22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

400. mál, bankaútibú

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina fsp. til viðskrh. um bankaútibú, sem fram kemur á þskj. 85.

1. og 2. tölul. fjalla um hver sé rekstrar- og stofnkostnaður 11 nýrra bankaútibúa. 3. tölul. fjallar um hvort viðskrh. sé reiðubúinn að beita sér fyrir að afturkölluð verði leyfi til þessara bankaútibúa, ef starfsemi þeirra er ekki hafin, og í b-lið að áætlað fjármagn, sem renna á til stofnunar þessara útibúa, verði þess í stað varið til fyrirgreiðslu úr bankakerfinu til húsbyggjenda og íbúðarkaupenda.

Að hluta til svaraði hæstv. viðskrh. þeirri spurningu sem fram kemur í tölul. 3 um afturköllun leyfa, í síðustu viku vegna fsp. frá hv. þm. Stefáni Benediktssyni. Fsp. Stefáns Benediktssonar um hvort viðskrh. hygðist beita sér fyrir endurskoðun á heimildum fyrrv. ríkisstj. til að opna 11 ný bankaútibú svaraði hæstv. viðskrh. þá orðrétt eftir handriti, með leyfi forseta:

„Þessi útibú hófu starfsemi vegna yfirtöku banka á starfandi sparisjóðum. Starfsemi þeirra er því í fullum gangi eins og var áður en leyfið var veitt.“

Hér tel ég að hallað sé réttu máli hjá hæstv. ráðh. því að það er aðeins í tveim tilfellum af þessum 11 sem um er að ræða yfirtöku banka á starfsemi sparisjóða. Í fyrsta lagi að Landsbankinn fékk heimild til að yfirtaka Sparisjóð Skagastrandar og í öðru lagi að Búnaðarbankinn fékk leyfi til að yfirtaka starfsemi Sparisjóðs Eyrarsveitar. Hinar níu heimildirnar eru vegna nýrra bankaútibúa og afgreiðslustofnana. Vænti ég að ráðh. leiðrétti mig, ef hann telur að ég fari ekki með rétt mál hér.

Ljóst virðist þó vera að mörg þessara 11 nýju bankaútibúa hafi hafið starfsemi sína og því erfitt um vik að afturkalla leyfin, enda lýtur fsp. mín aðeins að því að viðskrh. afturkalli leyfi til þeirra bankaútibúa, sem ekki hafa hafið starfsemi. Mér er kunnugt um að a.m.k. tvö, gætu verið fleiri, þessi útibú hafa ekki hafið framkvæmdir. Það eru Samvinnubankinn, sem fékk heimild til að byggja útibú á Ísafirði, og Sparisjóður Hafnarfjarðar sem fékk leyfi fyrir útibúi í suðurbæ Hafnarfjarðar.

Í svari hæstv. ráðh. í síðustu viku kom fram að ráðh. telur sig ekki hafa heimild til að afturkalla þessi leyfi þar sem stjórnvöldum sé það eigi í sjálfsvald sett hvort þau afturkalli að óbreyttum aðstæðum ívilnandi stjórnarathafnir nema slíkt sé heimilað í lögum. Því er nauðsynlegt að fá fram hjá ráðh., auk svara við því hver er stofn- og rekstrarkostnaður þessara 11 nýju bankaútibúa, hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir lagasetningu, ef með þarf, um frestun eða afturköllun leyfa til þeirra bankaútibúa sem ekki hafa hafið starf, sem eru a.m.k. samvinnubankinn á Ísafirði og Sparisjóður Hafnarfjarðar, en eins og fram kom í síðustu viku sagði ráðh. að hann gæti ekki afturkallað þessi leyfi nema slíkt væri sérstaklega heimilað í lögum. Því er spurning mín hvort ráðh. sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir slíkri lagasetningu eða styðja slíka lagasetningu.

Hæstv. ráðh. sagði líka í síðustu viku að hann færi ekki dult með það sjálfur að útibúaskömmtun væri sér ekki að skapi, en teldi rétt að gera kröfu um ákveðna eiginfjárstöðu miðað við niðurstöðu efnahagsreiknings og hve hátt hlutfall af eigin fé viðkomandi stofnun sé heimilt að hafa í fjárfestingu. Með þetta í huga hlýtur hæstv. ráðh. að hafa kynnt sér eiginfjárstöðu þeirra innlánsstofnana sem fengu leyfi til að byggja 11 ný bankaútibú, a.m.k. þeirra sem ekki hafa hafið starfsemi og unnt væri að stöðva eða afturkalla heimildir til, til að mynda með lagasetningu. Því vil ég spyrja ráðh. sérstaklega að því, hvort hann hafi kynnt sér til að mynda eiginfjárstöðu Samvinnubankans í árslok 1982 og vænti ég svara við því, en Samvinnubankinn fékk heimild á síðustu dögum fyrrv. ríkisstj. til að byggja útibú á Ísafirði.

Í viðtali við Þórð Ólafsson forstöðumann Bankaeftirlitsins kemur fram í Tímanum 18. okt. s.l., að erfitt sé að koma auga á að stofnun nýrra afgreiðslustaða hafi stuðst við brýna þörf fyrir aukna bankaþjónustu og nefnir sem dæmi fjölgun afgreiðslustaða á Akureyri, Hafnarfirði og Selfossi og nú nýlega á Patreksfirði og Ísafirði. Á öllum þessum stöðum segir hann vera starfandi eitt eða fleiri bankaútibú eða sparisjóði.

Einnig kemur fram í þessu sama viðtali við Þórð Ólafsson að á árinu 1982 var eignafærsla í efnahagsreikningi banka og sparisjóða liðlega 200 millj. kr. miðað við verðlag þá, sem var fjárfesting þeirra í varanlegum rekstrarfjármunum á því ári, 200 millj. kr. Það er fróðlegt til samanburðar að skoða hvað útlán banka og sparisjóða voru mikil á því ári til einstaklinga vegna íbúðakaupa og til húsbygginga. Í heild voru útlán allra banka og sparisjóða 1 milljarður 191 millj. kr. eða aðeins 10.4% af heildarútlánum bankanna. Ég sé ekki annað en þessar 200 millj., sem varið var í útþenslu bankakerfisins á síðasta ári, sé sama upphæð í krónum talið og ríkisstj. ætlar að ná inn með sölu skuldabréfa nú á þessu ári í húsnæðiskerfið. Því er ekki að ófyrirsynju að spurt er nú hvort ekki sé réttara og skynsamlegra að nota peninga, sem bankakerfið hefur yfir að ráða til að auka sínar fjárfestingar, að beina því fjármagni frekar til íbúðakaupenda og húsbyggjenda sem nú búa við neyðarástand.

Ég vænti skýrra svara frá hæstv. viðskrh. við þeim fsp, sem ég hef hér beint til hans.