16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Magnús H. Magnússon:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. kemur auðvitað að því fyrr eða síðar að fella verði þetta gjald niður. Ég álít ekki að það sé ósanngjarnara en margir aðrir skattar, en það er leiðinlegt gjald, ég viðurkenni það. En eins og málin standa núna, eins og núna er ástatt í þjóðfélaginu, liggur miklu meira á öðrum skattalækkunum en þessum. Það liggur miklu meira á því að lækka skatta sem leggjast af fullum þunga á láglaunafólk — fólk sem lætur sig ekki einu sinni dreyma um utanlandsferðir og hefur því ekkert gagn af þessari skattalækkun.

Hæstv. fjmrh. sagði að það mætti ekki hundelta menn til útlanda með 10% skatti. Það er kannske rétt, en við erum hundeltir um allt land, hvort sem það er til Akureyrar, Kópaskers eða Vestfjarða eða hvert sem er, því að alls staðar borgum við söluskatt og við borgum alls konar aðflutningsgjöld og skatta. Ég sé ekki að það sé neitt skemmtilegra.

Ég tel að þessi skattur hafi átt að falla niður af ýmsum ástæðum, en eins og málin standa í dag hefði legið miklu meira á öðrum skattalækkunum.