15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

56. mál, norrænt sjónvarpssamstarf

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Hér hefur verið hreyft hinu merkasta máli og ástæða er til að þakka hæstv. menntmrh. fyrir glögg og góð svör við fsp. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Það sem um er að ræða hér er það að Ísland gangi inn á þjóðbraut í menningarlegum og tæknilegum samskiptum Evrópuþjóðanna í sjónvarpsefnum. Við þekkjum það þegar af hinum örstuttu fréttasendingum daglega, sem berast okkur beint, hve mikils virði og hve mikill ávinningur er af slíku beinu sjónvarpssambandi.

Hér er um að ræða spurninguna um þá möguleika sem fram undan eru á næstu árum í þessum efnum. Þeir eru fyrst og fremst þrír. Ráðh. gerði hér grein fyrir Nordsat-samstarfinu. Það er ljóst að Tele-x-sambandið hentar okkur tæpast, er ófullnægjandi, enda hefur það í raun verið afþakkað eins og fram kom hér í máti ráðh. Það er gert ráð fyrir að Nordsat-sjónvarpshnötturinn sjálfur komist á loft 1988–1989 en lokaákvörðun hefur ekki verið um það tekin. Kosturinn við þann sjónvarpshnött er að unnt er að nema frá honum beinar sendingar.

Annar kosturinn sem rétt er að nefna hér og ég held að sé ástæða til að gefa gaum að og undirstrika sérstaklega er breski sjónvarpshnötturinn. Að honum standa BBC, breska sjónvarpsstöðin, símamálastjórnin enska og nokkrir aðrir aðilar. Sá hnöttur mun koma hér á sporbaug 1986-1987. Það er skemmra í hann en Nordsat ef af Nordsat verður. Sendingar frá honum munu sjást á suðaustanverðu Íslandi en það þarf að byggja loftnet sem er 3–4 metrar í þvermál hér í Reykjavík og á þessu svæði þannig að móttökustöð þyrfti að reisa. Hún kostar samkv. upplýsingum frá símamálastjórn, sem ég hef aflað mér, í dag 2–3 millj. kr. sjónvarpað verður á fveimur rásum, önnur úrval úr dagskrám BBC, hin úrval úr dagskrám þeirra sjónvarpsstöðva sem senda út efni gegn greiðslu. Leggja þyrfti kapalkerfi, ef slík stöð yrði byggð fyrir móttökur frá breska sjónvarpshnettinum.

Þriðji kosturinn, sem kannske er merkilegastur og sá sem telja mætti e.t.v. girnilegastan fyrir Íslendinga, er Eutelsat-hnötturinn sem menntmrh. vék að. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máti mínu. — Þar er um að ræða sendingar allra eða flestra Evrópuríkja sem mundu sjást hér. Byggja þyrfti móttökustöð sem aðeins kostar þó 6–8 millj. Ef byggð yrði stærri stöð svipuð og Skyggnir mundi sú stöð geta annast símaþjónustu Íslands við umheiminn til viðbótar við Skyggni. Samningurinn um sæstrenginn rennur út í lok ársins 1985 svo að hér er kannske um vænlegasta kostinn að ræða og jafnframt þann sem gefur möguleika á flestum dagskrám.