21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram, sem á að vera óþarfi, að aldrei hef ég saknað vinar míns. Guðmundar J. Guðmundssonar meira en í dag. En til að það fari ekkert á milli mála hvort ég er í læri hjá hæstv. viðskrh. eða ekki, þá vil ég segja að ég er það og hjá öllum ráðherrum sem hafa meiri reynslu en ég í ráðherrastól og skammast mín ekkert fyrir það. Það er vegna þess að ég er að reyna að komast eins fljótt og ég get inn í það starf sem mér hefur verið trúað fyrir og tel mig læra mikið af þeim sem hafa gengt ráðherraembættum áður. Þannig að þó að það hafi verið sagt í niðrandi merkingu, þá skammast ég mín ekki fyrir það.

En til þess að veita hv. þm. þær upplýsingar sem verið er að sækjast eftir, þá er þess að geta að bréf frá Seðlabankanum til mín hef ég ekki með mér, af því ég átti ekki von á því að þurfa að standa í þessum umr. hér og nú. Aftur á móti hafði hæstv. viðskrh. í sínum fórum afrit af þeim bréfum, og ég vitnaði í þau áðan og ætla að leyfa mér að lesa þau upp En áður en ég geri það get ég upplýst virðulegan þm. Ólaf Ragnar Grímsson um það að það fór ekki fram atkvgr. í ríkisstj. og það er ekkert óvenjulegt. Hitt er annað mál að ég var andvígur þessu framlagi og ég gerði athugasemd við það í ríkisstj. Það var af vissum ókunnugleika því ég þekkti málið þá ekki eins vel og ég geri nú eftir að hafa kynnt mér það og lestið þessi sömu lög. Hefði hv. þm. lesið þau svolítið lengra hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að Seðlabankinn hefur yfirtekið stöðu ríkissjóðs, má segja, við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og er ábyrgur fyrir þeim framlögum sem þangað fara, en þau fara ekki beint úr ríkissjóði. En til þess að sannfæra mig um það að ég hafi myndað mér ranga skoðun, byggða á röngum upplýsingum, sem ég hafði, tel ég sjálfsagt og mannlegt, þegar maður fær betri upplýsingar, að menn breyti þá um skoðun en sitji ekki eins og tréhestur í villu. Og til þess að sýna fram á að ég hafi skipt um skoðun og að það væri rétt að ríkissjóður hefði engan kostnað af þessu framlagi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bað ég Seðlabankastjóra að staðfesta það bréflega. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þau upp. Þau eru dagsett 18. nóv. og eru tvö. Fyrra bréfið er svohljóðandi:

„Til Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra frá Jóhannesi Nordal.

Efni: Aukning á kvóta Íslands í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í framhaldi af samtali okkar fyrr í dag get ég staðfest að ekki er þörf á neinu framlagi frá ríkissjóði vegna fyrirhugaðrar hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og jafnframt að ekki muni af henni leiða hækkun á erlendum skuldum landsins. Seðlabankinn, sem er lögum samkv. hinn fjárhagslegi aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, mun eins og ætíð áður þegar kvótinn hefur verið hækkaður færa fé sem svarar 1/4 af aukningunni af öðrum innistæðureikningum sínum erlendis á innistæðureikning í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Tilfærsla þessi veldur því ekki rýrnun á gjaldeyrisstöðu landsins, enda er fé þetta til ráðstöfunar fyrir Seðlabankann fyrirvaralaust þegar á þarf að halda. Á móti 1/4 hlutum kvótaaukningarinnar eignast gjaldeyrissjóðurinn innistæðu í íslenskum krónum í Seðlabankanum. án þess að nokkur greiðsla eigi sér stað. Með kvótaaukningunni aukast lántökumöguleikar Íslands verulega í hinum ýmsu lánaflokkum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en þar er um að ræða hagstæðustu gjaldeyrislán sem völ er á.“

Ég bað um frekari skýringar frá Seðlabanka og seinni part sama dags, 18. nóv., fékk ég til viðbótar svohljóðandi bréf:

„Til Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra frá Jóhannesi Nordal.

Efni: Aukning á kvóta Íslands í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í framhaldi af orðsendingu minni í dag vil ég taka fram að það fyrirkomulag sem er á greiðslu framlagsfjár til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tryggir að enginn kostnaður mun falla á ríkissjóð nú eða síðar af þeirri aukningu kvóta Íslands sem nú er fyrirhuguð. Ákvörðun um kvótaaukningu mun því engin áhrif hafa á útgjöld ríkissjóðs þegar kvótaaukningin fer fram né á komandi árum.“

Ég held að þetta svari því sem virðulegir þm. Alþb., 3. þm. Reykv. og Ólafur Ragnar Grímsson, hafa komið hér fram með. Vona ég að þetta svari þeirra spurningum og rói þá, hjálpi þeim til að komast svolítið niður eftir þennan baráttufund sem þeir eru nýbúnir að hafa innan flokksins, innan bandalagsins. En ég verð að segja að það hlýtur að fara að verða skemmtilegra á þingi úr því að vinur minn ágætur, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, er kominn aftur, og ég ítreka það að ég sakna Guðmundar J. Guðmundssonar.