22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

400. mál, bankaútibú

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru athyglisverðar upplýsingar og tölur sem hér hafa komið fram í sambandi við útþenslu bankakerfisins. Ég held að bæði þingheimi og þjóðinni allri verði ljóst eftir svona upptalningu að það virðast vera til fjármunir í landinu. A.m.k. verður ekki betur séð eftir þessari upptalningu en að innan bankakerfisins séu nægir fjármunir til að þenja út þá starfsemi sem þar á sér stað því að í þessum 11 tilvikum er gert ráð fyrir stofnkostnaði upp á ca. 35 millj. sýnist mér og síðan reksturinn upp á 18–20 millj. Hér er um að ræða á einu ári upphæðir sem svara til rúmlega helmings þess fjármagns sem núv. hæstv. ríkisstj. ætlar á fjárlögum ársins 1984 til allra hafna á Íslandi. Þannig er ástandið í því þjóðfélagi þar sem stjórnvöld ætla að telja fólki trú um að þrýsta verði niður launum, meira að segja þeirra lægst launuðu í landinu niður úr öllu valdi.

Ég er ekki hissa þó að hv. 3. þm. Reykv. hafi verið jafnhógvær og hann var hér í ræðustól áðan þegar litið er til þess að leyfi fyrir öllum þessum 11 útibúum voru veitt í stjórnartíð hans í ríkisstj. Hv. 3. þm. Reykv. ber því ábyrgð að meginhluta, ásamt hinum hæstv. fyrrv. ráðherrunum og þeim meiri hl. sem hér réði ríkjum á þessum tíma, á því hvernig nú er komið. Ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. um að auðvitað verður hér að spyrna við fótum og stöðva þessa þróun, a.m.k. meðan ástand þjóðfélagsins er með þeim hætti sem núv. hæstv. ráðherrar lýsa, og til þess er tækifærið.

Það er komið hér fram frv. til l. á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir bæði að stöðva núverandi Seðlabankabyggingu og stöðva frekari útþenslu á bankakerfinu með því að gefa ekki leyfi til stofnunar útibúa. Það væri fróðlegt að vita afstöðu hæstv. viðskrh. til þessa máls þó að það sé ekki hér á dagskrá. Það tengist þessu. Það væri líka fróðlegt að vita um afstöðu t.d. fyrrv. hæstv. félmrh., 3. þm. Reykv., sem ber ábyrgð á þessari þróun allt til maí á þessu ári, hver hans afstaða er til þeirra hluta að stöðva nú með öllu þessa útþenslu, a.m.k. meðan verið er að koma málum í betra horf. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máti mínu. En ég vil gjarnan óska eftir skýrum svörum hæstv. ráðh. við því, hvaða hug hann ber til þess frv. sem hér er nú lagt fram á Alþingi til stöðvunar á þessu.

Ég vil einnig lýsa óánægju minni með og spyrja hæstv. ráðh. hvort hann telji það í raun og veru fært, eins og í þessu tilfelli með Iðnaðarbankann, að hann neiti að gefa upplýsingar um stöðu þessara mála hjá sér. Er hæstv. bankamálaráðherra í þessu tilfelli sammála því, að Iðnaðarbankanum sé ekki skylt að gefa Alþingi upplýsingar um þessi mál eins og ríkisbönkum og öðrum bönkum?