég er ekki sammála þeirri greiningu, sem hann hélt hér fram, að tilkoma slíkra eldflauga hefði breytt eðli herstöðvarinnar í Keflavík. Ég hefði talið það enn eina staðfestingu á því árásarhlutverki sem sú stöð nú þegar gegnir. Ég vil fara um það nokkrum orðum.

Þegar hingað komu ratsjárflugvélarnar voldugu sem AWACS nefnast vissu menn að vonum næsta lítið um þau tækniundur sem þar voru á ferðinni, en síðan hefur margt orðið ljósara um möguleika og hlutverk þeirra flugvéla jafnt í vörn og sókn. Ég vil taka nokkur dæmi um mátt þessara flugvéla, sem hér eru nú staðsettar og fljúga gjarnan yfir höfuðborgina á góðviðrisdögum.

Ein AWACS-þota getur uppgötvað, þekkt og fylgt eftir flugvél í allt að 400 km fjarlægð. Svo að dæmi sé tekið um mátt ratsjárstöðvarinnar við jörðu niður getur hún þekkt og elt bíl í 300 km fjarlægð frá þeim stað sem hún er uppi við. Ein einasta AWACS-þota getur þakið 390 þús. ferkm landsvæði, þegar hún er í háflugi, sem er fast að fjórum sinnum flatarmál Íslands. Til samanburðar getur lítil jarðradarstöð þakið um 10 þús. ferkm svæði. Heimurinn fékk áhrifamikla sönnun fyrir mætti þessara véla nóttina góðu sem Bandaríkin gerðu misheppnaða tilraun til að bjarga gíslum sínum í Íran. Þá voru AWACS-vélar á lofti yfir Miðausturlöndum og trufluðu svo allt fjarskipta- og ratsjárkerfi Írana að þeir vissu ekki hvað var að ske þá nótt. Það má segja að þeir hafi varla náð í síma milli húsa, svo öflugt er truflunarkerfi þessara véla þegar þær eru á lofti. Aðaláætlunin eins og hún kemur fyrir ætlar Bandaríkjamönnum 34 slíkar vélar. NATO-ríkin hafa fallist á að kaupa 18 stykki vegna mikils þrýstings frá Bandaríkjunum. Árið 1978 kostaði hver slík vél á annað hundrað millj. Bandaríkjadala.

Ég er þeirrar skoðunar að hlutverk AWACS-vélanna hér tengist áformum Bandaríkjamanna um vígbúnað, um sókn, um árásarstríð miklum mun fremur en einhverju sem heiti varnir Íslands. Það er alveg ljóst að það þarf ekki vél sem þekur 400 þús. ferkm svæði með radar sínum til þess að vakta hólmann okkar. Þar er eitthvað annað á ferðinni. Þess vegna segi ég það, að í mínum huga hefði það verið enn ein staðfestingin á því árásarhlutverki sem herstöðinni í Keflavík er ætlað hefði koma flauganna sem við ræðum nú verið boðuð. — Og ég minni á að slíkt er í raun ekki ný tíðindi fyrir þá sem með þessum málum fylgjast. Það hafa áður verið uppi áform um það og eru margar skýrslur á sveimi eins og hæstv. utanrrh. rakti hér. Eru á ferli úlfur og refur til að koma hér upp alls konar vígtólum.

Árið 1977 birtist í tímaritinu Aviation Week and Space Technology grein eftir C.A. Robinson jr., þar sem hann skýrir frá því að sérfræðingar bandaríska flotans hafi mjög hugleitt þann möguleika að koma fyrir árásarsveit F-14 árásarþotna á Keflavíkurflugvelli sem bera langdrægar Phoenix-eldflaugar og gætu grandað skipum í allt að 1000 km fjarlægð. Slík sveit hefði auðvitað átt að gegna sama hlutverki og þær eldflaugar sem hér er talað um, þ.e. að loka með eldflaugum sínum GIUK-hliðinu og jafnvel verja strendur Noregs allt norður undir norðurodda hans. Það er þess vegna ekkert nýtt að snillingarnir í Washington séu að gera sér mat úr kostalandinu Íslandi og bollaleggja möguleikana á að nota það í þessu gereyðingarstríði, óðs manns æði og mesta glæp mannkynssögunnar samanlagðrar. Eg held því að það sé nauðsynlegt að skoða þessa frétt, þó að því hafi hér verið neitað af hæstv. utanrrh. að til greina komi að setja slíkar flaugar upp. Ég held að það sé engu að síður rétt að skoða þessa frétt í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í herstöðinni í Keflavík og í öllum vígbúnaði í Norður-Atlantshafinu síðustu árin.

Ég vil fara hér með litla upptalningu á því hvað hefur skeð fyrir augunum á þjóðinni síðustu árin. Það hefur yfirleitt heitið eðlileg endurnýjun eða mengunarvarnir eða eitthvað þaðan af saklausara á máli þeirra manna sem ráðið hafa utanríkismálum þjóðarinnar. En hvað hefur verið að ske í reynd? Jú, það hefur verið endurnýjaður næstum því allur búnaður herstöðvanna í Keflavík og á Stokksnesi. Það hafa verið byggð sprengjuheld flugskýli fyrir endurnýjaðan flota árásarþotna, sem bera reyndar skammdrægar eldflaugar. Það hefur verið reist jarðstöð fyrir móttöku gervihnattasendinga. Síðan er það koma AWACS-vélanna, þessara fljúgandi stjórnstöðva í atómstríði. Voru það ekki nokkur tíðindi? Svo er það bygging olíubirgðastöðvar og flotahafnar í Helguvík. Það hét, eins og ég rakti áðan, mengunarvarnir á máli ráðamanna. Talað hefur verið um byggingu herflugvallar á Norðurlandi og við höfum frétt af ratsjárstöðvum, sem væntanlega verða ræddar í fsp.-tíma í Sþ. á morgun. Auk þessa eru áætlanir bandarískra sérfræðinga um að staðsetja hér orrustuflugvélasveit á vegum sjóhersins, sem bæri langdrægar Phoenix-eldflaugar, og fleira mætti tína til af þeirri gagngerðu endurnýjun sem hefur verið í vígbúnaðarmálum á Íslandi og í hafinu í kringum okkur. Þetta mætti einnig tengja endurnýjun stöðva Bandaríkjahers í Færeyjum og á Grænlandi. Það mætti tengja þetta vaxandi umferð kjarnorkukafbáta í kringum Ísland og það mætti tengja þetta vaxandi alhliða áherslu Bandaríkjastjórnar á að færa vígbúnaðinn úr eigin landi til annarra.

Evrópuríkin og Ísland meðtalið ættu held ég að hugleiða fyrst og fremst að það er verið að flytja stríðsvettvanginn frá Bandaríkjum Norður-Ameríku og öllu meginlandi Ameríku yfir í Evrópu og yfir á hafið umhverfis Ísland. Það eru váleg tíðindi fyrir eyþjóð eins og okkur Íslendinga.