18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ég ætla mér ekki að fara hér mörgum orðum um verkefnalista hæstv. ríkisstj. eins og hann birtist í kvöld í stefnuræðu hæstv. forsrh. Reynslan hefur nefnilega kennt okkur að sitt er hvað, orð og athafnir. Hæstv. ríkisstj. vantar vafalaust ekki viljann til góðra verka. En að mörgum okkar læðist sá ískaldi ótti að hún sé því miður ekki til stórvirkja. Ég segi því miður, vegna þess að fólkið í þessu landi hefur möglunarlítið lagt fjórðung launa sinna og dýrmæt lýðréttindi að fótstalli hæstv. ráðh., og því er miður ef þessi fórn reynist til einskis.

Lítum á verkin þeirra hingað til. Hæstv. ríkisstj. taldi þau tvö verkefni mikilvægust að lækka verðbólgu og gera breytingar á efnahagskerfinu og stjórn þess. Það fyrra, þ.e. verðbólgulækkunin, hefur fengist fram með því að taka burt 1/4 hluta launa landsmanna og færa til atvinnurekstrarins. Verkalýðsfélögum voru bönnuð raunveruleg afskipti af málinu. Launþegar tóku þessu eins og áður segir af furðulegri rósemi og settu traust sitt á hæstv. ráðh. Slíkt lýsti þjóðhollri afstöðu og trúnaðartrausti til ráðamanna, sem sómi er að.

Það er þess virði að velta fyrir sér hver hefðu orðið viðbrögð ýmissa fjölmiðla og félagasamtaka ef öðruvísi ríkisstj. hefði með lögum nauðbeygt atvinnurekendur í landinu til að greiða fjórðungs launahækkun og fyrirskipað að fjármagna hana með aðhaldi í rekstri. Það hefði líklega heyrst hljóð úr horni.

En nú er fólk að vakna til vitundar um blekkinguna. Það er nú að vakna til vitundar um hina dólgslegu sviptingu réttinda og lífskjara. Það er að vakna til vitundar um að ekki örlar á seinna verkefninu, þ.e. að gera breytingar á efnahagskerfinu og stjórn þess. Nýsköpunarhugmyndir hæstv. ríkisstj. voru nefnilega eins og nýju fötin keisarans.

En hvað lagði Bandalag jafnaðarmanna til málanna í vor? Bandalag jafnaðarmanna lagði á það þunga áherslu að gagnkvæmt traust og samráð frjálsra samningsaðila væri eina leiðin til að tryggja varanlegar efnahagsúrbætur. Við lögðum til að strax yrði sett á fót samráðsstofnun þar sem aðilar vinnumarkaðarins ynnu saman úr öllum gögnum um þróun efnahags- og kjaramála. Við lögðum til að við lok þágildandi kjarasamninga skyldu samningsaðilar látnir um að gera eigin samninga án íhlutunar eða ábyrgðar ríkisvaldsins. Þannig mundu menn semja frjálsir um þau verðmæti sem til skiptanna eru og taka mið af stöðu þjóðarbúsins, atvinnustefnu og verðlagsþróun. Við lögðum til að starfsmannafélögum yrði heimilað að gera viðbótarsamninga við vinnuveitendur sína um kaup og kjör á vinnustað. Þetta er mikið réttlætismál fyrir launþega, því að það er augljóst að afkoma margra atvinnufyrirtækja getur verið með ágætum þótt almennt harðni á dalnum. Við lögðum líka til umfangsmiklar breytingar á starfsemi ríkiskerfisins, fjárfestingarsjóða, banka og Framkvæmdastofnunar. Við lögðum til breytingar á starfssviði þm. til að beina kröftum þeirra frá beinni íhlutun um einstakar framkvæmdir og greiðslur. Við vildum beina kröftum þeirra að löggjafarstarfseminni og því eftirliti sem þar er nauðsynlegt. Menn ættu að bera þessar tillögur, sem byggja á lýðræði, frelsi og samvinnu, saman við aðferðir hæstv. ríkisstj., sem spilar sóló upp annan vallarhelminginn, gefur engum boltann og hefur sett flesta leikmennina í fótjárn.

Hæstv. ríkisstj. hefur ekkert gert sem endurreisir efnahagskerfi landsins. Það þurfti enga stjórnlist, enga nýsköpun til að lækka verðbólguna með aðferðunum sem hún beitti í sumar. En nú spyrja menn sig: Erum við búin að færa þessa fórn til einskis? Átti ekki að nota þetta lag, þessa verðbólgulækkun til að hrinda af stað úrbótum? Þá segir hæstv. ríkisstj.: Þetta tekur tíma, slíkar kerfisbreytingar taka tíma. Ég spyr: Hvað hefur fólkið í landinu langan tíma? Á það að láta sér nægja að hv. alþm. Tómas Árnason sé kosinn í nefnd til að endurskoða störf nafna síns í Framkvæmdastofnun? Ég segi nei. Á það að láta sér nægja að endurbætur í landbúnaði séu þær einar að fella niður gjöld af heyvinnuvélum? Ég segi nei. Á það að láta sér nægja að endurbætur í húsnæðislánakerfi séu tilfærslur úr einum vasa í annan — og svo niðurfelling stimpilgjalda? Ég segi nei.

