22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

94. mál, samstarfsnefnd um iðnráðgjöf

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Hvert er starfssvið samstarfsnefndar um iðnráðgjöf í landshlutum og að hvaða verkefnum hefur hún unnið?“

Samstarfsnefnd um iðnráðgjöf í landshlutum var skipuð með bréfi iðnrn. hinn 18. maí 1982. Nefndinni var falið að hafa með höndum tvö verkefni. Í fyrsta lagi samræmingu á störfum iðnráðgjafa í landshlutum og í öðru lagi stýringu á verkefni um stofnun og þróun smáfyrirtækja. Nefndin mun innan skamms senda frá sér áfangaskýrslu um störf sín. Þeirri skýrslu mun verða dreift hér á hinu háa Alþingi.

Skipun samstarfsnefndar um iðnráðgjöf er liður í því að tryggja framkvæmd 4. gr. laga nr. 86 1981 um iðnráðgjafa. Starfssvið nefndarinnar markast því að verulegu leyti af ákvæðum þessarar lagagreinar en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggð skulu tengsl iðnráðgjafa við tækni- og þjónustustofnanir og samtök iðnaðarins og störf þeirra samræmd, undir forystu Iðntæknistofnunar, með hliðsjón af stefnumörkun um iðnþróun og þeim aðgerðum sem unnið er að á hverjum tíma.“

Fram fóru á sínum tíma viðræður milli iðnrn. og Iðntæknistofnunar um tilhögun þessa samræmingarstarfs. Mælti Iðntæknistofnun með því að sett yrði á laggirnar stjórnskipuð nefnd til að hafa umsjón með þessu starfi og koma á framfæri hugmyndum um skipan nefndarinnar. Framkvæmdastjóri þróunardeildar Iðntæknistofnunar er nú formaður samstarfsnefndar um iðnráðgjöf í landshlutum og starfsmaður nefndarinnar hefur aðsetur hjá Iðntæknistofnun. Óhætt er að fullyrða að reynslan hafi þegar staðfest hve mikilvægt það er fyrir framkvæmd laga um iðnráðgjafa að fyrir hendi sé sú aðstoð og þjónusta sem Iðntæknistofnun sér um. Samstarfsnefndin hefur beitt sér fyrir fundum með iðnráðgjöfum og hafa fimm slíkir fundir verið haldnir frá því að nefndin var skipuð.

Samstarfsnefndin hefur hvatt til umr. um myndun iðnþróunarfélaga í landshlutunum og veitt upplýsingar um aðstoð í því sambandi. Þá hafa fulltrúar úr nefndinni sótt fundi fjórðungssambanda sveitarfélaga þar sem rætt hefur verið um iðnráðgjöf og stofnun iðnþróunarfélaga og svæðisbundinna iðnþróunarsjóða.

Varðandi verkefnið um stofnun og þróun smáfyrirtækja er það að segja að þessu verkefni lauk nú í haust og hafði þá staðið yfir í rúmt ár. Hugmyndin um þetta verkefni var fyrr í tengslum við iðnráðgjafastarfsemina. Nefndinni var eins og áður er getið falið að hafa umsjón með verkefninu. Það var hennar fyrsta verk að kanna með hvaða hætti verkefnið gæti orðið til að efla iðnþróun í landshlutunum og iðnráðgjafastarfsemina. Þannig beitti nefndin sér fyrir því að iðnráðgjafarnir gætu fylgst með og tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd verkefnisins. Tveir iðnráðgjafar voru leiðbeinendur við verkefnið og starfsmaður verkefnisins var verkefnisstjóri. Markmið smáfyrirtækjaverkefnisins var að aðstoða einstaklinga sem bjuggu yfir hugmyndum um nýja atvinnustarfsemi eða úrbætur í starfandi fyrirtækjum við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Aðstoðin var fyrst og fremst hjálp til sjálfshjálpar og fólst í skipulegri fræðslu og vinnufundum sem dreift var á eitt ár. Mikill áhugi var fyrir verkefninu, um 80 manns sóttu eftir þátttöku en úr þeim hópi voru valdir 22 þátttakendur víðs vegar að af landinu. Stór hluti þessa hóps hefur farið af stað með nýja atvinnustarfsemi eða úrbætur í rekstri.

Samstarfsnefnd um iðnráðgjöf stóð fyrir norrænni ráðstefnu í Borgarnesi 28.–30. ágúst s.l. Ráðstefnuna sóttu u.þ.b. 45 manns, þar af um 20 erlendir fulltrúar frá stofnunum annars staðar á Norðurlöndum sem fást við iðnþróun og ráðgjöf í strjálbýli. Á ráðstefnunni var fjallað um iðnþróun í strjálbýli og skipst á skoðunum um hvernig staðið er að þessum málum á Norðurlöndum. Iðnráðgjafar í landshlutunum tóku þátt í ráðstefnunni svo og fulltrúar úr samstarfsnefndinni. Líkur eru á því að ráðstefnan muni leiða til áframhaldandi samvinnu Norðurlanda á þessu sviði.

Þá gekkst n. fyrir eins dags ráðstefnu á Þingvöllum 2. sept. s.l. með stjórnmála- og embættismönnum og fulltrúum nokkurra samtaka í atvinnulífi. Efni ráðstefnunnar var: Nýjar leiðir í atvinnu-, efnahags- og byggðaþróun.

Þá er spurt í öðru lagi: Hverjir sitja í nefndinni og hverjir eru starfsmenn hennar? Í samstarfsnefnd um iðnþróun í landshlutunum eiga eftirtaldir menn sæti: Frá Iðntæknistofnun Íslands Hörður Jónsson framkvæmdastjóri formaður n., frá Framkvæmdastofnun ríkisins Sigurður G. Þorsteinsson landfræðingur, frá iðnrn. Gunnar Guttormsson deildarstjóri, frá Rannsóknaráði ríkisins Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri. Starfsmaður n. er Halldór Árnason hagfræðingur. Verksvið hans er dagleg umsýsla vegna ákvæða 4. gr. l., þ.e. að sjá um tengsl við iðnráðgjafana.