15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

66. mál, frestun Suðurlínu

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Nú vantar aðeins herslumun á að lokið sé hringtengingu byggðalína svokallaðra, það er 132 kw stofnlína, um landið. Vestfirðir eru að vísu undanskildir frá þeirri hringtengingu, en eru þó í tengslum við byggðalínukerfið.

Síðasti áfanginn í lagningu þessara lína, sem byrjað var á með ákvörðun um lagningu Norðurlínu fyrir 10 árum, er tenging Suðurlínu milli Hafnar í Hornafirði og Sigöldu. Hún er eins og fyrri áfangar mikið mannvirki, 250 km löng og liggur um sanda og að fjallabaki. Mælingum vegna línunnar og hönnun hennar var lokið á árinu 1982 með það að markmiði að unnt yrði að tengja hana og loka byggðalínuhringnum haustið 1983 eða um þetta leyti núverandi árs. Í samræmi við það veittu stjórnvöld Rafmagnsveitum ríkisins sem framkvæmdaaðila heimild til þess á árinu 1982 að panta allt efni til línunnar.

Á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ársins 1983 var gert ráð fyrir 160 millj. kr. til verksins. Kostnaðaráætlun Landsvirkjunar nam mun hærri upphæð eða 285 millj. kr. Málið var rætt í ríkisstj. og við forsvarsmenn Landsvirkjunar í mars og apríl s.l., þar sem leitað var leiða til viðbótarfjármögnunar, þannig að unnt væri að ljúka tengingu Suðurlínu í ár. Niðurstaða þeirra athugana kom fram í bréfi fjmrn. til Landsvirkjunar, dags. 13. maí 1983, og ég ætla að vitna til þess herra forseti, en það bréf er svohljóðandi:

„Á fundi sínum 28. apríl s.l samþykkti ríkisstjórnin að heimila Landsvirkjun að taka lán að upphæð 100 millj. kr. til að unnt sé að halda áfram lagningu Suðurlínu og ljúka sem fyrst hringtengingu raforkukerfisins. Um yrði að ræða skammtímalán sem breytt yrði í lán til lengri tíma með heimild í fjárlögum eða lánsfjárlögum næsta árs. Fjmrn. telur að til greina komi að Rafmagnsveitur ríkisins taki lán til ofannefndrar framkvæmdar sjái þær um línulögnina.

Fyrir hönd ráðh.

Höskuldur Jónsson.“

Þannig lá fyrir heimild ríkisstj. og fjármálayfirvalda til nauðsynlegrar lántöku til að ljúka tengingu línunnar í ár.

Við stjórnarskipti var málið í athugun á þessum grundvelli hjá Landsvirkjun. Ríkisstj. sem mynduð var 26. maí s.l hafði hins vegar ekki setið á stólum nema í fáa daga þegar Sverrir Hermannsson hæstv. iðnrh. ákvað að afturkalla heimild þá sem ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens hafði veitt til viðbótarlántöku til að ljúka Suðurlínu. Tilkynnti hann þetta á ríkisstjórnarfundi 31. maí s.l., að sögn Morgunblaðsins daginn eftir, og segir í viðtali hans við Morgunblaðið 1. júní s.l eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir að Alþingi ákvað að skera framkvæmdirnar við Suðurlínu niður þetta mikið hófst fráfarandi ríkisstj. handa um að athuga með útvegun fjármagns og það lá fyrir í iðnrn. ákvörðun þess efnis að taka að láni allt að 100 millj. kr. í þessu skyni. Ég hef nú ekki hugsað mér að hefjast þannig handa. Það eru ekki heimildir fyrir þessu og Alþingi hefur tekið sínar ákvarðanir. Þess vegna er það ákvörðun mín að stöðva þetta, en Suðurlína verður forgangsverkefni til lúkningar á næsta ári. Auðvitað er öryggisatriði að tengja þetta, en ekki svo að það verði ekki að víkja í þessari fjárhagsstöðu okkar.“

Ákvörðun ráðh. um frestun þessarar framkvæmdar í ár vakti furðu margra, en í ljósi skýlausrar yfirlýsingar ráðherrans um að lúkning línunnar yrði forgangsverkefni á árinu 1984 munu margir hafa dregið við sig að átelja opinberlega þessa ákvörðun ráðh. Nú liggur það hins vegar fyrir mót vonum að samkvæmt fjárfestingar og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir 1984 er ekki gert ráð fyrir neinum framkvæmdum við Suðurlínu á næsta ári, þrátt fyrir svardaga hæstv. ráðh. um hið gagnstæða. Því spyr ég hæstv. iðnrh.:

„1. Hvaða ástæður liggja að baki áformum ríkisstj. um að fresta því að ljúka við Suðurlínu þar til á árinu 1985?

2. Hvaða fjárhagsleg rök mæla með þeirri frestun?

3. Hvert er öryggi í afhendingu á raforku til notenda á Austurtandi á árinu 1984 og 1985 að mati Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins ef tengingu Suðurlínu verður enn frestað?"