En ég segi líka að það stórkostlegasta við þennan blekkingarleik allan saman er að þessi stjórn mun aldrei geta gert þær umbætur sem eru nauðsynlegar á stjórn íslenskra efnahagsmála. Til þess þyrfti hún nefnilega að saga í sundur greinina sem hún situr á sjálf. Halda menn að þessi ríkisstj. Framsóknar muni losa um þau kverkatök sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur á verðlagi landbúnaðarins og íslenskri bændastétt? Ég segi nei. Halda menn að þessi ríkisstj. Sjálfstfl. muni senda útgerðarauðvaldið heim af gjörgæsludeild ríkisforsjárinnar? Ég segi nei. Þar stendur nefnilega hnífurinn í kúnni.

Þessi ríkisstj. mun ekki leysa neinn vanda frekar en aðrar ríkisstj. sem þessir flokkar hafa staðið að. Þessir flokkar hafa í raun haldið um stjórnvölinn hér frá lýðveldisstofnun og bera því vænstan skammt ábyrgðarinnar. Flokkarnir segja að breyta þurfi stjórnkerfinu. Ég segi: Þeir þurfa sjálfir að fara út úr stjórnkerfinu. Þegar fjórflokkamenn tala um að breyta stjórnkerfinu eiga þeir í mesta lagi við að þeir færi til nafnspjöldin á hurðunum.

Nú segir einhver: En það voru kjósendur sem réðu þessu sjálfir í vor með því að krossa við lista þessara flokka. Er þetta ekki lýðræði? Þá vildi ég gjarnan geta spurt kjósendur Sjálfstfl. eftirfarandi spurninga: Kusuð þið ekki flokkinn sem stendur vörð um frelsi einstaklingsins? Kusuð þið ekki víðsýnan, frjálslyndan flokk allra stétta? Kusuð þið ekki flokk sem stendur vörð um sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins? Hvernig þykja ykkur svo efndirnar? Hvernig hefur Sjálfstfl. staðið vörð um lýðréttindin í sumar?

Þegar taldar eru upp sakir núv. ríkisstj. standa hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. upp og svara á athyglisverðan hátt. Séu þeir spurðir um sumarþing segja þeir: Við vildum gjarnan að þing kæmi saman í sumar. En í samstarfi fær ekki einn öllu ráðið. Séu þeir spurðir um kjaraskerðinguna segja þeir: Okkur fannst nú kaupmáttarlækkunin kannske full hröð. En í samstarfi fær aldrei einn öllu ráðið. Séu þeir spurðir um samningana segja þeir: Okkur fannst rangt að taka samningsréttinn af fólki því við aðhyllumst frjálsa samninga. En í samstarfi fær aldrei einn öllu ráðið. Mér er spurn: Hverju fá þeir ráðið? Þeir eru stórir og þeir segjast vera sterkir, en þeir fengu hvorki forsrh. né stefnumálin. sjálfstfl. hefur látið litla bróður teyma sig og óhelga sín helgustu vé, lýðræði, þingræði, einstaklingsfrelsi og félagafrelsi.

Mig langar líka til að spyrja kjósendur Framsfl. spurninga: Kusuð þið ekki flokk sem byggir á hugsjónum samvinnuhreyfingarinnar um lýðræðislegt samstarf og samvinnu? Það voru a.m.k. hugsjónir Þingeyinganna sem hrundu þessari félagsmálahreyfingu úr vör. Þeir voru betur að sér um lýðréttindi en núv. forsvarsmenn Framsóknar, sem telja fámennisstjórnir og einræði vænlegast til árangurs. Hvernig skyldi Þingeyingunum gömlu líða núna ef þeir mættu sjá þessa sjálfkjörnu málsvara samvinnuhugsjónarinnar fleygja þinginu út í horn, svipta landsmenn rétti til að semja um mál sín og stjórna svo í krafti einræðis?

Nú stöndum við hér haustið 1983 og ræðum efnahagsmál. Við hefðum getað staðið í þessum sömu sporum s.l. haust, haustið 1978 eða 1974. Að slepptri umræðunni um samningsréttinn hefðu orð vafalaust fallið á líkan hátt. Vandræðin eru nefnilega þau, að það er harla lítill eðlismunur á ríkisstjórnum. Hagsmunaklíkurnar innan stjórnmálaflokkanna koma í veg fyrir að nokkrar verulegar úrbætur séu gerðar á stjórnarháttum. Sérhver gagnrýni eða tillaga til úrbóta stígur ofan á rófuna á einhverjum flokkseigandanum. Nýjasta dæmið má lesa í dagblöðunum í dag þegar kvartað er undan ummælum hæstv. iðnrh. um sölusamtök í fiskiðnaði.

Bandalag jafnaðarmanna var stofnað til að brjóta niður þessa varðturna flokksræðisins og hleypa lýðræði og frelsi inn í íslenskt þjóðlíf. Við munum halda þeirri baráttu áfram og bjóðum alla velkomna til samstarfs innan þings og utan. — Góða nótt.