15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

392. mál, Þormóður rammi

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Að vísu vék hann lítið að þeim atriðum í þjóðhagsáætlun sem ég minntist á, en það kom þó að nokkru leyti í ljós skoðun hans í svari þessu.

Ég hef spurt hæstv. fjmrh. nokkurn veginn samhljóða spurningar. Hann svaraði, ef ég fer efnislega rétt með, á þann hátt að hann mundi ekki beita sér fyrir ívilnandi aðgerðum í þágu viðkomandi fyrirtækis.

Ég bið hæstv. forsrh. líka að taka til greina að í mínu máli kom ekki fram neinn dómur um þá aðgerð sem hér er um að ræða. Ég er ekki að mæla því í mót að það geti verið gagnlegt og jafnvel rétt að ríkissjóður horfi til sinnar ábyrgðar sem hluthafi í þessu fyrirtæki og auki hlutafé sitt þar. Ég er bara að benda á að slík aðgerð hefur ákveðnar afleiðingar, sem ekki er hægt að horfa fram hjá, m.a. verður hún að ákveðnu fordæmi fyrir hugsanlegar og áframhaldandi aðgerðir á öðrum sviðum um landið allt. Ég geri mér líka alveg ljóst að heimilin á Siglufirði eru jafnviðkvæm fyrir öllum sveiflum efnahagslífsins og önnur heimili á landinu öllu og þegar þarna er um að ræða einn aðila, sem að mestu leyti heldur uppi atvinnulífi á staðnum og sem ríkissjóður er eigandi að, þá eykst ábyrgð hans öllu meira en ella.

Ég þakka hæstv. ráðh. aftur fyrir svörin og við sjáum svo hver framvinda málsins verður með till. hæstv. fjmrh.