15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Árni Johnsen:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að skjóta hér inn upplýsingum sem skýra nokkuð þá umr. sem hér hefur átt sér stað.

Það hefur orðið mikil breyting á ferðum rússneskra herflugvéla við Ísland á undanförnum árum, sem kemur til af því að þær vélar sem hafa flogið um lofthelgi Íslands eða við hana eru mun langfleygari nú en þær voru fyrir fáum árum. Hér er um að ræða herflugvélar sem hafa komið til landsins í tvennum tilgangi: til að fylgjast að einhverju leyti með í lofthelgi Íslands og njósna, í öðru lagi er um að ræða vélar á leið til Kúbu.

Herflugvélar frá Kólaskaga til Kúbu fóru fyrir nokkrum árum yfir hafið milli Íslands og Skotlands, en með langfleygari flugvélum beinist þessi umferð æ vestar og norðar og nú fljúga þessar vélar milli Íslands og Grænlands. Það er þess vegna sem nú er mun erfiðara fyrir eftirlitsstöðvar á Íslandi að fylgjast með þessari umferð-flugumferð rússneskra herflugvéla. Á s.l. ári voru varnarliðseftirlitsflugvélar á Keflavíkurflugvelli kallaðar út 150 sinnum til að fljúga á móti sovéskum herflugvélum við lofthelgi Íslands. Þetta er flugfloti sem skiptir hundruðum véla en útköllin eru 150 á s.l. ári. Það er þess vegna ástæða til að taka undir þegar stefnt er að því að Íslendingar sjálfir auki sinn hlut og sína vinnu við eftirlit í lofthelgi og landhelgi landsins. Þarna er um að ræða þróun sem hefur breyst og bregðast þarf við.

Það hefur verið lögð aukin áhersla á það að því er virðist af hálfu sovéskra yfirvalda að auka þátt herflugvéla um okkar landsvæði. Hefur þar orðið sú breyting á að fyrir nokkrum árum var meginþunginn lagður á hernaðarumsvif í sjó. Nú er við annað að kljást. Þetta skýrir nokkuð það sem um er að ræða í þessari stöðu, þennan aukna þunga í ferðum herflugvéla í og við lofthelgi Íslands, 150 útköll á einu ári.