15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að vekja athygli á útúrsnúningum hv. þm. sem hér hafa talað, hv. 8. þm. Reykv. Stefáns Benediktssonar, þm. BJ, og hv. 11. þm. Reykv. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, en þau lögðu þannig út af mínum orðum, þegar ég sagði að ég vildi helst ekki hugsa til þess að til styrjaldarátaka mundi koma, að ég hugsaði ekki fyrir þeim möguleika. Auðvitað geri ég það. Menn verða að gera ýmislegt sem þeir vilja helst ekki þurfa að gera.

Mér þykir sérstaklega vænt um að talsmenn BJ og Kvennalistans skuli þó sýna það raunsæi að ræða um hvernig við skuli bregðast ef til voðaatburðar kæmi eins og ófriðar. En umfram allt vonast ég til að talsmenn þessara tveggja þingflokka séu reiðubúnir að gera þær ráðstafanir á Íslandi sem til þess séu fallnar að koma í veg fyrir að til ófriðar dragi. Það er meginmarkmið varnarviðbúnaðar á Íslandi.